Samið um hugræna atferlismeðferð
Guðlaugur Þór Þórðarson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, staðfesti á ferð sinni um Austurland nýja samninga um hugræna atferlismeðferð. Heilbrigðisráðherra var eystra til að kynna sér og skoða aðstöðu Heilbrigðisstofnunar Austurlands á Fljótsdalshéraði og í Fjarðarbyggð og var skrifað undir samningana við það tækifæri.
Meðferð sem boðið er upp á samkvæmt samningunum er einkum ætluð sjúklingum sem eiga við kvíðaröskun og þunglyndi að stríða. Einnig er boðið upp á meðferð sem ætluð er sjúklingum með lágt sjálfsmat. Samningarnir eru tveir, annars vegar samningur Landspítala við Heilbrigðisstofnun Austurlands og Heilbrigðisstofnunina á Ísafirði og hins vegar samningur Landspítala við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra staðfesti báða samningana i ferð sinni til Austfjarða í gær, en ráðuneytið veitir sérstaka fjárveitingu til verkefnisins.
Markmið samninganna er að auka þekkingu heilbrigðisstarfsfólks heilsugæslunnar á heilbrigðisvanda af geðrænum toga og hugrænni atferlismeðferð. Starfsfólk Landspítala með sérþekkingu á þessu sviði heimsækir stofnanir á landsbyggðinni og í heilsugæslustöðvarnar á höfuðborgarsvæðinu þar sem meðferðin fer fram. Jafnframt eru haldin námskeið fyrir heilbrigðisstarfsmenn um úrræði vegna heilbrigðisvanda af geðrænum toga og hugræna atferlismeðferð. Árleg greiðsla vegna samnings við Heilbrigðisstofnanirnar á Austurlandi og Ísafirði er tæpar átta milljónir króna til beggja stofnana en tæplega sjö milljónir króna renna til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins vegna þessa tiltekna verkefnis.