Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið

Dagskrá fullveldishátíðar 1. desember 2018

Ríkisstjórn Íslands efnir til fullveldishátíðar í tilefni þess að 100 ár eru liðin síðan Ísland öðlaðist fullveldi. Fjölbreyttir viðburðir ætlaðir almenningi verða í helstu menningarstofnunum þjóðarinnar auk þess sem boðið verður til veislu víða um landið. Hátíðarviðburður í Hörpu að kvöldi fullveldisdagsins verður opinn almenningi gegnum sérstaka gátt í miðasölu Hörpu. Við þessi tímamót er viðeigandi að beina sjónum til framtíðar og því var leitað til ungs fólks við undirbúning hátíðarinnar. Hugarflugsfundir voru meðal annars haldnir í samstarfi við KrakkaRÚV, RÚV núll og stúdentafélög háskólanna, auk þess sem fjöldi stofnana og félagasamtaka hefur lagt hönd á plóg. Það er því sýn ungs fólks til næstu 100 ára sem er leiðarstef dagskrárinnar.


Boðið verður upp á sýningar, samræður, spuna, söng og sögur af öllu tagi, sögur sem ungt fólk tekur þátt í að velja, semja og útsetja. Horft verður fram á veginn til næstu 100 ára með sögu síðustu aldar í farteskinu. Sjónum verður beint að íslenskri tungu en einnig varpað ljósi á þær breytingar sem eru að verða á samsetningu þjóðarinnar – sem er af fjölbreyttum uppruna, á margbreytilegum aldri, með ólíka getu, af öllum kynjum og talar 100 tungumál.

Dagskráin er birt með fyrirvara um að fleiri dagskrárliðir bætist við, auk þess sem einhverjar tímasetningar kunna að breytast. Dagskráin er kynnt í samvinnu við afmælisnefnd fullveldisafmælisins og eru upplýsingar um einstaka viðburði aðgengilegar á heimasíðunni www.fullveldi1918.is. Myllumerki fullveldishátíðar 1. des. er #fullveldisdagurinn og #fullveldi1918

08:30 Upptaktur - Tengt við söguna og haldið í hefðir

Upptaktur fullveldishátíðar fer fram í dagrenningu í Hólavallagarði við Suðurgötu þar sem heiðruð verður minning tveggja forystumanna á leið þjóðarinnar til sjálfstæðis. Stúdentaráð Háskóla Íslands leggur blómsveig á leiði Jóns Sigurðssonar í fylgd forsætisráðherra, forseta Alþingis, háskólarektors og afmælisnefndar fullveldisafmælisins. Því næst verður haldið að leiði Jóns Magnússonar og eiginkonu hans, frú Þóru Jónsdóttur, en Jón var forsætisráðherra 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki. Þar verður endurnýjaður legsteinn á leiði þeirra hjóna afhjúpaður en verkið hefur verið unnið undir forystu Minjastofnunar Íslands í tilefni fullveldisafmælisins og í samstarfi við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma.

13:00 Fullveldishátíðin sett – Framan við Stjórnarráðshúsið

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, setur hátíðina. Haldin verða stutt ávörp í bland við tónlistarflutning. Ungmennaráð Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna tekur virkan þátt í athöfninni og tveir fulltrúar ráðsins ávarpa viðstadda, þau Kristbjörg Mekkín Helgadóttir og Mathias Bragi Ölvisson. Þá mun Jelena Ćirić tónlistarkona flytja ávarp. Söngfólk ásamt blásarasveit annast tónlistarflutning við athöfnina. Tónlistarstjóri er Samúel Jón Samúelsson. Kórarnir sem koma fram eru Hinsegin kórinn, Skólakór Kársness, Kvennakórinn Katla, Múltíkúltíkórinn, Söngfélagið, Karlakór Kjalnesinga, Ekkó kórinn og Léttsveitin, ásamt tveimur söngvurum sem syngja á íslensku táknmáli. Rauði krossinn mun bjóða upp á heitt kakó á Lækjartorgi í tilefni dagsins. Setningarathöfnin verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV. Vakin er athygli á því að skipulagt hátíðasvæði er Lækjartorg, Lækjargata, Bankastræti, Hverfisgata og Arnarhóll og að umferð ökutækja er takmörkuð um svæðið meðan á athöfn stendur

13:30 – 18:00 Fjölbreytt dagskrá menningarstofnana þjóðarinnar

13:30 – Alþingi Íslendinga býður heim
Alþingishúsið opnað almenningi, forseti Alþingis og þingmenn taka á móti gestum til kl. 18:00.

14:00 – Vatnið í náttúru Íslands. Náttúruminjasafn Íslands í Perlunni
Náttúruminjasafn Íslands opnar sína fyrstu stóru sýningu. Sýningin veitir á nýstárlegan hátt innsýn í eina mikilvægustu auðlind landsins, vatnið okkar dýrmæta, leyndardóma þess og mikilvægi fyrir farsæla framtíð og búsetu í landinu. Sérstaklega býður Vatnskötturinn börnin velkomin og fylgir þeim um króka og kima sýningarinnar. Mennta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp ásamt forstöðumanni safnsins og Söngsveitin Fílharmónía flytur tónlist tengda vatni undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar. Sýningarstjóri og aðalhönnuður: Þórunn Sigríður Þorgrímsdóttir.

14:30 – Fáni fyrir nýja þjóð. Harpa 5. hæð
Sýndir fánar sem ekki hafa komið fyrir augu þjóðarinnar áður, t.d. Kjarvalsfáninn úr samkeppninni um fánann 1914 ásamt fánatillögu Kristjáns X. Í tilefni fullveldisafmælisins hafa tveir myndlistarmenn, þau Elín Hansdóttir og Arnar Ómarsson, og tveir hönnuðir, þau Kristín Þorkelsdóttir og Jakob Sturla Einarsson, fengið það verkefni að hanna nýja fána fyrir framtíðarþjóðina og verða fánar þeirra hluti af sýningunni. Við opnunina syngur kórinn KLIÐUR, en hann skipa tónlistarmenn, tónskáld, hljóðfærasmiðir og myndlistarmenn, skáld og stúdentar. Frumflutt verður lag eftir Maríu Huld Markan Sigfúsdóttur við ljóð Vilborgar Dagbjartsdóttur, Maríuljóð. Hönnunarsjóður veitti styrk til sýningarinnar. Sýningarstjóri: Hörður Lárusson.

14:30 – Ný ásýnd Þjóðminjasafns og ársmiðinn innifalinn. Þjóðminjasafn Ísland
Í tilefni fullveldisafmælis kynnir Þjóðminjasafn Íslands veglega gjöf til þjóðarinnar sem felst í því að hver aðgöngumiði í Þjóðminjasafnið og Safnahúsið mun gilda sem árskort frá 1. desember 2018 til 30. nóvember 2019. Þá býður safnið til kynningar á nýrri ásýnd Þjóðminjasafnsins sem markast af sterkum litum með skýra tilvísun í þjóðminjar og menningararf. Hönnuðir: Jónsson & Lemacks: Sigurður Oddsson, Albert Muñoz, Þorleifur Gunnar Gíslason og Svala Hjörleifsdóttir.

15:00 – Með ungum augum. Lifandi leiðsögn Leynileikhússins um sýningar Þjóðminjasafnsins
Hvernig sjá ung augu fornan menningararf Íslands? Í hvaða áttir beina túlkendur á unglings- og barnsaldri hugsun gesta um söguna? Gestum safnsins er boðið að ganga í gegnum grunnsýningu Þjóðminjasafns Íslands Þjóð verður til. Menning og samfélag í 1200 ár og hátíðarsýninguna Kirkjur Íslands í Bogasal, Horni og Myndasal Þjóðminjasafnsins í fylgd skapandi ungmenna.

15:00 – Heimildir.is. Þjóðskjalasafn Íslands
Opnaður nýr vefur sem veitir aðgang að eftirsóttum heimildum í vörslu safnsins, þúsundir skjalabóka og korta verða þannig aðgengileg á einum stað. Jafnframt verða þúsundir skjala í danska ríkisskjalasafninu gerð aðgengileg við þetta tækifæri, skjöl úr dönsku utanríkisþjónustunni sem snerta íslenska sögu í upphafi fullveldistímans. Sú birting er samstarfsverkefni Þjóðskjalasafns Íslands og Ríkisskjalasafns Danmerkur í tilefni af fullveldisafmælinu. Heimildir.is og hið aukna aðgengi er gjöf Þjóðskjalasafnsins til Íslendinga á afmælisárinu. Dagskráin er öllum opin og fá gestir að gjöf bókina Danska sendingin sem safnið gefur út í tilefni afmælisins. Forsætisráðherra Danmerkur, Lars Løkke Rasmussen, verður viðstaddur athöfnina.

17:00 – Sagatid – Nutid. Veröld – Hús Vigdísar
Opnuð verður sýning á myndverkum dönsku listakonunnar Karin Birgitte Lund en myndir hennar skreyta nýja heildarútgáfu Íslendingasagnanna sem út kom í tilefni afmælisársins. Þá verður kynnt ákvörðun Det Nationalhistoriske Museum – Frederiksborg Slot um að stofna tvær stöður nýdoktora til að vinna rannsóknarverkefni byggð á norrænni arfleifð og áhrifum hennar á vísindi, menningu og listir. Auk þess sem máltækniáætlun stjórnvalda verður kynnt, en hún hefur verið falin Almannarómi – Miðstöð um máltækni.

20:00 – Íslendingasögur. Sinfónísk sagnaskemmtun í Eldborg, Hörpu

Í tilefni 100 ára afmælis fullveldisins býður ríkisstjórn Íslands þjóðinni til veislu. Almenningi var gefin kostur á boðsmiðum gegnum sérstaka gátt í miðasölu Hörpu og fylltist hvert sæti í Eldborg á undrahraða. Hátíðarviðburður fullveldisdagsins er nýstárleg sýning í tali og tónum, byggð á sögum Íslendinga fyrr og nú, ofin í myndrænan ljósagjörning. Eftir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands og Margrét II. Danadrottning hafa ávarpað gesti mun Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt einleikurum, söngvurum og leikurum spinna sinfónískan sagnavef ásamt kórunum Schola cantorum og kór Menntaskólans við Hamrahlíð. Í sýningunni er horft fram á veginn til næstu 100 ára með sögu síðustu aldar í farteskinu. Í þessum sinfóníska vef verða fólgnar fjölbreyttar gersemar, t.d. verður frumflutt sigurlag samkeppni afmælisnefndar fullveldisafmælisins, „Landið mitt“ eftir Jóhann G. Jóhannsson, auk frumflutnings á verki eftir Báru Gísladóttur sem samið var gagngert fyrir þetta tilefni. Þá verður flutt ný útgáfa verksins Ad Genua eftir Önnu Þorvaldsdóttur við texta Guðrúnar Evu Mínervudóttur. Þar er um að ræða frumflutning á Íslandi. Listrænn stjórnandi sýningarinnar er Arnbjörg María Danielsen sem ásamt danska video-listamanninum Lene Juhl Nielsen og ljósahönnuðinum Kasper Wolf Stouenborg annast sjónræna útfærslu og umgjörð sýningarinnar. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason. Sýningin, sem unnin er í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands, Hörpu og RÚV, verður í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV.

22:00 – Fokkað í fullveldinu – fullveldisuppistand, kabarett og spuni. Þjóðleikhúsið

Improv Ísland, Reykjavík–Kabarett, Sirkus Íslands, Vandræðaskáldin, Sprite Zero Klan og fleiri uppistands- og spunahópar sem eiga heimilisfesti í Leikhúskjallaranum fá stóra sviðið til umráða og horfa um stund til framtíðar fullveldisins með sínum augum. Leikstjóri: Agnes Wild.

Listi yfir viðburði á dagskrá afmælisnefndar sem fram fara víða um land – hér er einungis um örfáa viðburði að ræða af öllum þeim fjölda sem gerð er grein fyrir á heimasíðunni www.fullveldi1918.is.

13:00 Árbæjarsafn
Fullveldiskaffi með Ara Eldjárn – Uppistand

13:00 Rýmd – Listagallerí í Breiðholti
Samtal tveggja myndlistarkvenna samtímans við Huldu
Skáldkonan Unnur Benediktsdóttir Bjarklind birti sín fyrstu verk fyrir 100 árum, hún ruddi brautina fyrir þær listakonur sem á eftir henni komu. Myndlistarkonurnar Harpa Dís Hákonardóttir og Hjördís Gréta Guðmundsdóttir vilja eiga samtal við Huldu en þær stunda báðar nám í Listaháskóla Íslands.

13:00–15:00 Menntaskólinn á Egilsstöðum, Austurland
„Austfirskt fullveldi – sjálfbært fullveldi“. Tengsl fullveldis og sjálfbærni á Austurlandi með hliðsjón af Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna
Húsnæði Menntaskólans verður nýtt til hins ítrasta, sýningarnar fjórar þar sem Heimsmarkmiðin eru spegluð í gegnum líf austfirskra barna verða settar upp þennan eina dag á sama stað. Nemendur ME varpa ljósi á umhverfismál og sjálfbæra þróun fyrr og nú og ekki síst til framtíðar. Kaffiveitingar á þjóðlegu nótunum, austfirsk ungskáld, lokaverkefni er tengjast sjálfbærri þróun, fjölbreyttar sýningar og teiknimyndasmiðja er meðal þess sem verður í boði.

13:00–16:00 Kjarvalsstaðir
Vísindafélag hverra? – Málþing í tilefni 100 ára afmælis Vísindafélags Íslendinga
Setja má stofnun Vísindafélags Íslendinga í beint samhengi við samþykkt sambandslaganna 1918 og þær framtíðarvonir sem þau glæddu, m.a. fyrir vísindastarf á Íslandi. Á málþinginu verður sjónum beint að sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar, hvernig hún hefur mótast og verið mótuð í gegnum tíðina. Fræðimenn á sviði listrannsókna, bókmennta og mannfræði skoða hugmyndir um íslenska þjóð og íslenskt þjóðríki frá ýmsum sjónarhornum og velta því fyrir sér hvort og hvernig komandi kynslóðir muni bera þær hugmyndir áfram inn í aðra öld fullveldis.

13:00 Borgarbókasafn, Menningarhúsinu í Grófinni
Fullvalda konur og karlar – Ljósmyndasýning
Á sýningunni er varpað ljósi á mikilvægan þátt kvenna í sjálfstæðisbaráttunni. Sýningin er nýstárleg að því leyti að myndum er varpað á tjald í glugganum á Borgarbókasafninu og sýningin því aðgengileg vegfarendum. Hönnuður: Þórey Mjallhvít.

14:00–16:00 Listasafn Árnesinga, Bókasafnið í Hveragerði, Suðurland
Hvernig vinna grunnskólabörn með fullveldishugtakið? - Menningardagskrá barna byggð á listflutningi þeirra og höfundarverkum
Undanfari sýningarinnar er samkeppni sem efnt hefur verið til meðal grunnskólabarna í Hveragerði. Viðfangsefnin eru annars vegar texti en hins vegar myndlistarverk. Tónlistarskóli Árnesinga tekur þátt í verkefninu.

15:00 Listasafnið á Akureyri
Fullveldið endurskoðað – Taka tvö – Rósaboðið
Fjórar rósir bjóða til veislu. Rósirnar spruttu hver á sínum stað og hver á sinni stund liðinnar aldar og hver og ein leggur sitt á borð til hátíðarhaldanna. Gjörningur fluttur af listakonunum Heklu Björt Helgadóttur og Brák Jónsdóttur.

16:00 – 17:30 Reykholtskirkja, Vesturland
Fullveldi til fullveldis – Tónleikar Trio Danois byggðir á stiklum úr tónlistar- og menningarsögunni
Trio Danois skipa þau Jónína Erna Arnardóttir, Morten Fagerli og Pernille Kaarslev. Bergþór Pálsson söngvari verður veislustjóri.

20:00 Hamraborg, Hof Akureyri, Norðurland eystra
Fullveldiskantata eftir Sigurð Ingólfsson og Michael Jón Clarke frumflutt á tónleikum í Hofi
Fullveldiskantatan er nýtt verk í söngleikjastíl unnið í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Norðurlands. Fram koma einsöngvarar ásamt kórnum Hymnodia, ungmennakór og ungum strengjaleikurum. Verkið er ljóðræn útfærsla á þeim breytingum sem verða hjá þjóðinni frá því að hún byrjar að líta hugdjarfari en fyrr til framtíðar, losa af sér hlekki og „klakabönd“ fortíðar. Stjórnandi er Michael Jón Clarke.

20:00 Menningarhúsið Miðgarður, Varmahlíð Skagafirði, Norðurland vestra
„Hver á sér fegra föðurland“ – Skemmtidagskrá kóranna Sóldísar og Heimis
Ungu söngfólki í Skagafirði afhent keflið og því falið að þroska áfram söngmenningu héraðsins.

 

Dagskrá fullveldishátíðar 1. desember 2018


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta