Nýtt göngudeildarhús við BUGL tekið í notkun
Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra
Ávarp heilbrigðisráðherra þegar göngudeildarhús
barna- og unglingageðdeildar Landspítala var tekið í notkun
9. september 2008 kl 14:00
Forseti Íslands, starfsfólk barna- og unglingageðdeildar Landspítala, ágætu gestir
Í dag er langþráðum áfanga í geðheilbrigðisþjónustu barna og unglinga á Íslandi náð. Hér er risið nýtt hús sem kemur m.a. til með að hýsa göngudeild barna- og unglingageðdeildar Landspítala. Efnt var til þjóðarátaks vegna fyrirhugaðra endurbóta á BUGL og var fyrsta skóflustungan að byggingu nýs húsnæðis tekin í febrúar 2007. Auk framlags ríkisins hafa fjölmargir lagt lóð á vogaskálarnar og gefið fé til nýbyggingarinnar, s.s. Hringurinn, Thorvaldsenskonur, Kiwainismenn, Lionsmenn, kvenfélagasamtök auk fjölda annarra félagasamtaka, fyrirtækja og einstaklinga. Ég vil nota tækifærið og þakka þeim öllum fyrir framlag þeirra. Einnig vil ég þakka fagfólki BUGL sem hefur lagt sitt af mörkum til þess að gera þessa byggingu sem best úr garði og ekki síður til að ná þeim markmiðum sem sett voru fram í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar á liðnu ári.
Eins og kunnugt er hefur göngudeildarstarfsemi færst í vöxt hér á landi sem erlendis. Sú þróun endurspeglast í starfsemi BUGL þar sem göngudeildar- og vettvangsþjónusta við börn og unglinga hefur vaxið á síðastliðnum árum. Slík starfsemi gerir þjónustuna hagkvæmari með því að færa hana frá almennum legudeildum. Þetta hefur í för með sér færri legudaga og fleiri komur á dag- og göngudeildir.
Í Helsinkiyfirlýsingunni, sem er Evrópuyfirlýsing um geðheilbrigðismál og samþykkt var af heilbrigðisráðherrum aðildarríkja Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í janúar 2005 er lögð áhersla á að börn og unglingar séu forgangshópur sem hlúa þarf að sérstaklega.
Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er það gert með því að leggja áherslu á aukinn stuðning við langveik börn, börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik. Þetta gerðum við fyrir réttu ári og hefur þjónustan við börn og ungmenni aukist verulega þannig að dregið hefur úr biðtíma eftir þjónustu svo sem stefnt var að þegar aðgerðirnar voru kynntar á þessum stað í fyrra.
Þá var ákveðið að veita 150 milljónir króna á næstu 18 mánuðum til að stórauka þjónustu við börn og ungmenni með hegðunar- og geðraskanir. Gert var ráð fyrir að fjölmargir legðu hönd á plóg og ynnu saman, bæði stjórnvöld, stofnanir, fagfólk og foreldrar.
Með samstiltu átaki hefur tekist að:
- ná niður biðlistum á BUGL og taka á uppsöfnuðum vanda. Á rúmu hálfu ári hefur tekist að fækka um rúmlega þriðjung (35%) á biðlista BUGL.
- fjölga starfsfólki á BUGL og
- auka samstarf við fyrsta og annars stigs þjónustuaðila sem sinna börnum með hegðunarvanda og geðraskanir og þannig efla ráðgjafa og fræðsluhlutverk BUGL.
Í heilbrigðisráðuneytinu legg ég ríka áherslu á mikilvægi stefnumótunar. Því er ánægjulegt að sjá að á barna- og unglingageðdeild Landspítala er unnið ötullega að stefnumótun til framtíðar. Í kjölfar hennar hefur verið unnið að margvíslegum gæða- og þróunarverkefnum sem ætlað er að bæta þjónustu við börn og unglinga og aðstandendur þeirra.
Ýmsar nýjungar s.s. þverfagleg samvinna hefur verið aukin með tilraunaverkefnum. M.a. hefur formlegu samstarfi verið komið á við tvær heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu, hafið hefur verið samstarf við Heilbrigðisstofnun Austurlands, haldnir eru reglulegir samstarfsfundir með starfsmönnum þjónustumiðstöðva höfuðborgarsvæðisins auk þess sem starfsfólk BUGL annast handleiðslu og fræðslu fyrir starfsfólk Miðstöðvar heilsuverndar barna. Markmið þessa er að gera þjónustuaðilum utan BUGL mögulegt að sinna og ljúka málum sem annars hefði verið vísað til BUGL og einnig að auka hæfni þeirra til að taka við málum til eftirfylgdar eftir greiningu/meðferð á BUGL.
Ágætu gestir
Byggingar geta orðið tákn um þjónustu. Í þeim felst oftar en ekki metnaðurinn sem menn vilja leggja í viðfangsefnið sem byggingin á að þjóna. Hér er risin glæsileg bygging sem á eftir að valda straumhvörfum í geðheilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni.
Ég þakka öllum þeim sem eiga hér hlut að máli. Ég þakka þeim öfluga hópi fagfólks sem starfar hér á BUGL og óska ykkur til hamingju með að geta veitt ennþá betri þjónustu. Ég óska ykkur alls hins besta í störfum ykkar í framtíðinni.
En fyrst og fremst óska ég skjólstæðingum BUGL til hamingju. Þeir og aðstandendur þeirra eiga skilið þær bestu aðstæður sem nú verður boðið upp á.