Hoppa yfir valmynd
15. ágúst 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nr. 157/2019 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 157/2019

Fimmtudaginn 15. ágúst 2018

A

gegn

Kópavogsbæ

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Kári Gunndórsson lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur.

Með kæru, 17. apríl 2019, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Kópavogsbæjar, sem tekin var á fundi velferðarsviðs Kópavogs 8. apríl 2019, um uppsögn á húsaleigusamningi hans við sveitarfélagið Kópavog.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi hefur verið með leigusamning við Kópavogsbæ frá 1. mars 2013 vegna félagslegs leiguhúsnæðis. Með bréfi velferðarsviðs Kópavogsbæjar, dags. 9. mars 2019, var leigusamningi kæranda sagt upp á þeirri forsendu að hann og fyrrverandi kona hans höfðu hvorki upplýst Kópavogsbæ um eignir þeirra í B og C í upphafi leigutíma né í árlegu eftirliti og uppfylltu þar af leiðandi ekki skilyrði til þess að fá úthlutað slíku húsnæði. Með bréfi, dags. 22. mars 2019, óskaði kærandi eftir því að sveitarfélagið myndi taka ákvörðunina til endurskoðunar. Velferðarráð Kópavogsbæjar tók málið fyrir á fundi 8. apríl 2019 og staðfesti uppsögn á húsaleigusamningi.

Kærandi lagði fram kæru hjá úrskurðarnefnd velferðarmála þann 17. apríl 2019. Með bréfi, dags. 26. apríl 2019, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Kópavogsbæjar vegna kærunnar. Greinargerð Kópavogsbæjar barst með bréfi, dags. 15. maí 2019, og var hún send kæranda til kynningar með bréfi úrskurðarnefndar, dagsettu sama dag. Viðbótargögn kæranda bárust úrskurðarnefnd, dags. 24. maí 2019, og voru þau send Kópavogsbæ til kynningar með bréfi, dagsettu sama dag. Engar frekari athugasemdir bárust.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi krefst þess að ákvörðun sveitarfélagsins verði felld úr gildi. Ekki sé hægt að fallast á að ákvörðun sveitarfélagsins hafi verið lögmæt.

Í málinu reyni á lögmæti ákvörðunar Kópavogsbæjar til að rifta leigusamningi við kæranda. Grunnrökstuðningur fyrir því að ákvörðunin sé ólögmæt byggi á því að þegar um sé að ræða félagslegan rétt verði að fara varlega í allar ákvarðanatökur þar sem afleiðingarnar geti orðið skelfilegar fyrir einstaklingana. Í þessu máli sé algerlega ljóst að tekin hafi verið ákvörðun án þess að grunnur hennar hafi í raun verið skoðaður. Kærandi hafi aldrei leynt neinum gögnum. Þegar málið verði skoðað varði þetta í raun tvenns konar eignir, annars vegar eignir fyrri eiginkonu kæranda og hins vegar eign í B sem sé ónýt. Myndir af Google geti sýnt fram á það.

Með ákvæði 76. gr. stjórnarskrárinnar sé réttur fólks til félagslegrar verndar tryggður, sem segi orðrétt:

„Öllum, sem þess þurfa, skal tryggður í lögum réttur til aðstoðar vegna sjúkleika, örorku, elli, atvinnuleysis, örbirgðar og sambærilegra atvika.“

Þessi réttur sé meðal annars útfærður í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991, með síðari breytingum. Af þessu megi ráða að sveitarfélagið verði að byggja allar ákvarðanir sínar á lögum og við allar ákvarðanir verði að miða að þeim markmiðum sem sett séu í lögunum. Ljóst sé að húsnæðiskafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga sé ætlað að tryggja húsnæðisöryggi þeirra sem standi höllum fæti. Það sé ekki sveitarfélaga að koma einstaklingunum, sem þeim sé ætlað að þjóna, í erfiðleika.

Ákvörðun sveitarfélagsins skapi kæranda og syni hans erfiðleika að óþörfu. Augljóst sé að ekki hafi verið gætt að meðalhófsreglu stjórnsýsluréttar. Kærandi hafi verið metinn í þörf fyrir húsnæði. Slík þörf sé óumdeild í málinu og skylda sveitarfélagsins sé þar með óumdeild.

Við ákvörðun um riftun leigusamnings sé Kópavogsbær bundinn af grunnreglum stjórnsýsluréttar og stjórnsýslulögum nr. 37/1993, með síðari breytingum. Grunnreglur, sem sveitarfélagið verði að vinna eftir, séu meðal annars rannsóknarregla stjórnsýsluréttar og meðalhófsreglan. Grunnur málsins sé sá að kærandi eigi að hafa leynt sveitarfélaginu eignum, sem séu þegar grannt sé skoðað, engar. Kærandi hafi ávallt verið tilbúinn til að gefa upp allt sem hann eigi. Það hefði átt að leiðbeina honum betur áður en þessi grimmilega ákvörðun hafi verið tekin.

Það vaki sérstaka furðu að sjá að ákvörðun, sem geti haft skelfilegar afleiðingar fyrir kæranda og son hans, hafi verið tekin án þess að gætt hafi verið að meðalhófi, rannsóknarreglu og leiðbeiningarreglu stjórnsýsluréttar.

III.  Sjónarmið Kópavogsbæjar

Kópavogsbær krefst þess að ákvörðun velferðarráðs verði staðfest.

Í greinargerð Kópavogsbæjar kemur fram að kærandi og fyrrverandi kona hans hafi fengið leyfi til lögskilnaðar X 2018 hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Í aðdraganda skilnaðar hafi þau deilt um hvort þeirra skyldi halda félagslegu leiguíbúðinni en svo hafi farið að konan hafi flutt lögheimili sitt svo að skilnaðurinn gæti gengið í gegn. Hún hafi verið ósátt við þessi málalok og gert kröfu um að fá íbúðina í sinn hlut og flutt lögheimili sitt til baka á E. Það hafi sett áform kæranda um að flytja eiginkonu sína til Íslands frá B í uppnám og hafi hann kvartað til velferðarsviðs. Fyrrverandi hjónin hafi upplýst velferðarsvið um eignir hvors annars. Kærandi hafi sagt konuna eiga fasteignir í C og konan hafi upplýst um fasteignir kæranda í B. Kærandi segi að íbúðarhúsnæði hans í B hafi [...] en konan segi að það sé ekki rétt. Þá hafi kærandi sagt að [...] hans í B hafi eingöngu verið bústaður fyrir rottur. Hann hafi einnig upplýst að hann ætti hlut í íbúð eftir föður sinn í D og væru systir hans og bróðir búsett þar.

Í lögskilnaðarbók sé vísað til samnings hjónanna frá X 2018 um fjárskipti og hann sé svohljóðandi:

Fjárskipti

„Samkomulag er um fjárskipti, þannig að í hlut mannsins koma eignir hans í B og bifreið með skráningarnúmari X og í hlut konunnar koma eignir hennar í C, sbr. endurrit úr hjónaskilnaðarbók sýslumanns á höfuðborgarsvæðinu X 2018.“

Fyrirliggjandi séu gögn um ofangreindar eignir konunnar í C og hafi þau verið þýdd af löggiltum skjalaþýðanda. Um sé að ræða tvær fasteignir í F, önnur eignin sé [...] og hin sé [...]. Í ljósi þessara upplýsinga hafi umsókn konunnar um félagslega leiguíbúð verið synjað þar sem umsókn hennar hafi ekki uppfyllt skilyrði 6. gr. reglna um útleigu félagslegra leiguíbúða og hafi hún fengið sent bréf þess efnis, dags. 26. febrúar 2019.

Eignir kæranda séu í B og að hans sögn í D. Þar sé [...] og meiri líkur en minni á að hægt sé að afla gagna þaðan að svo stöddu, án þess þó að það sé staðfest. Kærandi hafi gifst að nýju og bíði nýja konan hans í B eftir að fá útgefið dvalarleyfi hjá Útlendingastofnun.

Fyrir liggi að kærandi og fyrrverandi kona hans hafi fengið úthlutað félagslegri leiguíbúð í X þegar þau voru eigendur að íbúðarhúsnæði í B í C, þ.e. frá árinu X. Þá hafi þau eignast [...] í sömu borg árið X. Þau hafi hvorki upplýst um íbúðareignir sínar í upphafi leigutíma né í árlegu eftirliti þegar óskað hafi verið eftir upplýsingum um tekjur og eignir leigjenda. Hjónin fyrrverandi hafi haft leigutekjur af fasteignum sem hafi ekki verið gefnar upp.

Leigusamningar séu á nafni þeirra beggja og í ljósi ofangreindra upplýsinga hafi verið ákveðið að gefa ekki út nýjan samning heldur rifta samningi vegna forsendubrest þar sem kærandi hafi alfarið látið vera að upplýsa um eignir sínar og heildartekjur þann tíma sem hann hafi búið í íbúðinni.

Riftunin sé byggð á 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga nr. 36/1994 sem sé nýtt ákvæði í lögunum. Í frumvarpinu segi:

„Enn fremur er lagt til að við 1. mgr. 61. gr. laganna bætist við nýr töluliður þar sem mælt verði fyrir um heimild leigusala til að rifta leigusamningi komi í ljós að leigjandi hafi veitt rangar eða villandi upplýsingar sem leiða til þess að hann hefur ranglega verið talinn uppfylla þau lögmætu og málefnalegu skilyrði sem leigusali hefur sett fyrir úthlutun leiguhúsnæðis í samræmi við 3. gr. frumvarpsins. Þykir réttlátt gagnvart leigusala að hann geti rift leigusamningi komi í ljós að leigjandi hafi ekki veitt réttar upplýsingar sem leiddu til þess að hann fékk úthlutað íbúðarhúsnæði í eigu leigusala sem ætlað er ákveðnum hópi leigjenda á grundvelli félagslegra aðstæðna hans.“

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Kópavogsbæjar um uppsögn á húsaleigusamningi kæranda við sveitarfélagið á þeirri forsendu að kærandi og fyrrverandi kona hans hafi ekki veitt upplýsingar um eignir þeirra í upphafi leigutíma eða í árlegu eftirliti.

Í IV. kafla laga nr. 40/1991 um félagsþjónustu sveitarfélaga er að finna almenn ákvæði um rétt til félagsþjónustu á vegum sveitarfélaga. Þar segir í 12. gr. að sveitarfélag skuli sjá um að veita íbúum þjónustu og aðstoð samkvæmt lögunum og jafnframt tryggja að þeir geti séð fyrir sér og sínum. Samkvæmt 45. gr. laganna skulu sveitarstjórnir, eftir því sem kostur er og þörf er á, tryggja framboð af leiguhúsnæði, félagslegu kaupleiguhúsnæði og/eða félagslegum eignaríbúðum handa þeim fjölskyldum og einstaklingum sem ekki eru á annan hátt færir um að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar eða annarra félagslegra aðstæðna. Þá kemur fram í 46. gr. laganna að félagsmálanefndir skuli sjá til þess að veita þeim fjölskyldum og einstaklingum, sem ekki eru færir um það sjálfir, úrlausn í húsnæðismálum til að leysa úr bráðum vanda á meðan unnið er að varanlegri lausn.

Í 1. mgr. 3. gr. a húsaleigulaga nr. 36/1994 kemur fram að leigusala, sem er lögaðili sem ekki er rekinn í hagnaðarskyni, er heimilt að setja lögmæt og málefnaleg skilyrði fyrir leigu íbúðarhúsnæðis. Í 2. mgr. sömu lagagreinar kemur fram að hafi leigusali samkvæmt 1. mgr. sett lögmæt og málefnaleg skilyrði fyrir leigu íbúðarhúsnæðis er honum jafnframt heimilt að gera að skilyrði fyrir leigu íbúðarhúsnæðisins að leigjandi veiti þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til þess að meta hvort hann uppfylli umrædd skilyrði leigusala. Í 11. tölul. 1. mgr. 61. gr. laganna kemur fram að leigusala sé rétt að rifta leigusamningi ef leigusali hefur sett lögmæt og málefnaleg skilyrði fyrir leigu húsnæðis samkvæmt 3. gr. a sem tilgreind eru í leigusamningi og leigjandi hefur gefið upp rangar eða villandi upplýsingar sem leiða til þess að hann hefur ranglega verið talinn uppfylla skilyrði fyrir úthlutun leiguhúsnæðis.

Í 1. gr. reglna um útleigu á félagslegum leiguíbúðum bæjarsjóðs Kópavogs kemur fram að félagslegar leiguíbúðir séu ætlaðar fjölskyldum og einstaklingum sem þurfa sérstaka aðstoð til að sjá sér fyrir húsnæði sökum lágra launa, þungrar framfærslubyrðar og/eða annarra félagslegra erfiðleika og skulu fjárhags- og félagslegar aðstæður þeirra metnar út frá þeim viðmiðum sem kveðið sé á um í reglunum. Í 4. gr. reglnanna kemur fram að leiga félagslegra leiguíbúða í eigu bæjarsjóðs sé að öllu jöfnu bundin þeim skilyrðum að við breytingar á félagslegum aðstæðum leigutaka skuli réttur hans til leigunnar endurskoðaður. Einkum sé um að ræða breytingar á hjúskaparstöðu, fjölskyldustærð og fjárhagsstöðu. Þá kemur fram að líta beri á leigu í félagslegu leiguhúsnæði bæjarsjóðs sem tímabundna úrlausn. Í 15. gr. reglnanna kemur fram að skyldur leigutaka séu skilgreindar í reglunum og sérákvæðum leigusamnings.

Í gögnum málsins liggur fyrir húsaleigusamningur kæranda og fyrrverandi konu hans við Húsnæðisnefnd Kópavogs, dags. 1. mars 2013, en áður munu þau hafa leigt umrædda íbúð tímabundið um sex mánaða skeið. Við skilnað aðila árið 2018 munu kærandi og fyrrverandi eiginkona hans hafa ákveðið að kærandi leigði áfram umrædda íbúð. Í grein 13.4 samningsins er kveðið á um sérákvæði húsnæðisdeildar Félagsþjónustu Kópavogsbæjar en þar kemur meðal annars fram að leiguréttur og úthlutun leiguhúsnæðis séu, í samræmi við ákvæði 6. gr. reglna um leigurétt og úthlutun á félagslegum leiguíbúðum í Kópavogi, bundin tilteknum eigna- og tekjuviðmiðum sem litið sé til þegar umsókn berst, við tímamörk úthlutunar og einu sinni á ári þann tíma sem leigusamningur varir. Þá kemur fram að félagsmálaráð bæjarins taki ákvörðun um endurskoðun eigna- og tekjumarka að teknu tilliti til ákvörðunar félagsmálaráðuneytis um hækkun tekju- og eignamarka í samræmi við árlega hækkun á neysluvísitölu og að á leigutímanum muni húsnæðisdeild Félagsþjónustu Kópavogs á tólf mánaða fresti gera athugun á því hvort leigutaki fullnægi skilyrðum um eigna- og tekjuviðmið.

Í 6. gr. reglna um útleigu á félagslegum leiguíbúðum Bæjarsjóðs Kópavogs kemur fram að skilyrði fyrir úthlutun leiguhúsnæðis er að umsækjandi eigi ekki í bæjarfélaginu, né annars staðar þegar umsókn er lögð inn, fasteign í neinu því formi sem jafna megi til íbúðarhúsnæðis, nema því aðeins að seinna uppboð hafi farið fram eða það auglýst. Er þá jafngilt hvort um almenna eignaríbúð, félagslega eignaríbúð eða kaupleiguíbúð er að ræða.

Samkvæmt þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í gögnum málsins, átti kærandi eignir í B, nánar tiltekið íbúð og hluta í annarri íbúð sem ættingjar hans dvelja í, og hefur hann viðurkennt það. Kærandi hefur haldið því fram að íbúð hans sé ónýt og hefur sent myndir af heimasíðunni Google Earth af ákveðnum stöðum í B. Það að allar eignir kæranda í B séu ónýtar fær ekki stoð í því sem fram kemur í fjárskiptasamningi í tilefni af skilnaði kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans á árinu 2018, en þar var kveðið á um að umræddar eignir kæmu í hlut kæranda en eignir í C kæmu í hlut fyrrverandi eiginkonu hans. Þá hefur kærandi ekki haldið því fram að eignarhluti í íbúð, er hann erfði eftir föður sinn, sé ónýtur. Vegna þessa, og með vísan til heimildar 11. tölul. 1. mgr. 61. gr. húsaleigulaga, er það mat úrskurðarnefndarinnar að Kópavogsbæ hafi verið heimilt að segja upp húsaleigusamningi við kæranda. Með vísan til þess er hin kærða ákvörðun staðfest.

 


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Kópavogsbæjar, frá 9. apríl 2019, um uppsögn á húsaleigusamningi A, við sveitarfélagið er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Kári Gunndórsson

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta