Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 42/2002

Þriðjudaginn, 19. nóvember 2002



A


gegn


Tryggingastofnun ríkisins



Úrskurður



Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Ósk Ingvarsdóttir læknir og Gylfi Kristinsson skrifstofustjóri.


Þann 31. júlí 2002 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála ódagsett kæra A.


Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni, með bréfi dagsett 3. maí 2002.


Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:


"Þar sem mér er úthlutað fæðingarstyrkur, rúm 38 þúsund, eins og ég væri heimavinnandi, þ.e. hvorki í námi eða í vinnu. Hvernig TR kemst að þessari niðurstöðu er óviðunandi að mínu mati þar sem ég á ekki heima í þessum hópi.


Málavextir eru þannig að ég hef stundað fullt nám (100% eða 15 einingar á önn) í B við HÍ frá haustinu 2000. Haustið 2001 varð ég ólétt meðan ég var í námi og gat sökum mikilla veikinda á meðgöngu (sjá fylgiskjal 5) ekki skilað fullu námi í jólaprófum, einungis 2,5 einingum. Til þess að geta fengið námslán (75%-100 nám) fyrir haustönn 2001 frá LÍN, tek ég sumarpróf nú í ágúst mánuði, í áfanga sem er 5 einingar og með umsókn um aukið svigrúm vegna veikinda/barnsburðar (fylgiskjal 5) hef ég rétt á að LÍN endurskoði úthlutun sína og veiti mér námslán eins og ég hefði verið í 75% námi við viðurkennda menntastofnun (sjá fylgiskjal 2). Á vorönn 2002 tókst mér að ljúka 75% námi, þrátt fyrir áframhaldandi veikindi (grindarlos), sem ég stríði reyndar enn við. Í maí síðastliðinn ól ég síðan stúlkubarn.


Ég tel það sæta furðu að TR taki hvorki tillit til sumarprófa námsmanna né veikinda námsmanna; Í reglugerð Félagsmálaráðuneytisins um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sem öðlaðist gildi 1. janúar 2001, er tekið tillit til, við greiðslur úr Fæðingarorlofsjóði, veikinda móður á meðgöngu sbr. 7. gr. og; veikinda móður í tengslum við fæðingu sbr. 11. gr. Í sömu reglugerð; Greiðslur fæðingarstyrks, er einungis tekið tillit til veikindi móður í tengslum við fæðingu 19. gr. Finnst mér þetta ósamræmi í reglugerðinni koma niður á mér sem stúdínu þar sem mér er ekki veitt sams konar réttindi. Ég vil minna á jafnræðisreglu stjórnsýslulaganna í þessu efni.


Það er til skammar að einstæðri móður sé gert að lifa á rúmum 38 þúsund krónum á mánuði. Ég get engan veginn séð hvernig markmið laganna um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95. frá 22. maí 2000 eiga að kristallast í þessari reglugerð og með þessum úrskurði TR. Samkvæmt 2. gr. laganna er markmið þeirra; að tryggja barni samvistir bæði við föður og móður. Ég get ekki séð hvernig í ósköpunum ég eigi að geta sinnt barni mínu ef sá styrkur sem mér er veittur nægir mér ekki til uppihalds. Er virkilega ætlast til þess að ég hafi fyrirvinnu?


Ég fer fram á að úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála felli úr gildi úrskurð TR frá 3. maí síðastliðnum og að mér verði veittur fæðingarstyrkur sem nema. Ég vil það sé tekið tillit til veikinda minna og sumarprófa á sama hátt og LÍN gerir. Mér þykir það liggja í augum uppi, fyrir alla þá sem skoða mál mitt, að ég á ekki heima í þeim hópi sem að TR setti mig í. Mér finnst ekki rétt að ég eigi að líða fyrir ófullkomnar reglugerðir og vil í þeim efnum minna bæði á jafnræðis- og meðalhófsreglu stjórnsýslulaganna. Einnig vil ég benda á mál nr. 62/2001, mér til stuðnings, þar sem að úrskurður TR er felldur úr gildi og kæranda veittur fæðingarstyrkur sem nema, þótt ekki sé uppfyllt skilyrði um samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. "


Með bréfi, dags. 2. ágúst 2002, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.


Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 12. ágúst 2002. Í greinargerðinni segir:


"Kærð er ákvörðun um greiðslu fæðingarstyrks skv. 18. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000(ffl.). Kærandi kveðst telja sig eiga rétt á fæðingarstyrk námsmanna skv. 19. gr. laganna.


Samkvæmt 19. gr. ffl. eiga foreldrar í fullu námi rétt á fæðingarstyrk. Skilgreiningu á fullu námi er að finna í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000. Þar segir m.a. að fullt nám í skilningi ffl. teljist vera 75-100% nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi eða á háskólastigi, í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Er Tryggingastofnun heimilt að krefjast þess að sýnt sé fram á námsárangur. Í ákvæðinu er að finna undantekningar á skilyrðinu um fullt nám og verður að telja að um tæmandi talningu sé þar að ræða.


Vegna veikinda á meðgöngu lauk kærandi ekki tilskildum einingafjölda á haustönn 2001. Ffl. eða reglugerð heimila ekki að tekið sé tillit til þeirra aðstæðna við ákvörðun á greiðslu fæðingarstyrks námsmanna sbr. ofangreint. Af þeirri ástæðu var kæranda ákvarðaður lægri fæðingarstyrkur."


Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 16. ágúst 2002, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.



Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:


Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um synjun á greiðslu fæðingarstyrks til kæranda sem námsmanns.


Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.


Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til greiðslu fæðingarstyrks.


Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75-100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barns. Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúnings­menntunar og nám á háskólastigi. Samkvæmt upplýsingum frá Háskóla Íslands telst fullt nám á misseri í skólanum vera 15 einingar.


Samkvæmt 4. mgr. 17. gr. ffl. og 7. gr. reglugerðar nr. 909/2000 er fjallað um veikindi á meðgöngu þegar viðkomandi er á vinnumarkaði. Hvorki lögin né umrædd reglugerð taka á veikindum námsmanna af sama tilefni.


Kærandi ól barn 23. maí 2002. Viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 23. maí 2001 til fæðingardags barns. Samkvæmt gögnum málsins var hún ekki í 75-100% námi við Háskóla Íslands á haustmisseri 2001. Hún uppfyllir því ekki skilyrði 1. mgr.19. gr. ffl. um fullt nám í a.m.k. sex mánuði á síðustu tólf mánuðum fyrir fæðingu barnsins, sbr. og 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar.


Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem námsmaður. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur fæðingarstyrks er staðfest.



ÚRSKURÐARORÐ:


Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um greiðslu fæðingarstyrks til A er staðfest.




Guðný Björnsdóttir


Gylfi Kristinsson


Ósk Ingvarsdóttir


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta