Nr. 15/2023 Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Hinn 20. janúar 2023 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 15/2023
í stjórnsýslumáli nr. KNU22110002
Kæra […]
og barna hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Hinn 1. nóvember 2022 kærði einstaklingur er kveðst heita […], vera fædd […] og vera ríkisborgari Nígeríu (hér eftir nefnd kærandi), ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 18. október 2022, um að synja kæranda og börnum hennar er hún kveður heita […], fætt […], ríkisborgara Nígeríu (hér eftir A) og […], fætt […], ríkiborgara Nígeríu (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016.
Kærandi krefst þess aðallega að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt staða flóttamanna hér á landi með vísan til 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til vara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt viðbótarvernd með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Til þrautavara krefst kærandi þess að ákvarðanir Útlendingastofnunar verði felldar úr gildi og að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða með vísan til 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga.
Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi sótti um alþjóðlega vernd hér á landi 14. apríl 2022. Kærandi kom í viðtal hjá Útlendingastofnun m.a. 6. september 2022 ásamt talsmanni sínum. Með ákvörðunum, dags. 18. október 2022, synjaði Útlendingastofnun kæranda og börnum hennar um alþjóðlega vernd ásamt því að synja þeim um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Voru framangreindar ákvarðanir kærðar til kærunefndar útlendingamála 1. nóvember 2022. Kærunefnd barst greinargerð kæranda ásamt fylgiskjölum 16. nóvember 2022.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar í máli kæranda kemur fram að hún byggi umsókn sína um alþjóðlega vernd á því að hún sé í hættu í heimaríki sínu vegna ofsókna af hálfu tiltekinnar fjölskyldu í landinu.
Niðurstaða ákvarðana Útlendingastofnunar var sú að kærandi og börn hennar væru ekki flóttamenn og að þeim skyldi synjað um alþjóðlega vernd á Íslandi samkvæmt ákvæðum 37. og 40. gr. laga um útlendinga. Kæranda og börnum hennar var jafnframt synjað um dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða samkvæmt 74. gr. laga um útlendinga. Þá taldi stofnunin að ákvæði 42. gr. laga um útlendinga stæði endursendingu til heimaríkis ekki í vegi.
A mætti í viðtal hjá Útlendingastofnun 14. júní 2022 og var spurður út í aðstæður fjölskyldunnar á Möltu. Ekki var talin ástæða til að taka viðtal við B vegna aðstæðna í Nígeríu í ljósi ungs aldurs hans og frásagnar móður hans um að hann hafi aldrei komið þangað heldur aðeins dvalið á Möltu. Fram kom að umsóknir barna kæranda væru grundvallaðar á framburði móður þeirra og henni hefði verið synjað um alþjóðlega vernd og dvalarleyfi á grundvelli 74. gr. laga um útlendinga. Í ákvörðun í máli móður hefði jafnframt verið tekin afstaða til aðstæðna barnanna og hvernig þær aðstæður horfi við einstökum þáttum ákvörðunarinnar. Var það niðurstaða Útlendingastofnunar með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að börnum kæranda væri ekki stefnt í hættu með því að fylgja móður sinni til heimaríkis.
Kæranda og börnum hennar var vísað frá landinu á grundvelli c-liðar 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga. Útlendingastofnun tilkynnti kæranda jafnframt að kæra myndi fresta réttaráhrifum ákvarðananna, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga um útlendinga.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda er vísað til viðtala við hana hjá Útlendingastofnun. Þar hafi kærandi greint frá því að vera frá þorpinu […] í Edo fylki í Nígeríu. Kærandi hafi upplifað mikla fátækt og mótlæti í Nígeríu, allt frá barnsaldri. Kærandi hafi sætt kynfæralimlestingu þegar hún hafi verið aðeins tíu ára gömul og þegar hún hafi verið tólf ára hafi henni verið nauðgað. Nokkru síðar hafi faðir kæranda selt hana í hjónaband með mun eldri manni. Þegar sá maður hafi dáið hafi fjölskylda hans farið að ofsækja hana og sagt föður hennar skulda þeim peninga. Þá hafi hún flúið þorpið og síðar Nígeríu með aðstoð aðila sem hafi lofað henni vinnu í verslun í Líbíu. Kærandi hafi hins vegar verið þvinguð í vændi í Líbíu þegar þangað hafi verið komið. Kærandi eigi tvö börn í Nígeríu sem búi hjá móður hennar. Annað barnanna eigi kærandi með manninum sem hún hafi verið þvinguð í hjónaband með og hitt eigi hún með manni sem hún hafi kynnst eftir að hún hafi flúið heimaþorp sitt. Kærandi hafi fengið takmarkaða menntun í heimaríki og eigi erfitt með lestur og skrif.
Í greinargerð kæranda eru gerðar ýmsar athugasemdir við ákvarðanir Útlendingastofnunar, einkum varðandi trúverðugleikamat stofnunarinnar. Telur kærandi Útlendingastofnun hafa valið af handahófi það sem hún hafi viljað leggja til grundvallar í málinu. Jafnframt gerir kærandi athugasemd við að framlögð skilríki kæranda hafi verið flokkuð sem flóttamannaskilríki, enda liggi fyrir að maltnesk stjórnvöld hafi ekki viðurkennt kæranda sem flóttamann. Telur kærandi framlögð skilríki hennar sanna auðkenni hennar. Þá gerir kærandi athugasemd við að Útlendingastofnun hafi ekki beðið eftir því að kærandi legði fram heilsufarsvottorð vegna andlegra og líkamlegra veikinda áður en ákvörðun var tekin.
Fjallað er um hagsmuni barna kæranda í greinargerð hennar. Mikilvægt sé að börn kæranda fái að alast upp í umhverfi sem uppfyllt geti þarfir þeirra um öryggi, velferð og félagslegan þroska. A hafi þurft að axla ábyrgð langt umfram aldur og þroska. Brottvísun þeirra frá Íslandi þjóni ekki hagsmunum þeirra þar sem þeirra bíði öryggisleysi, óvissa og fátækt. Jafnframt eigi B á hættu kynfæralimlestingu verði henni gert að fara til Nígeríu. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar sé einungis vísað til þess möguleika barna kæranda að leita sér heilbrigðisþjónustu og menntunar.
Í greinargerð kæranda er fjallað almennt um aðstæður í Nígeríu, m.a. um alvarleg mannréttindabrot, spillingu og refsileysi innan stjórnkerfisins, handahófskenndar og ólögmætar handtökur og aftökur af hálfu yfirvalda, bága stöðu kvenna og ofbeldi gagnvart þeim, mansal sem skipulagða glæpastarfsemi og vopnuð átök. Kærandi vísar til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings.
Kærandi krefst þess aðallega að henni og börnum hennar verði veitt alþjóðleg vernd sem flóttamenn hér á landi, samkvæmt 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Hún eigi á hættu ofsóknir vegna aðildar sinnar að tilteknum þjóðfélagshópi sem nígerísk kona og þolandi mansals, sbr. d-lið 3. mgr. 38. gr. laga um útlendinga. Kærandi hafi sætt ofbeldi allt frá tíu ára aldri og faðir hennar hafi selt hana í mansal. Hún hafi síðan aftur verið seld mansali þegar hún hafi flúið Nígeríu og verið seld í vændi. Þá eigi hún lítið stuðningsnet í heimaríki. B eigi jafnframt á hættu ofsóknir í Nígeríu vegna aðildar hennar að tilteknum þjóðfélagshópi sem nígerísk kona. Hún eigi á hættu kynfæralimlestingu og annað kynbundið ofbeldi í heimaríki. Kærandi eigi í vandræðum með að styðja og ala upp börn sín hér á landi og því sé ólíklegt að hún muni geta verndað B í heimaríki. Telur kærandi að þeir sem standi að baki ofsóknunum séu yfirvöld, fjölskylda mannsins sem hafi nauðgað henni, almenningur og glæpamenn, sbr. a- og c-liður 4. mgr. 38. gr. laga um útlendinga.
Verði ekki fallist á aðalkröfu málsins krefst kærandi þess til vara að henni og börnum hennar verði veitt viðbótarvernd hér á landi með vísan til 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga. Kærandi og börn hennar eigi á hættu að láta lífið eða sæta ómannúðlegri og vanvirðandi meðferð verði þeim gert að snúa aftur til heimaríkis. Einnig eigi þau á hættu að verða fyrir skaða af völdum árása í vopnuðum átökum þar sem ekki sé greint á milli hernaðarlegra og borgaralegra skotmarka verði þeim gert að snúa aftur heim. Líta þurfi til sérstaklega viðkvæmrar stöðu kæranda og þess að hún sé kona og einstæð móðir. Jafnframt beri að horfa til skorts á öryggi þeirra og þeirra mannréttindabrota sem eigi sér stað í landinu. Þá geisi átök í landinu sem leiði til þess að kærandi og börn hennar séu í raunhæfri hættu í heimaríki sínu.
Til þrautavara krefst kærandi þess að henni og börnum hennar verði veitt dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða, sbr. 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga, vegna heilbrigðissjónarmiða, erfiðra félagslegra aðstæðna þeirra og erfiðra almennra aðstæðna í Nígeríu. Ákvæðið heimili veitingu slíks dvalarleyfis þegar útlendingur geti sýnt fram á ríka þörf á vernd, t.d. af heilbrigðisástæðum eða vegna erfiðra félagslegra aðstæðna viðkomandi eða erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki. Kærandi vísar m.a. til athugasemda við ákvæðið í frumvarpi því er varð að lögum um útlendinga. Í greinargerð kæranda kemur fram að hún og börn hennar hafi ríka þörf fyrir vernd vegna heilbrigðisástæðna, en kærandi glími við andleg veikindi. Jafnframt hafi þau ríka þörf fyrir vernd vegna erfiðra félagslegra aðstæðna. Þau eigi ekkert bakland í Nígeríu sem geti stutt þau. Fjölskylda kæranda hafi selt hana í mansal og allar konur í fjölskyldu kæranda hafi sætt kynfæralimlestingu. Þá sé staða kvenna í Nígeríu einnig mun viðkvæmari en karla. Jafnframt telur kærandi að hún og börn hennar hafi ríka þörf fyrir vernd vegna almennra aðstæðna í Nígeríu.
Kærandi telur að með endursendingu hennar og barna hennar til heimaríkis yrði brotið gegn meginreglunni um bann við endursendingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga. Að auki telur kærandi að slík ákvörðun brjóti í bága við 1. mgr. 68. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. lög nr. 33/1944, 2. og 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, 6. og 7. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi og 33. gr. alþjóðasamnings um réttarstöðu flóttamanna. Stjórnvöldum beri jafnframt að horfa til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands varðandi kvenréttindi, en líta beri m.a. til samnings Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum og samnings Evrópuráðsins um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi á konum og heimilisofbeldi (Istanbúl-samningurinn).
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 skal stjórnvald sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því og afla í því skyni nauðsynlegra gagna og upplýsinga. Þá mælir 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga fyrir um að Útlendingastofnun skuli afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga við meðferð mála. Mál telst nægilega rannsakað þegar þeirra upplýsinga hefur verið aflað sem nauðsynlegar eru til þess að hægt sé að taka efnislega rétta ákvörðun í því. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig.
Kærunefnd gerir athugasemd við rannsókn Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar. Í viðtali hjá Útlendingastofnun greindi kærandi frá því að hafa verið þvinguð í mansal í Nígeríu af ótilgreindum aðila árið 2009. Sá aðili hafi boðið kæranda vinnu í verslun í Líbíu en þegar þangað hafi verið komið hafi kærandi verið neydd í vændi. Kærandi kvaðst hafa kynnst eiginmanni sínum í Líbíu og hafi þau farið saman til Möltu árið 2011 og hafi kærandi þá verið þunguð af fyrra barni hennar og eiginmanns hennar. Í gögnum frá maltneskum stjórnvöldum varðandi umsókn hennar um alþjóðlega vernd þar í landi, dags. 12. október 2011, kemur hins vegar fram að kærandi hafi kvænst í Nígeríu árið 2009 og að eiginmaður hennar væri staddur á Möltu. Misræmi í framburði kæranda hjá íslenskum og maltneskum yfirvöldum virðist ekki hafa verið kannað frekar af hálfu Útlendingastofnunar. Þá kvað kærandi, í viðtali hjá Útlendingastofnun, eiginmann sinn hafa yfirgefið sig og börn hennar eftir að hann hafi komist að því að hann væri ekki faðir barnanna. Kærandi var ekki spurð frekar út í þá fullyrðingu, en sú fullyrðing stangast á við framburð kæranda í sama viðtali. Telur kærunefnd að framangreint misræmi hafi átt að kalla á frekari rannsókn af hálfu Útlendingastofnunar á aðstæðum kæranda, m.a. á því hvort eiginmaður kæranda hafi hugsanlega átt þátt í mansali hennar og hvaða áhrif það gætu haft á aðstæður hennar í heimaríki. Þá var frásögn kæranda, í viðtölum hjá Útlendingastofnun, af aðstæðum í heimaríki, m.a. fjölskylduaðstæðum, sem og aðstæðum sínum og barna hennar í Möltu að hluta til óskýr og hefði að mati kærunefndar verið ástæða til þess að kalla kæranda til framhaldsviðtals hjá Útlendingastofnun til þess að tryggt yrði að viðtalið uppfyllti skilyrði 28. gr. laga um útlendinga.
Kærunefnd gerir jafnframt athugasemd við skort á rannsókn af hálfu Útlendingastofnunar á því hvort B eigi á hættu að sæta kynfæralimlestingu í Nígeríu. Kærandi greindi frá því í viðtali hjá Útlendingastofnun að dætur hennar tvær sem búsettar væru í Nígeríu hafi báðar sætt kynfæralimlestingu, en kærandi var ekki spurð frekar um þau atvik eða afstöðu sína til þess af hálfu Útlendingastofnunar. Telur kærunefnd að á grundvelli framangreindra upplýsinga hafi verið fullt tilefni fyrir Útlendingastofnun að kanna sérstaklega hvort B ætti á hættu að sæta kynfæralimlestingu yrði henni gert að fara aftur til heimaríkis með móður sinni, einkum hvað varðaði afstöðu móður hennar til þeirrar hefðar og hvort að hún teldi sig geta komið í veg fyrir að B yrði látin undirgangast slíka meðferð. Í ákvörðunum Útlendingastofnunar er aðeins að finna almenna umfjöllun um kynfæralimlestingar í heimaríki kæranda og barna hennar og ályktun stofnunarinnar á því að kærandi yrði mótfallin því að B yrði gert að undirgangast kynfæralimlestingu. Verður ráðið að umsókn B um alþjóðlega vernd hafi ekki verið metin sjálfstætt og var málsmeðferð Útlendingastofnunar og rökstuðningur ákvörðunar í máli hennar því að mati kærunefndar ekki í samræmi við rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga og 22. gr. sömu laga.
Meginmarkmið stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgara með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að ekki hafi farið fram heildstætt mat á öllum þáttum máls kæranda og barna hennar og því hafi Útlendingastofnun ekki uppfyllt rannsóknarskyldu sína samkvæmt 10. gr. stjórnsýslulaga. Er þessi annmarki þess eðlis að mati kærunefndar að ekki er unnt að bæta úr honum með frekari rannsókn æðra stjórnvalds og ber því að fella ákvarðanir Útlendingastofnunar úr gildi af þeim sökum.
Með vísan til framangreinds telur kærunefnd að rétt sé að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í málum kæranda og barna hennar og vísa málunum til nýrrar meðferðar hjá stofnuninni. Í ljósi þessarar niðurstöðu er ekki ástæða til umfjöllunar um aðra þætti ákvarðana Útlendingastofnunar.
Úrskurðarorð:
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til meðferðar á ný.
The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate is instructed to re-examine the cases.
Tómas Hrafn Sveinsson
Sindri M. Stephensen Þorbjörg I. Jónsdóttir