Heilbrigðisráðherrar OECD ríkja funda í París
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra tekur þátt í fundi heilbrigðisráðherra OECD ríkja sem nú stendur yfir í París. Á fundinum er m.a. fjallað um hvernig bæta megi nýtingu fjár til heilbrigðismála og sporna við sóun. Útgjöld til lyfjamála vega þungt og gerði Óttarr það að umtalsefni í innleggi sínu á fundinum í dag.
Fundinn sitja heilbrigðisráðherrar hátt í fjörutíu landa og skiptast á upplýsingum og skoðunum um þær áskoranir sem helst er við að fást á sviði heilbrigðismála og fjalla um verkefni sem miða að breytingum og umbótum. Auk þess að fjalla um bætta nýtingu fjár beina ráðherrarnir sjónum að því hvernig best megi nýta nýjustu heilbrigðistækni á sjálfbæran hátt, hvort og hvernig megi aðlaga hlutverk heilbrigðissstarfsfólk betur að breyttum þörfum og loks hvernig megi sem best hagnýta gagnagnótt (e. Big Data) heilbrigðiskerfisins til aukinna framfara.
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra hóf mál sitt með því að lýsa hvernig efnahagshrunið haustið 2008 leiddi til þess að íslensk heilbrigðisyfirvöld þurftu ráðast í margvíslegar aðgerðir til að draga úr lyfjakostnaði hins opinbera. Það hafi m.a. verið gert með því að beina lyfjaávísunum í stórauknum mæli að ódýrari samheitalyfjum í stað frumlyfja, með áherslu á að skerða hvorki aðgengi sjúklinga að lyfjum né draga úr gæðum meðferðar. Ráðherra sagði einnig frá ávinningi af innleiðingu og þróun lyfjagagnagrunns á landsvísu til að bæta meðferð og notkun lyfja og ræddi einnig um nýja lyfjastefnu til ársins 2020 sem lögð var fyrir Alþingi á liðnu ári.
Ráðherra gerði að umtalsefni skort á samkeppni og lélegt aðgengi að ódýrum samheitalyfjum sem væri vandamál á Íslandi, líkt og hjá öðrum fámennum þjóðum. Til að mæta þeim vanda skipti miklu máli að efla samstarf Norðurlandaþjóðanna á sviði lyfjamála en með því mætti eflaust ná hagstæðara lyfjaverði og einnig draga úr hættu á lyfjaskorti. Einnig var töluvert rætt á fundinum um mikilvægi samstarfs þjóða vegna nýrra, sérhæfðra og dýrra lyfja til að lækka verð og tryggja aðgengi.
Átak gegn lifrarbólgu C vekur athygli
Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra sagði að þótt fámennið á Íslandi stæði lyfjamálunum að ýmsu leyti fyrir þrifum væri það ekki alltaf slæmt. Þar vísaði hann í samning heilbrigðisyfirvalda við fyrirtækið Gilead um átak gegn lifrarbólgu C sem hefði það markmið að veita meðferð öllum landsmönnum sem sýktir eru af veirunni, eða um 800 – 1000 einstaklingum, með bestu fáanlegum lyfjum sem fyrirtækið legði til í rannsóknarskyni. Fram kom í máli ráðherra um átakið sem vakti mikla athygli fundarmanna, að um síðustu áramót hafi verið búið að ná til um helmings smitaðra frá því að átakið hófst í febrúar á liðnu ári og að um 300 einstaklingar hafi lokið meðferð.