Hoppa yfir valmynd
30. mars 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fæðingar- og foreldraorlofsmál

Fréttatilkynning til fjölmiðla

Félagsmálaráðherra hefur ákveðið að leggja fram á Alþingi frumvarp til breytinga á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof. Hinu nýja fæðingarorlofskerfi var meðal annars ætlað að jafna betur stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði samhliða því að gefa þeim tækifæri til að skipta með sér umönnun barna sinna. Þegar á heildina er litið telur ráðuneytið að lögin hafi skilað árangri í samræmi við þau markmið og að almenn sátt ríki um efni laganna innan samfélagsins.

Kerfið hefur hins vegar reynst kostnaðarsamt og sýna fjárhagsáætlanir Fæðingarorlofssjóðs að sjóðurinn muni ekki standa undir skuldbindingum sínum að óbreyttu. Tilgangur þessa frumvarps er því fyrst og fremst að renna styrkari stoðum undir fæðingarorlofskerfið með því að treysta betur stöðu þess og koma böndum á útgreiðslur úr Fæðingarorlofssjóði.

Lagðar eru til breytingar á lögunum sem miða annars vegar að því að draga úr útstreymi Fæðingarorlofssjóðs og hins vegar að auka tekjur hans. Breytingin á þó ekki að leiða til skerðinga á réttindum allflestra foreldra frá því sem nú er, ekki þykir ástæða til að leggja til grundvallarbreytingar á kerfinu sjálfu í ljósi markmiða þess. Með breytingunum er verið að undirstrika tilgang kerfisins sem er að gera foreldrum kleift að leggja niður störf til að annast börn sín án þess að tekjur skerðist verulega á meðan. Er aukin áhersla lögð á að sjóðnum er einungis ætlað að bæta hluta þeirra tekna sem foreldri raunverulega hafði á viðmiðunartímabilinu samkvæmt upplýsingum skattyfirvalda. Samhliða eru jafnframt lagðar til breytingar á fjármögnun sjóðsins innan tryggingagjaldsins, sbr. lög nr. 113/1990, um tryggingagjald.

Helstu breytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu eru:

  • Ráðstöfun tryggingagjalds til Fæðingarorlofssjóðs verði aukið úr 1,08% af gjaldstofni III. kafla laga um tryggingagjald í stað 0,85% áður. Þessi breyting svarar til millifærslu milli atvinnutryggingagjaldsins og almenna gjaldsins (0,15%) sem og millifærslu innan almenna gjaldsins (0,08%).
  • Hámarksgreiðsla úr Fæðingarorlofssjóði miðist við 600.000 kr. meðaltal heildarlauna þannig að greiðslur til foreldra með 600.000 kr. eða lægri meðalmánaðartekjur munu verða áfram 80% af meðaltali heildarlauna á tilteknu viðmiðunartímabili.
  • Viðmiðunartímabil, sem meðaltal af heildarlaunum er miðað við, verði lengt úr 12 mánuðum í 24 mánuði. Áfram er þó tekið tillit til er foreldrar hafa ekki verið á vinnumarkaði allt viðmiðunartímabilið.
  • Samkeyrsla Fæðingarorlofssjóðs við skattkerfið sem meðal annars felst í því að viðmiðunartímabilið miðast við tekjuár og uppgjör sjóðsins fer fram samhliða árlegri álagningu skattyfirvalda.
  • Heimild til að leiðrétta greiðslur til foreldra úr Fæðingarorlofssjóðnum þegar endanleg álagning skattyfirvalda liggur fyrir.
  • Endurkröfuheimild vegna ofgreidds fjár úr Fæðingarorlofssjóði en þar á meðal er gert ráð fyrir heimild til skuldajöfnunar milli útgreiðslu skattkerfisins og ofgreiðslu Fæðingaorlofssjóðs.
  • Meira eftirlit með framkvæmd laganna.

Er áætlað að framangreindar breytingar muni tryggja afkomu Fæðingarorlofssjóðs miðað við núverandi útgjöld.

Verði frumvarp þetta að lögum frá Alþingi er gert ráð fyrir að breytingarnar taki gildi 1. janúar 2005. Mun það því ekki hafa áhrif á skuldbindingar Fæðingarorlofssjóðs vegna foreldra barna er fæðast, eru ættleitt eða tekin í varanlegt fóstur á árinu 2004.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta