Hoppa yfir valmynd
6. desember 2007 Heilbrigðisráðuneytið

Viðbúnaðaráætlanir Íslendinga vekja athygli

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri, Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, og Naresh Dayal, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og fjölskylduráðuneyti Indlands.
Berglind Ásgeirsdóttir, Haraldur Briem og Naresh Dayal, ráðuneytisstjóri í heilbrigðis- og fjölskylduráðuneyti Indlands. Naresh tengist Íslandi þar sem tengdadóttir hans er dr. Soffía Magnúsdóttir.

Dagana 4. - 6. desember var haldinn ráðherrafundur í Nýju Delí um fuglainflúensu og viðbúnað þjóða við heimsfaraldri í boði indversku ríkisstjórnarinnar. Fundurinn var haldinn í samvinnu við fjölmargar alþjóðlegar stofnanir.

Fundir þessir hafa verið haldnir fimm sinnum frá árinu 2005.

Á Indlandsfundinum var lagt mat á stöðu mála og kom þar fram að umtalsverðar framfarir hafa orðið við að greina og bregðast við faraldi í fuglum. Mikið verk er þó óunnið hvað varðar viðbrögð við þeim viðvarandi vanda sem margar þjóðir þurfa að glíma við þegar fuglainflúensan H5N1 nær bólfestu í lífríkinu.

Á fundinum var fjallað um alþjóðlegt samstarf og viðbúnað einstakra ríkja við heimsfaraldri og ljóst að mikið verk er að vinna í þeim efnum.

Berglind Ásgeirsdóttir, ráðuneytisstjóri, og Haraldur Briem, sóttvarnalæknir, sem sóttu fundinn fyrir hönd Íslands kynntu á fundinum viðbúnaðaráætlun þá sem gerð hefur verið hér og vakti hún verulega athygli fundarmanna.

Sú staðreynd að inflúensulyf fyrir þriðjung þjóðarinnar skuli vera til í landinu vakti athygli, auk þess framvirka samnings sem gerður hefur verið um kaup á bóluefnum fyrir helming þjóðarinnar komi til heimsfaraldurs.

Þá vöktu heimildir um það athygli hvernig beita má opinberum aðgerðum á Íslandi í sóttvarnaskyni, svo sem að loka landinu, banna ferðalög milli landshluta þegar vá steðjar að, hvernig setja má á samkomubann, loka skólum og grípa til fjölmargra aðgerða sem sannanlega draga úr smithættu.

Mikið starf hefur verið unnið til að skipuleggja og samhæfa aðgerðir af þessu tagi. Í því sambandi má minna á að nýlega tóku fulltrúar frá Sóttvarnastofnun Evrópubandalagsins (ECDC) út viðbúnað Íslendinga vegna heimsfaraldurs inflúensu. Fram kom að margt hefði verið vel gert, sérstaklega væri til fyrirmyndar samvinna sóttvarnalæknis og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og einnig sú mikla áhersla sem lögð væri á samvinnu við önnur ráðuneyti, stofnanir, fyrirtæki og félög í landinu.

Á fundinum var ræddur fjárhagslegur stuðningur við ríki sem þurfa á aðstoð að halda til að tryggja betur sóttvarnir sínar. Ísland hefur skuldbundið sig til að greiða 400 000 bandaríkjadali á árunum 2006 - 2008.

Á fundinum var samþykktur vegvísir fyrir aðgerðir næsta árs. Lögð var áhersla á að öll ríki settu sér tilgreind markmið sem eiga að verða að veruleika á árinu 2008 að því er varðar viðbúnað við fuglainflúensu og heimsfaraldri inflúensu. Markmiðin taka til mannfólksins, dýra og umhverfisins, en þetta er einmitt sá grundvöllur sem áætlanir hér hvíla á.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta