Hoppa yfir valmynd
22. nóvember 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Ekki stefnubreyting

Þetta kemur meðal annars fram í svari ráðherra við fyrirspurnum Sivjar Friðleifsdóttur um byggingaráformin. Svar ráðherra og spurningar alþingismannsins fara hér að eftir:

"Svar

heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Sivjar Friðleifsdóttur um nýtt sjúkrahús í Vatnsmýrinni.

   1. Hvað líður áformum um nýtt háskólasjúkrahús í Vatnsmýrinni?

Í janúar árið 2002 var heilbrigðisráðherra kynnt sú ákvörðun að byggt yrði nýtt háskólasjúkrahús á Landspítalalóðinni við Hringbraut. Þessi ákvörðun var m.a. tekin á grundvelli niðurstöðu nefndar sem skipuð var vorið 2001 en verkefni hennar var að fara yfir fyrirliggjandi gögn og hugmyndir um framtíðaruppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss (hátæknisjúkrahúss) á Stór-Reykjavíkursvæðinu.

Vorið 2004 undirrituðu heilbrigðisráðherra og borgarstjóri samkomulag m.a. um skipulag lóðar LSH við Hringbraut. Undirbúningur samkomulagsins var hluti af vinnu nefndar sem samkvæmt erindisbréfi var falið að ljúka frumathugun og greinargerð um hana, vinna að nauðsynlegum samningum um lóðir, sinna deiliskipulagsvinnu með borginni, gera áætlun um forgangsröðun, vinna að tíma- og fjárhagsáætlun fyrir fyrirhugaðar framkvæmdir og skoða fjármögnunarleiðir, m.a. samstarf við einkaaðila.

Þann 18. janúar 2005 var samþykkt í ríkisstjórninni að veita heimild til að halda áfram undirbúningi verkefnisins í samræmi við fyrirliggjandi áætlanir sem voru byggðar á ofangreindum nefndarstörfum.

Samkeppni um skipulag lóðar Landspítala og Háskóla Íslands við Hringbraut lauk haustið 2005. Tillaga hóps innlendra og erlendra hönnuða undir forustu C.F. Möller arkitekta frá Danmörku þótti vænlegust og var samið við þá um framhald vinnunnar.

Í desember 2005 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 133, um ráðstöfun á söluandvirði Landssíma Íslands hf. Í 3. gr. laganna segir: „Verja skal samtals 18.000 millj. kr. til uppbyggingar Landspítala – háskólasjúkrahúss á lóð stofnunarinnar við Hringbraut í Reykjavík. Framlagi þessu skal verja til að ljúka skipulagsvinnu og undirbúningi svæðisins, byggja slysa- og bráðaþjónustu og reisa hús fyrir rannsóknir.“ Þessi lagasetning tryggði fjármuni til þeirrar undirbúningsvinnu sem nú fer fram.

Á árinu 2006 var unnið að ítarlegri þarfagreiningu nýs háskólasjúkrahúss og heilbrigðisvísindadeilda Háskóla Íslands. Að því verki komu um 300 starfsmenn Landspítala og Háskóla Íslands. Á árinu 2007 hefur verið unnið að gerð frumáætlunar á grunni þessarar þarfagreiningar í samræmi við lög um opinberar framkvæmdir.

Í frumáætluninni felst að unnar eru fyrstu teikningar sem sýna skipulag á lóðinni og innra fyrirkomulag spítalans og heilbrigðisvísindadeilda. Frumáætlunin er unnin í nánu samráði við starfsmenn Landspítala og Háskóla Íslands sem og skipulagsyfirvöld í Reykjavík. Samkvæmt samningi við vinningshafana úr skipulagssamkeppninni á frumáætlun að vera lokið í febrúar á næsta ári.
Þegar áætlunin liggur fyrir mun verkefnið verða lagt fyrir samstarfsnefnd um opinberar framkvæmdir og óskað heimilda til þess að hefja endanlega hönnunarvinnu.


   2. Hefur orðið stefnubreyting hvað uppbyggingu þess varðar?

Ný nefnd um fasteignir, nýbyggingar og aðstöðu heilbrigðisstofnana var skipuð í haust og hefur þegar hafið störf. Nefndin hefur m.a. með höndum yfirumsjón með undirbúningi, hönnun og byggingu nýrrar sjúkrahúsbyggingar fyrir Landspítala.

Eitt af verkefnum nefndarinnar er að gera þegar í stað úttekt á núverandi stöðu verkefnisins og þeirri undirbúningsvinnu sem unnin hefur verið. Rétt þykir, áður en hafist er handa við framkvæmdir af þeirri stærð sem hér um ræðir og sem kosta jafnmikið og gert er ráð fyrir, að fara heildstætt yfir alla þætti málsins. Meðal annars er ætlunin að skoða hvort unnt sé að reisa sjúkrahúsið með hagkvæmari hætti en núverandi áætlanir miðast við.

Engar ákvarðanir hafa því verið teknar um stefnubreytingu hvað uppbyggingu háskólasjúkrahúss varðar, en ráðherra mun að fenginni ofangreindri úttekt kynna hvort ástæða sé til að breyta þeim ákvörðunum sem teknar voru á sínum tíma."  



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta