Hoppa yfir valmynd
30. júní 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 205/2022- Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 205/2022

Fimmtudaginn 30. júní 2022

A

gegn

Reykjavíkurborg

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, dags. 13. apríl 2022, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála afgreiðslu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna beiðni hans um endurmat á stigagjöf í tengslum við umsókn um milliflutning á milli félagslegs leiguhúsnæðis.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála 13. apríl 2022 og vísaði til þess að hann væri búsettur í félagslegu leiguhúsnæði og hefði sótt um milliflutning hjá velferðarsviði. Umsókn hans hafi verið metin til þriggja stiga en að mati kærandi hefði hún átt að vera metin til sjö stiga sem sé hámarkið. Kærandi hafi óskað eftir endurmati en fengið þau svör að ekki væri hægt að breyta stigunum.      

Með erindi til Reykjavíkurborgar, dags. 20. apríl 2022, óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir upplýsingum um hvort fyrir lægju frekari gögn varðandi beiðni kæranda önnur en þau er hann hafi lagt fram með kærunni. Svar barst 22. apríl 2022 þess efnis að tölvupóstsamskipti um stigagjöfina hefðu fylgt með kærunni. Með bréfi úrskurðarnefndar velferðarmála, dags. 6. maí 2022, var óskað eftir greinargerð Reykjavíkurborgar og gögnum málsins. Greinargerð Reykjavíkurborgar barst með bréfi, dags. 1. júní 2022, og var hún send kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 3. júní 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 7. júní 2022.

II. Sjónarmið kæranda

Í kæru kemur fram að kærandi vilji fá að taka prófið aftur sem meti hversu mörg stig umsókn hans er metin til milliflutnings. Möguleikarnir séu þrjú eða sjö stig. Kærandi búi í félagslegu húsnæði og hafi sótt um milliflutning hjá velferðarsviði. Kærandi hafi fengið símtal frá starfsmanni Reykjavíkurborgar sem hafi ekki upplýst kæranda á neinn hátt um ferlið varðandi stigagjöfina. Kærandi hafi fyrir vikið talað lofsamlega um húsnæðið og ekki sagt frá neikvæðum upplifunum af því að búa í húsnæðinu. Umræddur starfsmaður hafi síðan farið í fæðingarorlof og kærandi aldrei fengið upplýsingar um hvað hafi gerst. Eftir ár hafi kærandi farið að vitja um hvað væri að gerast. Kærandi hafi fyrst verið kominn með öll gögn í málinu eftir um það bil eitt og hálft ár og þá vegna kæru til úrskurðarnefndar upplýsingamála. Kærandi hafi sagt tilteknum starfsmanni frá upplifun sinni af viðtali og að hann vildi vera metinn aftur. Kærandi hafi fengið svar um að umsókn hans væri metin til þriggja stiga og miðað við þær upplýsingar sem þau hefðu frá kæranda sæju þau ekki fram á að hægt væri að breyta stigunum.

Kærandi segi svona tómlæti gera hvern mann brjálaðan. Kærandi hafi rekið tiltekinn starfsmann sem félagsráðgjafa sinn vegna trúnaðarbrests sem hafi komið upp á milli þeirra. Þegar kærandi hafi beðið um að fá gögn tengd málinu send hafi hún svarað seint og illa. Þegar hann hafi kært til úrskurðarnefndar upplýsingamála hafi starfsmaðurinn farið í fýlu og ekki svarað fyrirspurn kæranda í átta daga. Eftir að kærandi hafi sagt umræddum starfsmanni upp hafi enginn verið með hans mál.

Kærandi segir að hann hafi verið metinn til þriggja stiga fyrir milliflutning en hefði átt að vera metinn til sjö stiga. Kærandi hafi nú beðið í tvö ár eftir milliflutningi.

III. Sjónarmið Reykjavíkurborgar

Í greinargerð Reykjavíkurborgar kemur fram að kærandi sé X ára gamall karlmaður. Kærandi hafi sótt um milliflutning úr núverandi félagslegu leiguhúsnæði í annað félagslegt leiguhúsnæði með umsókn, dags. 16. apríl 2020, sem hafi verið samþykkt með bréfi þjónustumiðstöðvar Laugardals og Háaleitis, dags. 25. maí 2020. Í framangreindu bréfi hafi komið fram að umsókn kæranda um milliflutning hafi verið metin til þriggja stiga. Kærandi hafi endurnýjað umsókn sína þann 21. maí 2021 og samkvæmt endurmati hafi hann verið metinn til þriggja stiga.

Reykjavíkurborg tekur fram að um félagslegt leiguhúsnæði gildi reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði sem hafi verið samþykktar á fundi velferðarráðs þann 19. janúar 2019 og á fundi borgarráðs þann 27. janúar 2022. Reglur Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði hafi tekið gildi þann 1. júní 2019. Reglur þessar kveði á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum sé skylt að veita. Reglurnar séu settar með stoð í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga, með síðari breytingum, 9. gr. laga nr. 38/2018 um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og 4. tölul. 13. gr. laga nr. 125/1999 um málefni aldraðra. Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. reglna Reykjavíkurborgar sé almennt félagslegt leiguhúsnæði ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem séu ekki á annan hátt fær um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga skuli sveitarstjórnir, eftir því sem kostur sé og þörf sé á, tryggja framboð af leiguhúsnæði handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Af orðalagi ákvæðisins leiði að þeir einstaklingar, sem uppfylli skilyrði reglna sveitarfélags til að fá almennt félagslegt leiguhúsnæði, kunni að þurfa að bíða í nokkurn tíma eftir því að fá úthlutað slíku húsnæði. Unnið sé að því að útvega kæranda annað félagslegt leiguhúsnæði en umsóknum um milliflutning úr núverandi félagslegu leiguhúsnæði í annað sé forgangsraðað með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 3. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði.

Í 4. mgr. 23. gr. framangreindra reglna sé tekið fram að um milliflutning í annað almennt félagslegt leiguhúsnæði gildi eftir atvikum þau matsviðmið sem tilgreind séu í fylgiskjali með reglunum. Í þeim matsviðmiðum séu tveir kaflar þar sem hægt sé að fá stig fyrir einn lið í hverjum kafla fyrir sig. Í fyrsta kaflanum sem nefnist húsnæðisstaða með tilliti til fjölskyldustærðar fái kærandi núll stig þar sem kærandi sé ekki barn á sínu framfæri, ekki í reglulegri umgengni við börn og ekki sé um breytingu á fjölskyldustærð hans um að ræða. Í seinni kaflanum sem nefnist félagslegar og/eða heilsufarslegar aðstæður fái kærandi þrjú stig vegna þess að nokkur vandkvæði séu bundin við núverandi húsnæði sem hann búi í. Næsti möguleiki þar fyrir ofan sé þegar mjög mikil vandkvæði séu bundin við núverandi húsnæði og veiti sjö stig. Framangreindur möguleiki eigi einungis við þegar ástand sé metið sem neyðarástand, svo sem þegar fólk komist ekki út úr húsi. Aðstæður kæranda séu ekki með þeim hætti heldur sé um að ræða hávaða frá nágrönnum.

Reykjavíkurborg líti svo á að borgin hafi þegar tryggt kæranda félagslegt leiguhúsnæði, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. Þann 13. maí 2020 hafi ráðgjafi hringt í kæranda og tjáð honum að símtalið væri viðtal vegna flutningsbeiðni og hafi kærandi óskað eftir milliflutningi í umræddu viðtali. Umrædd símtöl noti ráðgjafar til að útskýra fyrir umsækjendum ferli mála varðandi milliflutning. Í framangreindu símtali hafi kæranda gefist færi á að koma sínum athugasemdum varðandi vandkvæði við núverandi húsnæði á framfæri. Í kjölfar símtalsins hafi kærandi komið athugasemdum sínum varðandi vandkvæði við núverandi húsnæði á framfæri í tölvupóstum við ráðgjafa sem hafi tjáð honum að miðað við gögn málsins væri ekki hægt að hækka stigagjöf hans upp í sjö stig því að vandkvæðin teldust ekki vera nægilega mikil. Stigagjöf sé ávallt framkvæmd af ráðgjafa eftir viðtal við umsækjanda sem meti aðstæður miðað við gefnar forsendur. Ráðgjafi meti í kjölfarið hvort tilefni sé til að skoða aðstæður frekar eða hvort sannreyna þurfi ákveðin atriði. Ekki hafi verið talin þörf á því í umræddu máli. Með hliðsjón af framangreindu sé því hafnað að leiðbeiningum til hans vegna stigagjafar hafi verið ábótavant, sbr. 1. mgr. 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, og að rannsóknarreglunni hafi ekki verið sinnt, sbr. 10. gr. sömu laga.

Þess megi geta að á fundum úthlutunarteymis húsnæðismála dagana. 26. og 27. apríl 2022, hafi kærandi verið tilnefndur í íbúð að B sem varamaður. Aðalmaður hafi afþakkað íbúðina þann 13. maí 2022. Þann 20. maí 2022 hafi verið haft samband við kæranda og honum tilkynnt framangreind úthlutun. Þann 24. maí 2022 hafi hann hafnað úthlutun á fyrrnefndri íbúð.

Með hliðsjón af framangreindu sé það mat Reykjavíkurborgar að málsmeðferð í máli kæranda hafi verið í samræmi við 1. mgr. 7. gr. og 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Kærandi hafi komið sínum áhyggjum varðandi núverandi húsnæði á framfæri og leiðbeiningar til hans um stigagjöf hafi ekki verið ábótavant. Ljóst sé að Reykjavíkurborg hafi ekki brotið gegn lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, ákvæðum stjórnsýslulaga eða ákvæðum annarra laga.

IV. Niðurstaða

Kærð er afgreiðsla velferðarsviðs Reykjavíkurborgar vegna beiðni kæranda um endurmat á stigagjöf í tengslum við umsókn hans um milliflutning á milli félagslegs leiguhúsnæðis.

Í XII. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um húsnæðismál. Þar segir í 1. mgr. 45. gr. að sveitarstjórnir skuli, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Samkvæmt 46. gr. laganna skulu félagsmálanefndir sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í reglum Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði er kveðið á um útfærslu á þjónustu sem sveitarfélögum er skylt að veita, sbr. XII. kafla laga nr. 40/1991. Í 2. mgr. 2. gr. reglnanna kemur fram að almennt félagslegt leiguhúsnæði sé ætlað þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki séu á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum félagslegra aðstæðna, þungrar framfærslubyrðar og lágra launa.

Í 2. mgr. 23. gr. reglna Reykjavíkurborgar um félagslegt leiguhúsnæði kemur fram að heimilt sé að óska eftir milliflutningi þegar þrjú ár eru liðin frá síðustu úthlutun. Umsækjendur um milliflutning geti sótt um undanþágu frá skilyrðinu um þriggja ára búsetu í núverandi félagslegu leiguhúsnæði séu veigamiklar ástæður fyrir flutningi, svo sem alvarlegt heilsuleysi eða mikil vandkvæði bundin við núverandi búsetu. Fullnægi umsækjandi eftir atvikum skilyrðum 4. gr., 7. gr., 11. gr. eða 14. gr. reglnanna raðast umsóknir um milliflutning í forgangsröð með hliðsjón af faglegu mati ráðgjafa og úthlutunarteymis ásamt stigagjöf samkvæmt matsviðmiðum, sbr. 3. mgr. 23. gr. reglnanna. Í 4. mgr. 23. gr. kemur fram að um milliflutninga gildi eftir atvikum þau matsviðmið sem tilgreind séu í fylgiskjölum númer fimm til átta í reglunum. Þá segir í 5. mgr. 23. gr. að umsækjanda skuli tilkynnt skriflega um hvort umsókn hans um milliflutning hafi verið samþykkt á biðlista og hvernig umsókn hans hafi verið metin samkvæmt matsviðmiðum með reglunum. Þá skuli umsækjanda gerð grein fyrir nauðsyn endurnýjunar umsóknar, sbr. 29. gr. reglnanna.

Í máli þessu liggur fyrir að kærandi sótti um milliflutning með umsókn, dags. 16. apríl 2020. Umsókn kæranda um milliflutning var samþykkt á biðlista með bréfi þjónustumiðstöðvar, dags. 25. maí 2020. Kærandi endurnýjaði umsókn sína um milliflutning 21. maí 2021 og 11. maí 2022. Undir rekstri málsins óskaði úrskurðarnefndin eftir upplýsingum frá Reykjavíkurborg um svarbréf sveitarfélagsins vegna síðarnefndu umsókna kæranda. Í svari Reykjavíkurborgar kom fram að það verklag hafi skapast hjá sveitarfélaginu að þegar stigagjöf breytist ekki við endurnýjun umsóknar sé ekki sent nýtt svarbréf.

Samkvæmt 20. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal ákvörðun stjórnvalds tilkynnt aðila máls nema það sé augljóslega óþarft. Þá segir í 2. tölul. 2. mgr. 20. gr. að þegar ákvörðun er tilkynnt skriflega án þess að henni fylgi rökstuðningur skuli veita leiðbeiningar um kæruheimild, sé hún fyrir hendi, kærufrest og kærugjöld, svo og hvert skuli beina kæru. Eins og fram kemur í ákvörðun Reykjavíkurborgar frá 25. maí 2020 má skjóta ákvörðun um stigagjöf til áfrýjunarnefndar velferðarráðs eigi síðar en fjórum vikum eftir að vitneskja berst um ákvörðunina. Það verklag Reykjavíkurborgar að senda ekki sérstakt svarbréf um niðurstöðu stigagjafar þegar umsókn um milliflutning er endurnýjuð er ekki í samræmi við framangreind ákvæði stjórnsýslulaga.

Af erindi kæranda, dags. 15. febrúar 2022, má ráða að hann hafi óskað eftir endurmati á stigagjöf vegna umsóknar um milliflutning. Þann 23. febrúar 2022 fékk kærandi svar frá starfsmanni Reykjavíkurborgar um að að umsókn hans væri eins og er metin til þriggja stiga og miðað við þær upplýsingar sem sveitarfélagið hefði frá kæranda væri ekki hægt breyta stigunum. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi fengið leiðbeiningar um frest til að skjóta ákvörðun um stigagjöf til áfrýjunarnefndar velferðarráðs. Því er lagt fyrir Reykjavíkurborg að taka erindi kæranda til efnislegrar afgreiðslu á þeim vettvangi.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Lagt er fyrir Reykjavíkurborg að taka beiðni A, um endurmat á stigagjöf vegna milliflutnings til efnislegrar afgreiðslu.

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta