Hoppa yfir valmynd
21. maí 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 21. maí 2021

Heil og sæl!

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum í blíðskaparveðri að lokinni viðburðaríkri viku. Formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu lauk formlega í gær þegar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra afhenti Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands fundarhamar Norðurskautsráðsins. Ráðherrafundur Norðurskautsráðsins fór fram í Hörpu og hafði fjölmenn sveit utanríkiþjónustunnar veg og vanda að skipulagningunni. Fjölmargir tvíhliða fundir Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra fóru einnig fram og fagnaði Guðlaugur Þór því sérstaklega að geta hitt fólk í eigin persónu.

„Það var kærkomin tilbreyting að geta hitt starfssystkin mín augliti til auglitis. Þrátt fyrir fjölmarga kosti fjarfundarfyrirkomulagsins er hið hefðbundna fyrirkomulag ennþá besti vettvangurinn til þess að efla og byggja upp trúnaðartraust. Fundirnir nýttust vel og veita gott veganesti inn í ráðherrafund Norðurskautsráðsins,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra eftir fjölmarga fundi á miðvikudag.

Guðlaugur Þór hitti Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna á þriðjudag þar sem viðskiptamál, öryggis- og varnarmál, málefni norðurslóða, alþjóðamál og mannréttindi voru helstu umræðuefni. Ráðherrarnir skoðuðu auk þess Hellisheiðarvirkjun og Carbfix-verkefnið.


Nokkrir tvíhliða fundir voru á dagskrá ráðherra á miðvikudag. Guðlaugur Þór hóf daginn á tvíhliða fundi með Marc Garneau utanríkisráðherra Kanada. Viðskiptamál voru ofarlega baugi og rætt var um hugsanlega útvíkkun á fríverslunarsamningi Íslands og Noregs við Kanada. Auk þess voru málefni norðurslóða fyrirferðamikil.

Síðdegis fundaði Guðlaugur Þór með Pekka Haavisto utanríkisráðherra Finnlands þar sem málefni norðurslóða voru efst á baugi en Ísland tók við formennskunni af Finnlandi árið 2019. Ráðherra lagði áherslu á mikilvægi þess að friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu verði viðhaldið á norðurslóðum.

Þá fundaði Guðlaugur Þór jafnframt með Ann Linde utanríkisráðherra Svíþjóðar þar sem títtnefnd málefni norðurslóða voru efst á baugi, en einnig öryggis- og varnarmál og nýtilkomið samstarf Íslandsstofu og Business Sweden.

Jafnframt átti Guðlaugur Þór fundi með grænlenskum og færeyskum ráðamönnum auk þess sem hann hitti bandaríska öldungadeildarþingmanninn Lisu Murkowski.

Í gær fór sem sagt fram 12. fundur Norðurskautsráðsins. Á fundinum komu saman ráðherrar Norðurskautsríkjanna átta og leiðtogar þeirra sex samtaka frumbyggja sem hafa föst sæti í ráðinu. Fundurinn markaði lok tveggja ára formennsku Íslands og upphaf formennsku Rússlands sem nú tekur við henni til næstu tveggja ára.

Á fundinum undirrituðu ráðherrarnir  Reykjavíkuryfirlýsinguna og áréttuðu þannig skuldbindingu ráðsins um að viðhalda friði, stöðugleika og uppbyggilegri samvinnu á norðurslóðum. Með yfirlýsingunni leggja ráðherrarnir áherslu á einstaka stöðu norðurskautsríkjanna til að stuðla að ábyrgum stjórnunarháttum á svæðinu og þá undirstrika þeir mikilvægi þess að takast þegar í stað á við loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Í tilefni af 25 ára afmæli ráðsins samþykktu ráðherrarnir einnig fyrstu stefnuyfirlýsingu þess en hún endurspeglar sameiginleg gildi, markmið og metnað norðurskautsríkjanna og samtaka frumbyggja. Verður hún höfð að leiðarljósi í starfi ráðsins á komandi áratug.

Eftir fundinn hitti Guðlaugur Þór Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands á tvíhliða fundi þar sem viðskiptamál, tvíhliða samskipti, alþjóðamál og mannréttindi voru helstu umræðuefnin.

„Rússland er mikilvægur nágranni Íslands og aðgerðir rússneskra stjórnvalda hafa áhrif á pólitískt umhverfi og öryggi í Evrópu. Þess vegna er afar mikilvægt að geta átt opinská skoðanaskipti um hin ýmsu málefni þar sem hagsmunir okkar liggja saman, en ekki síður þar sem við höfum ólíka sýn á málin,“ sagði Guðlaugur Þór eftir fundir þeirra tveggja.

Eins og gefur að skilja hefur fjölmiðlaumfjöllun um alla þessa tvíhliða fundi og fund Norðurskautsráðsins verið mikil undanfarna daga. Guðlaugur Þór var með Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna á forsíðu Morgunblaðsins eftir fund þeirra á þriðjudag. Á fimmtudag var ráðherra á forsíðu Fréttablaðsins með Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands er hann tók á móti honum í Hörpu á miðvikudagskvöld. Það sama kvöld fundaði Lavrov með  Blinken. Þá var Guðlaugur Þór í Kastljósinu á miðvikudag þar sem ráðherrafundurinn var á dagskrá, formennska Íslands í ráðinu og framtíðarhorfur um samstarf innan ráðsins undir formennsku Rússa næstu tvö árin.

Guðlaugur Þór ritaði grein í Morgunblaðið í gær þar sem hann lýsti yfir ánægju með árangur Íslands í formennsku ráðsins og þá gerði hann fundinn upp í grein í Fréttablaðinu í dag.

Nokkrar vel valdar svipmyndir má sjá hér að neðan og þá má einnig nálgast allar ljósmyndir ráðuneytisins af viðburðinum hér og fundinn í heild sinni hér.



Þá að sendiskrifstofum okkar sem slógu ekki slöku við.

Í Danmörku flutti Helga Hauksdóttir sendiherra ávarp á vef- og tengslamyndunarviðburði í boði Innovation Norway undir yfirskriftinni „Green Opportunities on Energy and Innovation with the EEA and Norway Grants in Romania and Bulgaria” á fimmtudag.

Þá tilkynnti sendiráðið okkar um flutning ræðisskrifstofu ræðismanns Íslands í Óðinsvéum í Norður-Atlantshafshúsið í Óðinsvéum. Fámenn athöfn fór fram þar sem að Helga Hauksdottir sendiherra afhjúpaði skjöld við inngang byggingarinnar. Frá deginum í dag geta Íslendingar á Fjóni mælt sér mót við ræðismann í þessum fallegu húsakynnum.

 

María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Berlín flutti í liðinni viku erindi á rafrænu málþingi um uppbyggingu og tækifæri í gagnaversiðnaði á Íslandi. Hægt er að horfa á málþingið hér (og skrá sig hér). 

Í Genf hefur 37. lota jafningjarýni mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna staðið yfir síðustu tvær vikur og voru fjórtán ríki till umfjöllunar eins og venja er. Ísland setti fram tilmæli til þeirra allra líkt og hefðbundið er og leggur sem fyrr áherslu á jafnrétti kynjanna, réttindi hinsegin fólks og afnám dauðarefsingar, auk tilfallandi málefna eftir ástandi í hverju ríki.

Sendiráðið okkar í Lilongwe fékk fallega gjöf frá nemendum St. Joseph's grunnskólanum í Mangochi, samstarfshéraði Íslands í Malaví.

Í London heimsótti Sturla Sigurjónsson sendiherra flotastjórn Atlantshafsbandalagsins (MARCOM) þar sem hann hitti fyrir aðmírálinn Keith Blount og tók þátt í hringborðsumræðum um hlutverk flotastjórnarinnar og borgaralegs framlag Íslands til samstarfsins. 

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Rússlandi var staddur hér á landi í vikunni vegna funds Norðurskautsráðsins og ritaði grein í vikunni um formennsku Íslands í ráðinu. 

Þá var Hlynur Guðjónsson aðalræðismaður Íslands í New York á meðal þeirra sem stóðu að rafrænum menningarviðburði sem fór fram á dögunum. 

Í Noregi tók Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra á móti sendiherra Ungverjalands Eszter Sandorfi í sendiráði Íslands í Osló í vikunni. Við það tilefni var Ingibjörgu afhent afrit trúnaðarbréfs Eszter Sandorfi sem sendiherra Ungverjalands gagnvart Íslandi, með aðsetur í Osló og ásamt afriti afturköllunarbréfs forvera hennar.

Í París fagnaði starfsfólk okkar í París alþjóðadegi gegn hinseginfóbíu.

Í Tókýó fékk svo Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra skemmtilega gjöf beint úr iðrum jarðar.

Ætli þetta sé ekki nóg í bili.

Eurovision-kveðja frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta