Símaleikir nýttir til vitundarvakningar um loftslagsvána
Sameinuðu þjóðirnar nýta sér í vaxandi mæli símaleiki til þess að ná til almennings um mikilvægar áskoranir sem heimurinn stendur frammi fyrir. Hlýnun jarðar er eitt af brýnu viðfangsefnum samtímans og Þróunaráætlun Sameinuðu þjóðanna (UNDP) hefur þróað símaleik um markmið Parísarsamkomulagins sem heitir einfaldlega: Mission 1,5.
Fréttaveita Sameinuðu þjóðanna segir frá því að starfsmaður UNDP, Cassie Flynn, hafi tekið eftir því í lestarferðum til og frá vinnu að fjölmargir verið að spila leiki á símum sínum. Hún hafi kíkt yfir öxlina á samferðafólki og séð að einn var að spila Angry Birds og annar Candy Crush. Þá hefði henni flogið í hug að nýta mætti þennan vettvang til þess að koma áríðandi upplýsingum til almennings, ná til fólks gegnum símaleiki, því margir leikjanna hefjast á hálfrar mínútu auglýsingu.
„Í stað þess að þær auglýsingar væru kynning á öðrum símaleik væri til dæmis hægt að kynna loftslagsbreytingar,“ segir hún. Og þar með fæddist hugmyndin um Mission 1,5 sem nú er orðin að veruleika. Gegnum leikinn fræðist fólk um hlýnun jarðar og afleiðingar loftslagsbreytinga, auk þess að geta komið tillögum að lausnum á framfæri svo ná megi einu helsta markmiði Parísarsamkomulagins um að halda hækkun hitastigs jarðar undir 1,5 gráðum á Celsíus.
Í frétt UN News kemur fram að sex milljónir manna hafi þegar leikið Mission 1,5 í 58 löndum og helmingur þátttakenda hafi lokið leiknum. Þá virkar leikurinn líka eins og skoðanakönnun því þátttakendur eru beðnir um álit á nokkrum leiðum sem þeir telja árangursríkastar til að bregðast við vandanum. Þannig verður til umfangsmesta könnun á viðhorfi almennings til aðsteðjandi hamfarahlýnunar. Þær upplýsingar hafa verið nýttar og ræddar á mörgum þjóðþingum auk þess sem umræða um þau viðhorf hafa verið tekin upp á fundum G20 ríkjanna og á síðustu loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow, COP26.