Hoppa yfir valmynd
28. desember 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Tilkynning varðandi brjóstafyllingar frá Frakklandi

Embætti landlæknis og Lyfjastofnun hafa sent frá sér eftirfarandi tilkynningu vegna umfjöllunar um franskar brjóstafyllingar Poly Implant Prothese (PIP):

LyfjastofnunÍ mars 2010 voru PIP brjóstafyllingar teknar af markaði í Evrópu vegna meintra lélegra gæða silikonefnisins sem notað var. Framleiðandinn reyndist hafa notað annað efni en það sem hann fékk vottað fyrir CE gæðamerkingu á brjóstafyllingum fyrirtækisins.

Á Þorláksmessu 23. desember s.l. lýsti franska lyfjastofnunin, Afssaps, því yfir að ekki sé sýnt fram á tengsl PIP brjóstafyllinga og krabbameins. Franskur sérfræðingahópur komst að þessari niðurstöðu eftir ítarlega skoðun á tugþúsundum kvenna.

Heilbrigðisöryggisnefnd Evrópusambandsins hefur fundað um málið og fengið upplýsingar frá mörgum Evrópulöndum. Niðurstaða hennar er að ekki séu tengsl á milli krabbameins og PIP brjóstafyllinga.

Algengasta aukaverkun brjóstafyllinga er rof í fyllingunni sem á almennt við um brjóstafyllingapúða. Slíkt gerist í um 1-2% tilvika og leiðir til leka sílíkons í nærliggjandi vefi. Niðurstöður rannsókna í Frakklandi gefa til kynna að PIP brjóstafyllingar leki meir en aðrar fyllingar en breska eftirlitsstofnunin telur að svo sé ekki. Breska lyfjastofnunin , MHRA, hefur einnig rannsakað hvort silikonefnið sem notað var í PIP brjóstafyllingarnar hafi haft einhver eiturverkandi áhrif og komist að þeirri niðurstöðu að svo sé ekki. Bretar mæla því ekki með að konur láti fjarlægja PIP brjóstafyllingar.

PIP brjóstafyllingar hafa verið notaðar hér á landi í um tvo áratugi og hafa um 400 konur fengið slíkar fyllingar. Lýtalæknar sem hafa notað þessa tegund brjóstafyllinga munu nú senda þeim konum bréf með upplýsingum og ráðgjöf um hvað þær þurfi að gera.

Embætti landlæknisEmbætti landlæknis og Lyfjastofnun ráðleggja konum sem hafa áhyggjur af stöðu brjóstafyllinga sinna að hafa samband við lýtalækninn sem framkvæmdi aðgerðina til að fá upplýsingar um tegund brjóstafyllingarinnar og ráðleggingar um hvað beri að gera.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta