Hoppa yfir valmynd
22. mars 2010 Innviðaráðuneytið

Lög frá Alþingi stöðva verkfall Flugvirkjafélagsins hjá Icelandair

Alþingi hefur samþykkt lagafrumvarp sem samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mælti fyrir skömmu eftir hádegi í dag þar sem verkfall Flugvirkjafélags Íslands sem hófst hjá Icelandair í nótt er lýst óheimilt. Kjarasamningur aðila er framlengdur til 30. nóvember en þeim heimilt að gera nýjan samning.

Ríkisstjórnin samþykkti á fundi í hádeginu frumvarp Kristjáns L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, um stöðvun verkfallsins og í framhaldinu mælti hann fyrir því á Alþingi eftir að leitað hafði verið samþykkis þingheims fyrir að taka málið strax á dagskrá. Samgöngunefnd afgreiddi síðan frumvarpið síðdegis og Alþingi samþykkti það sem lög klukkan rúmlega 17.

Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að samningaviðræður í kjaradeilu flugvirkja og Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Icelandair hafi staðið um skeið en ekki skilað árangri. Hafi flugvirkjar staðið fast á kröfum um verulega launahækkun þótt félagsmönnum þeirra hafi verið boðnar sambærilegar eða meiri kjarabætur en samið hefur verið um við aðra hópa launþega.

Þá segir að verkfall flugvirkja hafi í för með sér verulega röskun á flugi og hafi neikvæð áhrif á störf þúsunda einstaklinga og fyrirtækja enda sé Icelandair burðarás fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Í áliti meirihluta samgöngunefndar kemur fram að það sé grundvallarregla að aðilar kjarasamninga ljúki samningum sín í milli en þegar brýna nauðsyn beri til geti komið til þess að íhugun ríkisvaldsins sé réttlætanleg. Leggur meirihlutinn áherslu á að lögin séu sett vegna þeirra miklu þjóðarhagsmuna sem í húfi séu og að ,,ekki sé gott að þurfa að grípa til lagasetningar af þessu tagi en í ljósi efnahagsástandsins og þess hve mikið er í húfi fyrir Ísland og endurreisn efnahagslífsins telur nefndin nauðsynlegt að grípa til þessra aðgerða,” segir meðal annars í nefndaráliti meirihlutans.

Minnihluti samgöngunefndar bar fram þá breytingartillögu að kjarasamningur aðila sem rann út 31. október 2009 skuli halda gildi sínu þar til gerðardómur sem kveða skuli upp úrskurð eigi síðar en 30. maí hefur leyst úr ágreiningi aðila og að þær breytingar skuli gilda til 30. nóvember. Breytingartillagan var felld og frumvarpið samþykkt óbreytt og það síðan sent ríkisstjórn sem lög frá Alþingi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta