Ráðherra fundaði með forystu ASÍ
Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra, átti í dag fund með forystu Alþýðusambands Íslands til að ræða margvísleg efni á sviði vinnumarkaðsmála sem heyra undir ráðherrann og varða hagsmuni félagsmanna þessara fjölmennustu samtaka launafólks í landinu.
Til fundarins með ráðherra komu Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ, Ólafía B. Rafnsdóttir og Sigurður Bessason, varaforsetar og Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ.
Á fundinum var rætt vítt og breitt um málefni á borð við stöðu kjarasamninga og verkefni sem tengjast SALEK-samkomulaginu, en SALEK er skammstöfun fyrir samstarf um launaupplýsingar og efnahagsforsendur kjarasamninga. Er þar byggt á rammasamkomulagi aðila vinnumarkaðarins og bókun um lífeyrisréttindi sem ætlað er að tryggja jafnræði í kjaraþróun á grundvelli sameiginlegrar launastefnu og jöfnun lífeyrisréttinda.
Meðal verkefna sem ráðherra lagði sérstaka áherslu á á fundinum má nefna jafnrétti á vinnumarkaði og lögfestingu jafnlaunastaðals gagnvart fyrirtækjum með fleiri en 25 starfsmenn. Ráðherra ræddi einnig um innleiðingu starfsgetumats, sveigjanlegra örorkulífeyriskerfi og nauðsyn þess að tryggja að allir sem verði fyrir skerðingu á starfsgetu vegna sjúkdóma eða slysa fái tækifæri til starfsendurhæfingar.
Að loknum fundi lýsti Þorsteinn ánægju með þessar fyrstu samræður hans við forystu ASÍ sem félags- og jafnréttisráðherra sem hann vonaði jafnframt að legðu drög að farsælu samstarfi á komandi misserum.