Laust embætti forstöðumanns Rannsóknarmiðstöðvar Íslands
Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) er þjónustustofnun sem heyrir undir menntamálaráðuneyti og gegnir mikilvægu hlutverki fyrir allt rannsókna-, þróunar- og nýsköpunarstarf í landinu. Rannís starfar á grundvelli laga nr. 3/2003 um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Hlutverk Rannís er að veita faglega aðstoð og þjónustu við undirbúning og framkvæmd vísinda- og tæknistefnu Vísinda- og tækniráðs.
Í samræmi við framangreint er embætti forstöðumanns Rannsóknamiðstöðvar Íslands auglýst laust til umsóknar.
Menntamálaráðherra skipar forstöðumanninn til fimm ára í senn. Hann skal hafa háskólapróf og þekkingu á starfssviði stofnunarinnar. Forstöðumaður annast daglegan rekstur stofnunarinnar, er í fyrirsvari fyrir hana út á við og ber ábyrgð á rekstri hennar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.
Jafnframt annast forstöðumaður ráðningu annarra starfsmanna stofnunarinnar.
Leitað er að kraftmiklum og hugmyndaríkum einstaklingi sem býr yfir leiðtogahæfileikum og náð hefur árangri í stjórnun og rekstri. Viðkomandi verður að hafa góða samskiptahæfni ásamt sveigjanleika og frumkvæði til að leiða stofnunina áfram í alþjóðlegu og síbreytilegu umhverfi.
Boðið er upp á krefjandi starf í frjóu starfsumhverfi skipuðu öflugum sérfræðingum á sviði vísinda- og tæknimála. Starfið felur í sér náið samstarf við ráðuneyti og starfsnefndir Vísinda- og tækniráðs.
Skipað verður í embættið 1. apríl 2008. Um laun forstöðumanns fer eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. lög nr. 47/2006 um kjararáð.
Nánari upplýsingar um starfið veitir Kristín Jónsdóttir skrifstofustjóri upplýsinga- og þjónustusviðs. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist menntamálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík fyrir föstudaginn 15. febrúar nk.
Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um skipun í embættið hefur verið tekin. Við ráðningar í störf hjá menntamálaráðuneytinu er tekið mið af jafnréttisáætlun ráðuneytis.