Hoppa yfir valmynd
27. maí 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Brýr milli iðnnáms og háskólanáms

Fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Samtaka iðnaðarins, Tækniskólans, Iðunnar fræðsluseturs og Rafmenntar ásamt mennta- og menningarmálaráðherra. - myndHáskólinn í Reykjavík
Iðn- og starfsnám er góður undirbúningur fyrir margvíslegt tækninám á háskólastigi og sóknarfæri felast í að byggja fleiri brýr á milli þeirra skólastiga. Í gær skrifuðu fulltrúar Háskólans í Reykjavík, Samtaka iðnaðarins, Tækniskólans, Iðunnar fræðsluseturs og Rafmenntar undir viljayfirlýsingu um samstarf sín á milli sem miða mun að því að kortleggja, efla og kynna tækifæri í háskólanámi með atvinnutengd lokamarkmið, eftir iðnnám og aðra starfsmenntun. Markmiðið með samstarfinu er m.a. að fjölga nemendum í iðnnámi og iðnmenntuðum nemendum í háskólanámi, en háskólamenntað fólk með starfsnám að baki er mjög eftirsótt á vinnumarkaði.

„Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er kveðið á um mikilvægi þess að efla iðn-, verk- og starfsnám í þágu fjölbreytni og öflugra samfélags og að því vinnum við með ötulum hætti í góðri samvinnu. Liður í því er að byggja fleiri brýr innan menntakerfisins, og við atvinnulífið, sem stuðlað geta að nánari samskiptum og samþættingu – þessi viljayfirlýsing er frábært dæmi um slíkt,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni.

„Það hefur alltaf verið mikil þörf fyrir sérfræðinga með tækni- og iðnmenntun, en þær breytingar sem fylgja yfirstandandi tæknibyltingu auka þessa þörf enn frekar. Íslenskt samfélag þarf öflugt fólk með fjölbreytta menntun sem getur nýtt þekkingu sína til að skapa ný verðmæti og þetta samstarf er mikilvægt skref í þeirri vegferð,“ sagði Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík.

Liður í þróunarverkefni þessu er meðal annars aukið samstarf milli iðngreina eins og byggingar-, málm-, vél-, bíl- og rafiðngreina og háskólanáms á borð við tækni- og byggingarfræði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta