Hoppa yfir valmynd
7. október 2008 Heilbrigðisráðuneytið

Opnun upplýsingavefsins Umhuga.is

Guðlaugur Þór Þórðarson
heilbrigðisráðherra

 

Ávarp ráðherra

við opnun upplýsingavefsins Umhuga.is,

þriðjudaginn 7. október 2008 kl 12:00 í Landlæknisembættinu

 

Landlæknir, ágætu starfsmenn og aðrir gestir.

Þrátt fyrir þær sviptingar sem gengið hafa yfir þjóðfélag okkar undanfarnar vikur og sem hafa krafist allrar okkar einbeitingar að lausnum þá er það mikilvægt að halda í sýn til lengri tíma, framtíðarsýn, sem styrkir samfélagið enn frekar til að búa yngstu þegnum landsins sem best þroskaskilyrði.

Það er mér  því sérstök ánægja að  koma hingað í dag og taka þátt í að hleypa af stokkunum verkefni sem ber heitið Umhuga.is og er samstarfsverkefni Landlæknisembættisins, Lýðheilsustöðvar, Miðstöðvar heilsuverndar barna, Barnaverndarstofu, Barna- og unglingageðdeildar Landspítala, Stuðla og Barnaverndar Reykjavíkur.

Verkefni þetta beinist að fræðslu um áhættuþætti þunglyndis og sjálfsskaðandi hegðunar á barns- og unglingsárum. En það sem er enn mikilvægara, áherslan verður ekki síður á  þá þætti í fjölskyldu og samfélagi sem stuðla að því að unga fólkið vaxi upp og nái að þroska hæfileika sína sem mest og best.  

Þetta er í góðu samræmi við þá heilsustefnu sem ég hef  látið vinna að í heilbrigðisráðuneytinu á síðustu misserum og verður kynnt innan tíðar.

Mig langar til þess að nota hér tækifærið og þakka aðstandendum verkefnisins Þjóð gegn þunglyndi  fyrir þeirra vinnu  þau fimm ár sem verkefnið hefur verið rekið. Þar hefur verið lögð áhersla á  að efla varnir gegn afleiðingum þunglyndis fyrir einstaklinga og samfélagið. Og það er sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur í ráðuneyti heilbrigðismála að hafa hjálpað til við að ýta verkefninu úr vör árið 2003.

Aðferðirnar sem beitt hefur verið hafa skilað víðtækum árangri, sem sagt verður frá hér á eftir. Til marks um þetta hefur það Evrópusamstarf, sem Þjóð gegn þunglyndi er aðili að, European Association Against Depression, hlotið tvívegis forvarnarstyrk Evrópuráðsins, og auk þess fyrstu  viðurkenningu, sem  European Health Forum veitir. Og voru margir um hituna.

En snúum okkur aftur að Umhuga.is. Markmiðið með því verkefni er að gera foreldra, og almenning allan meðvitaðri um það sem gerir börn að sterkum einstaklingum, og sömuleiðis, hvað í uppeldi kann að vinna gegn því.

Jafnframt verður fagfólki í heilsugæslu, skólakerfi, félagsþjónustu, í tómstundastarfi barna og innan kirkjunnar boðin fræðsla og þjálfun til að geta sinnt þessum þáttum enn betur en áður.  

Nafnið á verkefninu lýsir hvoru tveggja í senn, umfjöllun um huga okkar, og hinu að það endurspeglar umhyggju okkar fyrir geðheilsu barna og ungmenna  landsins.

Fyrsti þátturinn í "sjósetningunni" er þessi vefsíða sem ég mun opna núna og ég lýsi því jafnframt yfir að Umhuga.is er lögð af stað!


(Talað orð gildir)



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta