Hoppa yfir valmynd
5. desember 2013 Dómsmálaráðuneytið

Mál nr. 4/2013

Hinn 31. október 2013 var á fundi endurupptökunefndar tekið fyrir mál nr. 4/2013:

Beiðni um endurupptöku

máls nr. S-290/2007;

Ríkislögreglustjóri

gegn

Pálma Lorenssyni og Marý Sigurjónsdóttur

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ÚRSKURÐUR:

I. Beiðni um endurupptöku

Með erindi dagsettu 27. febrúar 2013 sem sent var Hæstarétti Íslands óskaði Þuríður Halldórsdóttir hdl., f.h. Marý Sigurjónsdóttur og Pálma Lorenssonar, eftir endurupptöku máls nr. S-290/2007 sem dæmt var í Héraðsdómi Vesturlands 24. nóvember 2008. Þann 9. mars 2013 tóku gildi lög nr. 15/2013 um breytingu á lögum um dómstóla, lögum um meðferð sakamála og lögum um meðferð einkamála. Samkvæmt 12. gr. laga nr. 15/2013 gilda þau um meðferð og afgreiðslu á beiðnum um endurupptöku mála sem borist höfðu Hæstarétti eftir 1. janúar 2013. Hæstiréttur framsendi innanríkisráðuneyti erindið, ásamt öðrum gögnum málsins, 11. mars 2013. Skipað var í endurupptökunefnd 17. maí 2013 og var erindinu komið á framfæri við nefndina 4. júní 2013.

Með vísan til 34. gr. laga nr. 15/1998, sbr. 2. gr. laga nr. 15/2013, fjallar endurupptökunefnd um endurupptökubeiðni þessa. Nefndina skipa Ragna Árnadóttir, Björn L. Bergsson og Hrefna Friðriksdóttir.

II. Málsatvik

Í máli Héraðsdóms Vesturlands nr. S-290/2007, sem dæmt var þann 24. nóvember 2008, var Pálmi Lorensson sakfelldur fyrir brot gegn lögum um virðisaukaskatt, nr. 50/1988, og lögum um staðgreiðslu opinberra gjalda, nr. 45/1987, með því að hafa hvorki skilað á réttum tíma virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna né innt af hendi greiðslur á réttum gjalddögum vegna reksturs fyrirtækjanna Akrasels ehf. og Stillholts ehf. Þá var Marý Sigurjónsdóttir sakfelld fyrir brot gegn sömu lögum með því að hafa með stórkostlegu hirðuleysi brotið gegn skyldum sínum til að hlutast um að skilagreinum og virðisaukaskattsskýrslum yrði skilað vegna reksturs sömu fyrirtækja og gjöldin og skatturinn greiddur. Jafnframt voru brot beggja talin varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með síðari breytingum.

Var Pálmi dæmdur til að sæta fangelsi í sex mánuði. Fullnustu refsingarinnar var frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dómsins, haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. nr. 19/1940. Þá voru Pálmi Lorensson og Marý Sigurjónsdóttir hvort um sig dæmt til að greiða 21 milljón krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins, en ella sæta sex mánaða fangelsi.

Þann 4. mars 2013 ákvað innanríkisráðuneytið að fresta réttaráhrifum dóms Héraðsdóms Vesturlands þar til úrlausn endurupptökunefndar á beiðni endurupptökubeiðenda liggur fyrir.

III. Grundvöllur beiðni

Endurupptökubeiðendur byggja á því að nýtt sönnunargagn liggi nú fyrir í málinu og að fallast beri á endurupptöku þess á grundvelli a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga um meðferð sakamála, nr. 88/2008. Jafnframt er óskað eftir því að endurupptökubeiðendum verði skipaður lögmaður með vísan til 1. mgr. 213. gr. sömu laga. Loks er með vísan til 2. mgr. 213. gr. laga nr. 88/2008 farið fram á að beiðni um endurupptöku fresti réttaráhrifum dóms á meðan meðferð beiðninnar stendur.

Af hálfu endurupptökubeiðenda er vísað til þess að þau hafi meðal annars verið sakfelld fyrir að hafa ekki staðið skil á opinberum gjöldum fyrirtækjanna Akrasels ehf. og Stillholts ehf. Í málinu hafi annar endurupptökubeiðenda, Pálmi Lorensson, greint frá samkomulagi við Birgi Jónsson, útibússtjóra hjá Landsbankanum á Akranesi, þess efnis að greiðslum vegna verksamnings yrði að hluta ráðstafað inn á sérstakan reikning í bankanum þannig að nægt fé yrði fyrir hendi til að gera upp opinber gjöld. Þetta hafi ekki gengið eftir. Endurupptökubeiðendur vísa enn fremur til þess að Marý Sigurjónsdóttir hafi lýst því yfir í málinu að henni hafi verið kunnugt um fyrrgreint samkomulag. Í dóminum komi síðan fram að vitnið Birgir Jónsson hafi ekki kannast við að Landsbankinn á Akranesi hafi tekið að sér sérstaklega að ráðstafa greiðslum sem bárust félögunum inn á tiltekinn reikning fyrir opinberum gjöldum félaganna.

Í endurupptökubeiðninni er greint frá því að Þuríður Halldórsdóttir hdl., lögmaður endurupptökubeiðenda, hafi eftir uppsögu dómsins átt fund með vitninu Birgi Jónssyni. Þar hafi Birgir greint frá því að hann hafi misskilið spurninguna sem beint var til hans sem vitni í málinu og sagt lögmanninum að Landsbanki Íslands á Akranesi hafi, á meðan hann var útibússtjóri, tekið að sér að hafa milligöngu á skilum opinberra gjalda Akrasels ehf. og Stillholts ehf. til sýslumannsins á Akranesi samkvæmt samkomulagi Pálma Lorenssonar fyrir hönd félaganna. Í framhaldi af fundinum hafi Birgir Jónsson undirritað eftirfarandi yfirlýsingu dagsetta 25. febrúar 2013:

„Til þess er málið varðar.

Undirritaður staðfestir hér með að á þeim tíma sem hann var bankastjóri Landsbankans á Akranesi hafi bankinn tekið að sér að hafa milligöngu á skilum opinberra gjalda Akrasels ehf., og Stillholts ehf., samkvæmt samkomulagi þeirra fyrirtækja við Sýslumanninn á Akranesi um greiðslu opinberra gjalda.

Framkvæmdin skyldi vera með þeim hætti að ákveðin % yrði tekin af öllum inngreiddum reikningum Ístaks ehf., og færð á sérstakan reikning og þaðan millifærð til Sýslumannsins á Akranesi samkvæmt samkomulaginu.“

Af hálfu endurupptökubeiðenda er byggt á því að framangreind yfirlýsing sé nýtt og mikilvægt sönnunargagn í málinu. Samkomulagið hafi gengið eftir fyrst um sinn en þann 1. apríl 2005 hafi lögfræðideild Landsbanka Íslands tekið öll mál Pálma í sínar hendur og eftir það hafi fyrrgreint samkomulag Pálma og Birgis ekki verið virt af Landsbankanum.

Í ljósi þess að Landsbankinn hafi tekið að sér að hafa milligöngu um skil á opinberum gjöldum og að bankinn hafi í raun tekið við því fé en ekki skilað til sýslumanns samkvæmt téðu samkomulagi verði að telja ljóst að málið hafi verið dæmt án þess að fyrir lægju staðreyndir þess.

IV. Niðurstaða

Af hálfu endurupptökunefndar er mál þetta tekið til úrlausnar á grundvelli XXXIII. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. lög nr. 15/2013. Í 211. gr. laganna segir að hafi héraðsdómur gengið í sakamáli sem ekki hafi verið áfrýjað og áfrýjunarfrestur liðinn þá geti endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla orðið við beiðni manns, sem telur sig ranglega sakfelldan eða sakfelldan fyrir mun meira brot en það sem hann hefur framið, um að málið verði endurupptekið í héraði ef einhverju skilyrða greinarinnar í stafliðum a-d er fullnægt.

Í 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008 segir að ef beiðni um endurupptöku er bersýnilega ekki á rökum reist hafni endurupptökunefnd henni þegar í stað. Ef beiðni um endurupptöku er ekki hafnað þegar í stað þá fer um frekari meðferð málsins skv. ákvæðum 213. gr. laganna. Í 213. gr. er fjallað um heimild og skyldu eftir atvikum til að skipa dómfellda lögmann vegna beiðni um endurupptöku og um heimild endurupptökunefndar til að fresta réttaráhrifum dóms meðan á meðferð máls stendur.

Í þessu máli liggur fyrir að réttaráhrifum dóms Héraðsdóms Vesturlands hefur í reynd verið frestað meðan beðið hefur verið úrlausnar endurupptökunefndar. Er því ekki þörf á að taka sérstaka afstöðu til beiðni endurupptökubeiðenda um frestun réttaráhrifa þar sem þau hafa notið slíkrar frestunar í reynd. Þá telur endurupptökunefnd að ósk um skipan lögmanns geti ekki komið til álita ef málalok verða með vísan til 3. mgr. 212. gr. sakamálalaga heldur einungis í þeim tilvikum þegar mál er tekið til frekari meðferðar skv. 213. gr. laganna.

Endurupptökubeiðendur vísa til a-liðar 1. mgr. 211. gr. þess efnis að fram séu komin ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk.

Endurupptökubeiðendur byggja beiðni sína á því að fram sé komið nýtt og mikilvægt sönnunargagn sem sýni fram á að Landsbankinn á Akranesi hafi tekið að sér samkvæmt sérstöku samkomulagi að hafa milligöngu um skil á opinberum gjöldum fyrir hönd endurupptökubeiðenda. Því verði að telja ljóst að málið hafi verið dæmt án þess að fyrir lægju staðreyndir þess.

Í dómi Héraðsdóms Vesturlands kemur fram að Pálmi Lorensson taldi sig hafa gert viðhlítandi ráðstafanir til að gerð yrðu skil á öllum gjöldum. Vísaði hann meðal annars til meints samkomulags við útibússtjóra Landsbankans á Akranesi. Birgir Jónsson útibússtjóri bar fyrir dómi að hafa við og við gert plön með ákærða Pálma, meðal annars um að ráðstafa greiðslum hingað og þangað. Fyrir dómi kannaðist Birgir hins vegar ekki við að bankinn hefði tekið að sér sérstaklega að ráðstafa greiðslum inn á tiltekinn reikning fyrir opinberum gjöldum félaganna. Rúmum fjórum árum eftir að dómur var kveðinn upp ritaði Birgir Jónsson undir yfirlýsingu þar sem staðfest er að bankinn hafi tekið að sér að hafa milligöngu á skilum opinberra gjalda.

Við afgreiðslu beiðni um endurupptöku verður að taka afstöðu til þess hvort ætla megi að þessar upplýsingar hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þær hefðu legið frammi þegar dómur gekk.  Í málinu var óumdeilt að virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda af launum starfsmanna var hvorki skilað á réttum tíma né greiðslur inntar af henti á lögbundnum gjalddögum. Þá voru fjárhæðir ágreiningslausar. Í niðurstöðukafla dómsins kemur fram að Pálmi hafi staðfest fyrir dómi að hann hafi verið framkvæmdastjóri beggja félaganna og stýrt rekstri þeirra. Á honum hafi því hvílt sú skylda að sjá svo um ótilkvaddur að virðisaukaskattsskýrslum og skilagreinum vegna staðgreiðslu opinberra gjalda yrði skilað á lögmætum tíma og að gerð yrðu skil á innheimtum skatti og fé sem haldið hafi verið eftir af launum starfsmanna. Í dóminum segir svo:

„Fær engu breytt um þessa ábyrgð sem hvíldi á ákærða sjálfum sú viðbára að hann hafi stýrt tekjum til viðskiptabanka og lánardrottins gegn því að tryggt yrði að fé yrði handbært fyrir þessum gjaldaliðum.“

Hvað varðar Marý Sigurjónsdóttur þá byggði  niðurstaða dómsins á því að á henni hafi hvílt sú skylda að fara með mál félagsins og annast um að skipulag þess og starfsemi væri jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. mgr. 44. gr. laga um einkahlutafélög, og hafi henni borið að annast að nægjanlegt eftirlit væri haft með fjármunum félaganna, sbr. 3. mgr. sömu greinar. Í lögskiptum vegna félaganna hafi hún verið í fyrirsvari og því borið refsiábyrgð vegna þeirra brota sem ákært var fyrir og framin voru í starfsemi félaganna.

Með vísan til framangreindra forsendna héraðsdóms verður ekki á það fallist að yfirlýsing fyrrverandi útibússtjóra Landsbanka Íslands á Akranesi dagsett 25. febrúar 2013 feli í sér ný gögn sem ætla megi að hefðu verulega miklu skipt fyrir niðurstöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk. Endurupptökubeiðendur hafa ekki sýnt fram á að skilyrðum a-liðar 1. mgr. 211. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt.  Þar sem beiðni Marý Sigurjónsdóttur og Pálma Lorenssonar um endurupptöku á máli nr. S-290/2007 þykir bersýnilega ekki á rökum reist telur endurupptökunefnd rétt að  hafna beiðninni þegar í stað, með vísan til 3. mgr. 212. gr. laga nr. 88/2008.  Í ljósi þessa þykja jafnframt ekki lagaskilyrði til að verða við ósk um skipan lögmanns til að gæta réttar endurupptökubeiðenda.

 

ÚRSKURÐARORÐ

Beiðni Marý Sigurjónsdóttur og Pálma Lorenssonar um endurupptöku máls nr. S-290/2007 sem dæmt var í Héraðsdómi Vesturlands 24. nóvember 2008 er hafnað.

 

Ragna Árnadóttir formaður

 

Björn L. Bergsson

 

Hrefna Friðriksdóttir

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta