Fræðirit um fæðingarorlof á Íslandi
Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands hefur í samvinnu við félags- og tryggingamálaráðuneytið gefið út fræðirit á ensku um fæðingarorlof á Íslandi. Bókin sem heitir Equal Rights to Earn and Care – Parental Leave in Iceland var skrifuð í tilefni fundar sem haldinn var á Íslandi í október síðastliðnum um þetta efni.
Fundurinn var haldinn að ósk Evrópusambandsins í samstarfi við félags- og tryggingamálaráðuneytið og fjallaði um fyrirkomulag og framkvæmd fæðingarorlofs á Íslandi. Rúmlega 40 sérfræðingar frá 14 Evrópulöndum sóttu fundinn til að kynna sér fyrirkomulag fæðingarorlofs á Íslandi í tengslum við verkefnið „Programme of exchange of good practises in gender equality“ sem styrkt er af Progress, jafnréttis- og vinnumálaáætlun Evrópusambandsins,
Ný lög um fæðingar- og foreldraorlof tóku gildi árið 2000 og kveða á um jafna hlutdeild mæðra og feðra í fæðingarorlofi. Markmið laganna er að skapa feðrum og mæðrum jöfn tækifæri til atvinnuþátttöku og fjölskyldulífs. Í bókinni fjalla sex íslenskir fræðimenn um niðurstöður rannsókna sinna á áhrifum fæðingarorlofslaganna á stöðu kynjanna, vinnumarkað, umönnun barna og frjósemi. Þegar fæðingarorlofstaka íslenskra feðra er borin saman við önnur lönd kemur í ljós að íslenskir feður taka hæst hlutfall heildarorlofs og hefur þessi staðreynd vakið alþjóðlega athygli.
Nánari upplýsingar um bókina Equal Rights to Earn and Care – Parental Leave in Iceland eru á heimasíðu Þjóðmálastofnunar Háskóla Íslands: http://www.thjodmalastofnun.hi.is/