Alþjóðleg ráðstefna um áhrif #MeToo-hreyfingarinnar í Reykjavík
Angela Davis, prófessor, rithöfundur og aktívisti, verður meðal fyrirlesara á alþjóðlegri ráðstefnu um áhrif #metoo-hreyfingarinnar sem fram fer í Hörpu 17.–19. september nk. Davis öðlaðist heimsfrægð á 7. og 8. áratug síðustu aldar þegar hún sat í fangelsi í Bandaríkjunum í tengslum við baráttu sína gegn kynþáttamisrétti. Hún hefur verið einn öflugasti gagnrýnandi svonefnds fangelsisiðnaðar (prison industrial complex) í Bandaríkjunum og er þekkt innan bæði marxískra og femínískra fræða fyrir greiningu sína á sambandi kyns, kynþáttar og stéttar.
Ráðstefnan er liður í formennsku Íslands í Norrænu ráðherranefndinni og er skipulögð í samvinnu við RIKK – rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands. Nú í haust verða tvö ár liðin frá því að #metoo-bylgjan hófst árið 2017 þegar konur um allan heim greindu frá kynferðislegu ofbeldi og kynbundinni og kynferðislegri áreitni.
Hátt í níutíu fyrirlesarar taka þátt í ráðstefnunni úr röðum fræðimanna, aktívista, stjórnmálamanna og sérfræðinga. Þar á meðal eru Roxane Gay, Marai Larasi, Cynthia Enloe og Liz Kelly en þær hafa allar vakið athygli víða um heim fyrir framlag sitt til fræðilegrar og almennrar umfjöllunar um stöðu kvenna, ofbeldi og áreitni. Einnig taka þátt June Barrett frá bandarískum samtökum kvenna sem sinna störfum inni á heimilum annarra (National Domestic Workers Alliance) og Mónica Ramírez sem hefur starfað með samtökum verkakvenna í landbúnaði í Bandaríkjunum (National Framworkers Women’s Alliance).
Á ráðstefnunni verður fjallað um #metoo í alþjóðlegu ljósi og leitast við að greina hvers vegna bylgjan náði þeim hæðum sem hún gerði árið 2017 og hvers vegna áhrifin voru ólík eftir samfélagshópum, samfélögum og löndum. Þá verður sá lærdómur sem draga má af #metoo skoðaður hvað varðar fjölþætta mismunun, svo sem vegna kyns, þjóðernis, stéttar, trúarbragða, uppruna, aldurs, fötlunar og kynhneigðar. Einnig verður litið á áhrif á stöðu og þróun jafnréttismála á Norðurlöndunum og í öðrum löndum.
Aðgangur að ráðstefnunni er ókeypis, öllum opinn en nauðsynlegt er að skrá sig til þátttöku. Skráningu lýkur 10. september nk.
Fjölbreyttir dagskrárliðir verða í boði og sjá má nánari dagskrá á heimasíðu ráðstefnunnar.