Sneiðmyndatæki formlega afhent
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, tók á móti sneiðmyndatæki í Heilbrigðisstofnuninni í Ísafjarðabæ í vikunni. Það var Gísli Jón Hjaltason, fulltrúi þeirra sem söfnuðu fyrir sneiðmyndatækinu, sem afhenti Guðlaugi Þór Þórðarsyni, heilbrigðisráðherra, tækið við hátíðlega athöfn í Heilbrigðisstofnun Ísafjarðabæjar sl. þriðjudag. Tækið var keypt fyrir samskotafé en fjölmörg félög, fyrirtæki og einstaklingar lögðu sitt af mörkum í þessu sambandi. Um 17 milljónir króna söfnuðust en þar sem tækið kostaði 11 milljónir var ákveðið að nota það fé sem umfram var til annarra tækjakaupa fyrir sjúkrahúsið. Heilbrigðisráðherra var á ferð vestra í vikunni. Hann heimsótti sjúkraskýlið í Bolungarvík og ræddi við forystumenn Heilbrigðisstofnunarinnar á Ísafirði, bæjarráðsmenn Ísafjarðarbæjar, bæjarstjóra Bolungarvíkur og sveitarstjóra Súðavíkurhrepps.