Hoppa yfir valmynd
6. nóvember 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Mælt fyrir frumvarpi um neyslurými á Alþingi

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - myndHeilbrigðisráðuneyti

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra mælti fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um ávana- og fíkniefni á Alþingi í gær. Með frumvarpinu er sveitarfélögum veitt heimild til að stofna og reka svokölluð neyslurými að fenginni heimild embættis landlæknis. Í fjárlögum eru tryggðar 50 milljónir króna til þessa verkefnis.

Frumvarpið var einnig lagt fram í fyrra og er nú endurflutt með minniháttar breytingum til að mæta athugasemdum sem þá komu fram í umfjöllun þess fyrir velferðarnefnd.

Með frumvarpinu er lögð til breyting á gildandi lögum sem felur í sér skýra lagaheimild til að stofna og reka neyslurými þar sem einstaklingum verður heimilt að neyta ávana- og fíkniefna í æð að uppfylltum skilyrðum sem ráðherra setur í reglugerð.

Neyslurými er skilgreint sem lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar 18 ára og eldri geta neytt ávana- og fíkniefna í æð undir eftirliti starfsmanna við aðstæður þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingarvarna. Markmiðið er skaðaminnkun sem felst í því að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum af notkun ávana- og fíkniefna án þess endilega að draga úr notkun þeirra.

 „Skaðaminnkun gagnast ekki einungis notendunum heldur einnig fjölskyldum þeirra, nærsamfélagi notandans og samfélaginu í heild. Um leið og þessu úrræði er ætlað að auka lífsgæði og bæta heilsufar þeirra sem neyta ávana- og fíkniefna í æð er það einnig til þess fallið að draga úr neyslu þeirra utandyra og á almannafæri“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

Áform um setningu laga um neyslurými og drög að frumvarpi þar að lútandi voru birt í samráðsgátt stjórnvalda og einnig hefur verið haft samráð við Lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, embætti ríkissaksóknara, Frú Ragnheiði og Embætti landlæknis.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta