Einföldun regluverks sem snýr að atvinnulífinu - skráningarskylda í stað leyfisskyldu
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur skrifað undir reglugerð um skráningarskyldan atvinnurekstur. Reglugerðin kveður á um skráningu tiltekins atvinnurekstrar í miðlæga rafræna gátt í stað starfsleyfisskyldu. Reglugerðin er í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um rafræna stjórnsýslu og er markmiðið jafnframt að draga úr óþarfa stjórnsýslubyrði með því að bæta viðmót, einfalda aðgengi að stjórnsýslu og auka skilvirkni.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:
„Hér er um að ræða ánægjulegt og stórt skref í átt að rafrænni stjórnsýslu, auknum skýrleika og einföldun á regluverki. Þessi breyting þýðir að aðili sem er að hefja atvinnurekstur á því sviði sem reglugerðin tekur til, skráir starfsemina sjálfur í gegnum vefinn í stað þess að sækja um leyfi og bíða eftir að það sé auglýst og afgreitt. Eftir gildistöku verður afgreiðslutíminn að jafnaði 5 dagar í stað 4-8 vikna eins og kerfið er nú. Heilbrigðisnefndir fá að sama skapi meiri tíma til að sinna þjónustu- og eftirlitshlutverki sínu.“
Reglugerðin gildir um 47 atvinnugreinar. Dæmi um starfsemi sem fellur hér undir eru bifreiða- og vélaverkstæði, bón- og bílaþvottastöðvar, hársnyrtistofur, hestahald, meindýravarnir, nuddstofur, sólbaðstofur, steypueiningarverksmiðjur, niðurrif mannvirkja og efnalaugar.
Með reglugerðinni er rekstraraðilum skylt að skrá starfsemi sína áður en hún hefst. Um er að ræða starfsemi sem lítil áhætta er talin vera af hvað varðar hollustuhætti og mengun. Áhersla er lögð á að afgreiðsluferlið sé auðvelt og að rekstraraðili fái skýrar leiðbeiningar skref fyrir skref. Reglugerðin hefur í för með sér að heilbrigðisnefndir geta nú, í stað tímafrekrar málsmeðferðar vegna leyfisumsóknar, einblínt á leiðbeiningarhlutverk sitt og eftirlit með starfseminni.
Gert er ráð fyrir því að Umhverfisstofnun gefi út starfsskilyrði fyrir skráningarskyldan rekstur og að heilbrigðisnefndir hafi eftirlit með rekstrinum. Unnið er að því hjá Umhverfisstofnun að koma á fót rafrænni gátt á island.is. Miðað er við að gáttin og starfsskilyrðin verði tilbúin þegar reglugerðin tekur gildi 15. nóvember nk.
Stefnt er að því að auk skráningar fari umsóknir um starfsleyfi einnig í gegnum sömu rafrænu gáttina, hvort sem umsóknir eru afgreiddar af heilbrigðisnefndum eða Umhverfisstofnun.
Líkt og OECD hefur bent er „einn viðkomustaður“ (one stop shops) leið fyrir stjórnvöld til að veita betri þjónustu til hagsbóta fyrir almenning og atvinnulíf þar sem allir njóta ávinnings. Samráð hefur verið haft við matvælaráðuneytið vegna matvælalöggjafar og gert er ráð fyrir að öll leyfi og skráningar vegna starfsemi sem heyrir undir það ráðuneyti og vegna hollustuhátta og mengunarvarna verði á einum stað þegar fram líða stundir. Fyrirtæki geti þannig sótt um leyfi í einu ferli í gegnum island.is sem er þá „hlið“ inn á gagnagrunn stofnana.