Styrkir til talþjálfunar
Það er heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra sem hefur ákveðið að þeir sem leita til talmeinafræðinga, sem starfa án samninga við samninganefnd ráðherra, fái niðurgreiðslur í formi styrks sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir út.
Ráðherra ákveður styrkinn með reglugerð í framhaldi af því að talmeinafræðingar á höfuðborgarsvæðinu, að einum undanskildum, hafa sagt sig af samningi samninganefndar heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra og Félags talkennara og talmeinafræðinga. Samningurinn gildir til 31. desember 2008 og varðar greiðslur fyrir þjónustu talmeinafræðinga.
Tryggingastofnun ríkisins annast útborgun styrksins skv. reglugerðinni, sem öðlast gildi við birtingu og tekur til meðferðar sem veitt hefur verið frá og með 12. nóvember s.l. þegar talmeinafræðingar sem störfuðu skv. samningi voru orðnir færri en hinir. Jafnframt undirritaði ráðherra reglugerð um breytingu á reglugerð nr. 354/2005 um greiðsluþátttöku Tryggingastofnunar ríkisins í þjálfun. Sú breyting varðar fyrst og fremst útgáfu þjálfunarkorta.
Hvatt er til þess að þeir sem sækja sér þjónustu talmeinafræðinga kynni sér nákvæmlega skilyrðin sem styrkveitingin er háð og koma fram hér að neðan:
Helstu atriði reglugerðanna eru:
- Tryggingastofnun greiðir sjúkratryggðum einstaklingum styrki í stað þess að stofnunin greiði talmeinafræðingum beint í samræmi við umsamda gjaldskrá. Einstaklingar þurfa því að greiða talmeinafræðingum það verð sem þeir setja einhliða upp fyrir þjónustu sína og fá í framhaldinu greiddan styrk fyrir hluta kostnaðarins frá Tryggingastofnun.
- Skilyrði fyrir styrk er að talmeinafræðingur hafi starfsleyfi, starfi sjálfstætt og fullnægi kröfum sem gerðar eru til þeirra sem veita heilbrigðisþjónustu.
- Skilyrði fyrir styrk er að sjúkratryggður afli greiðsluheimildar hjá Tryggingastofnun fyrir fram og að fyrir liggi þjálfunarbeiðni með sjúkdómsgreiningu frá lækni.
- Á reikningi sem sjúkratryggður framvísar í Tryggingastofnun til að fá endurgreiðslu þurfa m.a. að koma fram upplýsingar um nafn, kennitölu, heimilisfang, hvenær meðferðartími hófst og hvenær honum lauk og undirskrift sjúkratryggðs.
- Gert er ráð fyrir að sjúklingur hafi verið lágmarkstíma inni hjá talmeinafræðingi til að eiga rétt á styrk vegna þjálfunar.
- Styrkirnir eru lægri en samsvarar núverandi greiðsluþátttöku vegna þjónustu talmeinafræðinga sem eru með samning.
- Skiptafjöldi í talþjálfun telur upp í þjálfunarkort (afsláttarkort vegna sjúkra-, iðju- og talþjálfunar).
- Þjálfunarkort veitir ekki rétt til hærri styrks vegna talþjálfunar hjá talmeinafræðingi sem starfar án samnings eftir ákveðinn skiptafjölda á ári, eins og gildir varðandi aðra þjálfun.