Hoppa yfir valmynd
1. nóvember 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 416/2023-Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 416/2023

Miðvikudaginn 1. nóvember 2023

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, móttekinni 27. ágúst 2023, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum hans um fjárhagsaðstoð.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Með umsókn, dags. 9. mars 2023, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 28. febrúar 2023. Samþykkt var að veita kæranda fjárhagsaðstoð fyrir febrúarmánuð 2023 en greiðslu synjað fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 12. apríl 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun 24. maí 2023 og var hann veittur með bréfi, dags. 14. júní 2023. Með umsókn, dags. 19. júní 2023, sótti kærandi um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. til 30. apríl 2023. Umsókn kæranda var synjað með bréfi Vesturmiðstöðvar, dags. 23. júní 2023. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti þá synjun með ákvörðun, dags. 28. júní 2023. Kærandi fór fram á rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun 12. júlí 2023 og var hann veittur með bréfi, dags. 24. ágúst 2023.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 27. ágúst 2023. Með bréfi, dags. 31. ágúst 2023, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Reykjavíkurborgar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst 19. september 2023 og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 22. september 2023. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi greinir frá því að hann skilji ekki af hverju honum hafi verið synjað um greiðslu aftur í tímann þegar hann hafi verið að sækja um innan þeirra marka sem sett séu. Sækja megi um þrjá mánuði aftur í tímann en kærandi hafi einungis verið að óska eftir tveimur mánuðum aftur í tímann í annað skiptið og einn mánuð í hitt skiptið. Kærandi skuldi móður sinni peninga sem hann hafi ætlað að borga með greiðslu fyrir þá mánuði sem hann hafi verið hjá henni. Kærandi hafi ekki komist til að sækja um vegna veikinda móður sinnar.

III.  Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall einstæður maður. Kærandi sé húsnæðislaus og hafi glímt við langvarandi félagslegan vanda og húsnæðisleysi. Hann þiggi fjárhagsaðstoð sér til framfærslu og hafi gert það með hléum frá árinu 2013. Þann 9. mars 2023 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu aftur í tímann fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 28. febrúar 2023. Með bréfi, dags. 15. mars 2023, hafi umsókn kæranda vegna tímabilsins 1. febrúar 2023 til 28. febrúar 2023 verið samþykkt. Með bréfi, dags. 21. mars 2023, hafi kæranda verið synjað fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 12. apríl 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna á miðstöð Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð tímabilið 1. desember 2022 til 28. febrúar 2023 skv. 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Svarbréfið frá áfrýjunarnefnd velferðarráðs, dags. 12. apríl 2023, hefði átt að varða tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023 en ekki tímabilið 1. desember 2022 til 28. febrúar 2023, beðist sé velvirðingar á því. Kærandi hafi átt rétt á og hafi fengið greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. febrúar 2023 til 28. febrúar 2023. Þann 24. maí 2023 hafi kærandi óskað eftir rökstuðningi vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðarráðs, dags. 12. apríl 2023, sem hafi verið sendur kæranda með bréfi þann 14. júní 2023.

Þann 19. júní 2023 hafi kærandi sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu aftur í tímann fyrir tímabilið 1. apríl 2023 til 30. apríl 2023. Með bréfi, dags. 23. júní 2023, hafi kæranda verið synjað um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir umrætt tímabil. Kærandi hafi skotið framangreindri synjun til áfrýjunarnefndar velferðarráðs sem hafi tekið málið fyrir á fundi sínum þann 28. júní 2023 og afgreitt það með eftirfarandi bókun:

„Áfrýjunarnefnd velferðarráðs staðfesti synjun starfsmanna miðstöðvar um fjárhagsaðstoð aftur í tímann fyrir tímabilið 1. apríl 2023 til 30. apríl 2023, sbr. 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð.“

Kærandi hafi óskað eftir rökstuðningi þann 12. júlí 2023 vegna ákvörðunar áfrýjunarnefndar velferðarráðs, dags. 28. júní 2023, sem hafi verið sendur honum með bréfi þann 24. ágúst 2023. Þann 27. ágúst 2023 hafi kærandi skotið framangreindum ákvörðunum áfrýjunarnefndar velferðarráðs til úrskurðarnefndar velferðarmála.

Núgildandi reglur um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg með áorðnum breytingum hafi tekið gildi þann 1. apríl 2021 og verið samþykktar á fundi velferðarráðs Reykjavíkurborgar þann 24. febrúar 2021 og á fundi borgarráðs þann 4. mars 2021. Umræddar reglur séu settar á grundvelli 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Litið sé svo á að fjárhagsaðstoð til framfærslu frá sveitarfélagi sé neyðaraðstoð sem ekki beri að veita nema engar aðrar bjargir séu fyrir hendi. Í 1. gr. reglnanna komi fram að skylt sé að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geti séð sér og sínum farborða án aðstoðar, sbr. IV. og VI. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, sbr. og III. kafla reglnanna. Um fjárhagsaðstoð til framfærslu frá Reykjavíkurborg gildi sú meginregla að umsækjandi fái einungis greidda fjárhagsaðstoð til framfærslu ef hann geti ekki framfleytt sér. Umrædd meginregla eigi sér stoð í 2. gr. reglna um fjárhagsaðstoð, sbr. 19. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga sem kveði meðal annars á um skyldu hvers og eins að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára.

Í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg komi fram að ekki sé skylt að veita fjárhagsaðstoð til framfærslu lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn sé lögð fram, sbr. 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð verði að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt sé um.

Í byrjun febrúar 2023 hafi maður í nafni kæranda komið á Vesturmiðstöð með umsókn fyrir tímabilið 1. janúar 2023 til 28. febrúar 2023. Þegar framangreind umsókn hafi verið borin saman við eldri umsóknir kæranda hafi komið í ljós að ekki hafi verið um sömu rithönd að ræða. Umræddur maður hafi ekki getað gefið skýringu á því hvers vegna kærandi hefði ekki komið sjálfur að sækja um fjárhagsaðstoð til framfærslu. Starfsmenn Vesturmiðstöðvar hafi haft samband við kæranda og leiðbeint honum að koma í eigin persónu að skrifa undir umsókn varðandi framangreint tímabil. Kærandi hafi greint frá því að hann kæmist ekki sjálfur að sækja um fjárhagsaðstoð til framfærslu þar sem hann væri hjá móðir sinni sem væri á spítala. Þá hafi kæranda verið bent á að ræða við félagsráðgjafa á spítalanum sem gæti aðstoðað hann við að skila inn umsókn um fjárhagsaðstoð. Næsta dag hafi fyrrnefndur maður komið með handskrifaðan bréfmiða sem á hafi staðið að hann hefði umboð til að sækja um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir hönd kæranda og hann hafi fyllt út umsókn fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023. Í kjölfarið hafi aftur verið hringt í kæranda og honum leiðbeint að koma sjálfur að skrifa undir umsókn um fjárhagsaðstoð til framfærslu. Í febrúar 2023 hafi tveir menn hringt nokkrum sinnum, oft úr erlendu númer, sem hafi báðir sagst vera kærandi og annar þeirra hafi oft á tíðum verið ógnandi og með hótanir í garð starfsfólks Vesturmiðstöðvar. Í samtali við kæranda hafi komið í ljós að hann hefði dvalið töluvert erlendis og því hafi verið óskað eftir að hann myndi skila inn flugmiðum.

Þann 9. mars 2023 hafi kærandi komið á Vesturmiðstöð og sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu vegna tímabilsins 1. febrúar 2023 til 31. mars 2023. Þær umsóknir hafi verið samþykktar með bréfi, dags. 15. mars 2023. Kærandi hafi þann 9. mars 2023 einnig sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023. Óskað hafi verið eftir skýringum á því hvers vegna hann hefði ekki komið fyrr að sækja um fyrir framangreint tímabil og kærandi hafi einungis gefið þá skýringu að móðir hans hafi verið veik. Þá hafi verið óskað eftir flugmiðum kæranda en hann hafi skilað inn flugmiðum frá því í október 2022. Kæranda hafi verið synjað um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023 með bréfi, dags. 21. mars 2023, þar sem ekki hafi verið taldar rökstuddar ástæður fyrir því að kærandi hafi ekki sótt um á réttum tíma. Þá hafi kæranda ítrekað verið leiðbeint að koma á Vesturmiðstöð að sækja um fjárhagsaðstoð til framfærslu sem hann hafi ekki sinnt. Kærandi hafi áfrýjað framangreindri synjun, dags. 21. mars 2023, til áfrýjunarnefndar velferðarráðs með beiðni þann 23. mars 2023. Áfrýjunarnefnd velferðarráðs hafi staðfest synjun starfsmanna Vesturmiðstöðvar á fundi sínum þann 12. apríl 2023.

Í byrjun maí 2023 hafi maður komið á Vesturmiðstöð með útfyllta umsókn vegna fjárhagsaðstoðar til framfærslu fyrir tímabilið 1. apríl 2023 til 31. maí 2023 í nafni kæranda. Undirskriftin á framangreindri umsókn hafi ekki passað við undirritun kæranda og því hafi hún ekki verið tekin gild. Félagsráðgjafi á Vesturmiðstöð hafi í kjölfarið hringt í kæranda og sagt honum að koma í eigin persónu að sækja um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir framangreint tímabil. Kærandi hafi sagst ekki komast þar sem hann væri staðsettur í B hjá veikri móður sinni en fullyrt að undirskriftin sem maðurinn hafi komið með í hans nafni hefði verið hans eigin. Kærandi hafi sjálfur komið á Vesturmiðstöð þann 12. júní 2023 og sótt um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. maí 2023 til 30. júní 2023 sem hafi verið samþykkt.

Kærandi hafi komið í viðtal til félagsráðgjafa á Vesturmiðstöð þann 19. júní 2023 og sótt um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. apríl 2023 til 30. apríl 2023. Þegar kærandi hafi verið spurður að því hvers vegna hann hafi ekki komið fyrr að sækja um fyrir umrætt tímabil hafi hann gefið þá skýringu að hafa verið hjá móður sinni í B þar sem hann dvelji jafnan. Hann hafi sagst ekki hafa í nein hús að vernda í bænum og hefði því ekki haft tök á því að komast aftur til móður sinnar hefði hann komið til Reykjavíkur að sækja um í apríl 2023. Ekki hafi verið talin haldbær rök fyrir því að kærandi hafi ekki komið á réttum tíma að sækja um fyrir tímabilið 1. apríl 2023 til 30. apríl 2023 og því hafi umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu verið synjað með bréfi, dags. 23. júní 2023.

Með hliðsjón af öllu framansögðu hafi áfrýjunarnefnd velferðarráðs því talið að synja bæri kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu aftur í tímann fyrir tímabilin 1. desember 2022 til 31. janúar 2023 og 1. apríl 2023 til 30. apríl 2023 á grundvelli 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg og staðfest synjun starfsmanna Vesturmiðstöðvar á fjárhagsaðstoð fyrir áðurgreind tímabil. Það hafi verið mat áfrýjunarnefndar velferðarráðs að ekki væru fyrir hendi nægjanlega rökstuddar ástæður að baki því að veita kæranda fjárhagsaðstoð aftur í tímann, sbr. 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð.

Með vísan til alls framangreinds verði að telja að ákvörðun áfrýjunarnefndar velferðarráðs Reykjavíkurborgar hafi hvorki brotið gegn fyrrgreindum reglum um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, né öðrum ákvæðum laga nr. 40/1991.

 

 

IV.  Niðurstaða

Kærðar eru ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum kæranda um fjárhagsaðstoð fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023 og 1. til 30. apríl 2023.

Markmið félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og stuðla að velferð íbúa á grundvelli samhjálpar, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laganna skal þess gætt við framkvæmd félagsþjónustunnar að hvetja einstaklinginn til ábyrgðar á sjálfum sér og öðrum, virða sjálfsákvörðunarrétt hans og styrkja hann til sjálfshjálpar. Um leið skulu við framkvæmd félagsþjónustunnar sköpuð skilyrði til að einstaklingurinn geti tekið virkan þátt í samfélaginu á eigin forsendum. Félagsleg þjónusta skuli í heild sinni miða að valdeflingu og miðast við einstaklingsbundnar þarfir og aðstæður. Með félagsþjónustu er átt við þjónustu, aðstoð og ráðgjöf, meðal annars í tengslum við fjárhagsaðstoð, sbr. 1. mgr. 2. gr.

Í 1. mgr. 12. gr. laganna kemur fram að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Þá segir í 2. mgr. 12. gr. að aðstoð og þjónusta skuli jöfnum höndum vera til þess fallin að bæta úr vanda og koma í veg fyrir að einstaklingar og fjölskyldur komist í þá aðstöðu að geta ekki ráðið fram úr málum sínum sjálf. Í athugasemdum með ákvæði 12. gr. í frumvarpi til laga nr. 40/1991 kemur fram að skyldur sveitarfélaga miðist annars vegar við að veita þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og hins vegar að tryggja að íbúar geti séð fyrir sér og fjölskyldum sínum.

Í VI. kafla laga nr. 40/1991 er kveðið á um fjárhagsaðstoð en í 19. gr. laganna kemur fram sú grundvallarregla að hverjum manni sé skylt að framfæra sjálfan sig, maka sinn og börn yngri en 18 ára. Samkvæmt 21. gr. laganna skal sveitarstjórn setja reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar er metur þörf og ákveður fjárhagsaðstoð til einstaklinga í samræmi við reglur sveitarstjórnar, sbr. 2. mgr. sömu greinar. Lög nr. 40/1991 veita þannig sveitarfélögum ákveðið svigrúm til útfærslu á fjárhagsaðstoð til einstaklinga. Í samræmi við það og ákvæði stjórnarskrárinnar um sjálfstjórn sveitarfélaga er mat á þeirri útfærslu að meginstefnu til lagt í hendur hverrar sveitarstjórnar er þjónustuna veitir. Verður ekki við því mati hróflað af hálfu úrskurðarnefndar velferðarmála, svo fremi það byggi á lögmætum sjónarmiðum og sé í samræmi við lög að öðru leyti.

Í 3. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991 kemur fram að aldrei sé skylt að veita fjárhagsaðstoð lengra aftur í tímann en fjóra mánuði frá því að umsókn er lögð fram. Í 7. gr. reglna um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg er samhljóða ákvæði, auk þess sem þar er einnig gert að skilyrði að rökstuddar ástæður þurfi að liggja að baki ef aðstoð sé veitt aftur í tímann og verði skilyrðum reglnanna fyrir fjárhagsaðstoð að vera fullnægt allt það tímabil sem sótt er um.

Umsókn kæranda um fjárhagsaðstoð til framfærslu fyrir tímabilið 1. desember 2022 til 31. janúar 2023 var synjað með vísan til framangreindrar 7. gr. reglnanna en umsóknin barst Reykjavíkurborg 9. mars 2023. Það sama á við um umsókn kæranda fyrir tímabilið 1. til 30. apríl 2023 en hún barst Reykjavíkurborg 19. júní 2023. Kærandi hefur vísað til þess að hann hafi ekki komist til að sækja um fjárhagsaðstoð vegna veikinda móður sinnar. Fyrir úrskurðarnefndinni hefur Reykjavíkurborg vísað til þess að ekki hafi verið talin haldbær rök fyrir því að kærandi hafi ekki komið á réttum tíma að sækja um.

Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við það mat Reykjavíkurborgar að ekki séu haldbær rök fyrir því að kærandi hafi ekki komið á réttum tíma að sækja um fjárhagsaðstoð. Það að móðir kæranda hafi verið veik réttlætir ekki að mati úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki leitað til sveitarfélagsins eftir fjárhagsaðstoð fyrir hvern mánuð sem hann taldi sig vera í þörf fyrir aðstoð. Með vísan til þess er það niðurstaða úrskurðarnefndarinnar að kærandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. reglna Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð. Hinar kærðu ákvarðanir eru því staðfestar.   

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Reykjavíkurborgar um að synja umsóknum A, um fjárhagsaðstoð, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta