Vinnumál
Félagsmálaráðherra, Árni Magnússon, skipaði í dag nefnd til að endurskoða málefni er varða atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Þar undir falla lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, lög um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, nr. 46/1997, og lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 13/1997. Markmiðið með endurskoðuninni er að bæta stöðu og öryggi fólks sem er atvinnulaust, fjölga úrræðum vinnumiðlunar til gera atvinnuleitendum kleift bæta starfshæfni eða skipta um starfsvettvang og auka skilvirkni almennt. Nefndinni er einkum falið að fjalla um eftirfarandi þætti og koma eftir atvikum með tillögur til breytinga eða úrbóta:
- Stjórnsýslu og ábyrgð í málaflokknum, þ.m.t. að leita leiða til þess að samræma betur yfirstjórn þessara málaflokka og einfalda ákvarðanatöku, fækka stjórnum, ráðum og nefndum og tryggja betri yfirsýn yfir málaflokkinn.
- Endurskoðun réttar til bóta, bótatíma og bótafjárhæðar, m.a. með tilliti til þróunar annarrar tryggingaverndar hér á landi, breytinga á samfélagsháttum, viðhorf og þróun á hinum Norðurlöndum og á Evrópska efnahagssvæðinu.
- Úrræði sem eru á færi Vinnumálastofnunar og vinnumiðlana til að aðstoða atvinnuleitendur og skipulag þeirra, þ.m.t. aðferðir og árangur, styrki og stuðning við starfstengda menntun.
Nefndina skipa:
Sigurjón Örn Þórsson, skipaður af félagsmálaráðherra, formaður,
Árelía Eydís Guðmundsdóttir, skipuð af af félagsmálaráðherra,
Helga Jónsdóttir, tiln.af fjármálaráðuneyti.
Grétar Þorsteinsson, tiln. af Alþýðusambandi Íslands,
Ragnar Árnason, tiln. af Samtökum atvinnulífsins,
Sjöfn Ingólfsdóttir, tiln. af Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja.
Með nefndinni starfa Gylfi Kristinsson, skrifstofustjóri í félagsmálaráðuneytinu, Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, og Hanna Sigr. Gunnsteinsdóttir, lögfræðingur í félagsmálaráðuneytinu, sem verður starfsmaður nefndarinnar.