Hoppa yfir valmynd
23. nóvember 2009 Forsætisráðuneytið

A 316/2009. Úrskurður frá 23. nóvember 2009

ÚRSKURÐUR
 

Hinn 23. nóvember 2009 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð í máli nr. A-316/2009.

 

Kæruefni og málsatvik


Með bréfi, dags 16. júlí 2009, kærði [A] þá ákvörðun stjórnar fjarskiptasjóðs, dags. 22. júní 2009, að synja beiðni [A], dags. 10. mars 2009, um aðgang að gögnum er varða samning fjarskiptasjóðs og [B] frá 25. febrúar 2009 um háhraðatengingar. Í kæru [A] kemur nánar tiltekið fram að krafist sé aðgangs að öllum gögnum sem varði umræddan samning, þ.á m afrit af umræddum samningi án útstrikana og afrit af öllum fylgigögnum samningsins sem upp eru talin í 3. gr. hans. [A] kærði jafnframt þann óhóflega drátt sem var á afgreiðslu fjarskiptasjóðs á beiðninni.

Atvik málsins eru þau að þann 27. febrúar 2008 birtu Ríkiskaup auglýsingu, fyrir hönd fjarskiptasjóðs, útboðs nr. 14121 um háhraðatengingar til allra landsmanna þar sem óskað var eftir tilboðum vegna háhraðanetþjónustu. Fjórir aðilar sendu inn tilboð, þ.á m. [B] og kærandi. Fjarskiptasjóður ákvað að ganga til samninga við [B] og var samningur þess efnis undirritaður 25. febrúar 2009. Með bréfi dags, 10. mars 2009, óskaði [A] eftir aðgangi að öllum gögnum er vörðuðu samninginn. Með bréfi stjórnar fjarskiptasjóðs, dags. 20. mars 2009, var [A] tilkynnt að fyrirhugaður væri stjórnarfundur í vikunni þar á eftir þar sem erindið yrði tekið til meðferðar og afstöðu stjórnarinnar yrði að vænta í framhaldi af því. Með bréfi, dags. 22. júní 2009, var kæranda afhent afrit samningsins þar sem tilteknar upplýsingar voru strikaðar út með vísan til 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996. 

 

Málsmeðferð


Eins og fram er komið barst kæra máls þessa úrskurðarnefnd um upplýsingamál með bréfi,  dags. 16. júlí 2009. Var kæran send stjórn fjarskiptasjóðs með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 20. júlí 2009, og henni veittur frestur til að gera athugasemdir við kæruna til 4. ágúst 2009. Óskaði úrskurðarnefndin jafnframt eftir því að henni yrðu látin í té afrit af umbeðnum gögnum innan sama frests.

Svar stjórnar fjarskiptasjóðs barst með bréfi dags. 4. ágúst 2009. Þar segir m.a. svo:

,,Eins og áður segir harmar stjórn fjarskiptasjóðs að úrvinnsla málsins hafi dregist svo lengi sem raun bar vitni en vill þó ítreka að starfsmenn sjóðsins hafa gert sitt besta til að tryggja að meðferð upplýsingabeiðninnar væri í samræmi við upplýsingalög nr. 50/1996 svo ekki myndi halla á rétt neinna hlutaðeigandi aðila, hvorki þeirra sem óskuðu eftir upplýsingunum né samningsaðila sem gætu borið skaða af því að samkeppnisaðilum væri veittur aðgangur að gögnum sem varðað geta mikilvæga fjárhags- eða viðskipahagsmuni fyrirtækisins.

Í samræmi við ofangreint telur fjarskiptasjóður að rétt hafi verið að veita aðgang að samningi fjarskiptasjóðs og [B] frá 25. febrúar 2009 með yfirstrikunum líkt og gert var.

Á meðal þeirra upplýsinga sem strikað hefur verið yfir í samningunum sjálfum eru upplýsingar um verð og útreikninga sem verða að teljast falla undir ákvæði 5. gr. upplýsingalaga nr. 50/1996.
Þá er að finna í fylgigögnum samningsins, sbr. 3. gr. hans, ýmis samskonar gögn, s.s. ábyrgðaryfirlýsing frá banka, upplýsingar um tæknilegar lausnir þ.á.m. samningur um endurbúnað og uppsetningu og gervihnattalausnir, sem og vinnugögn þ.á.m. fundargerðir. Telja verður óeðlilegt að slíkar upplýsingar séu látnar samkeppnisaðila í té.
Jafnvel þó um væri að ræða aðila máls sbr. 9. gr. upplýsingalaga, verður engu að síður að telja að hagsmunir þeir sem um ræðir vegi þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.
Fjarskiptasjóður telur að vandað hafi verið til verks þegar umbeðin gögn voru metin með tilliti til þess hvort upplýsingar þær er gögnin hafa að geyma séu þess eðlis að rétt sé að undanþiggja þær aðgangi óhlutaðeigandi. Að vel ígrunduðu máli var tekin sú ákvörðun að veita aðgang að umræddum upplýsingum og aðeins voru strikaðar út þær upplýsingar sem fjarskiptasjóður taldi óheimilt að láta óhlutaðeigandi í té samkvæmt 5. gr. upplýsingalaga, að fenginn umsögn [B].“

Hinn 6. ágúst 2009 ritaði úrskurðarnefndin kæranda bréf og gaf honum færi á að setja fram athugasemdir í tilefni af umsögn fjarskiptasjóðs. Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 12. ágúst 2009. Þar ítrekar kærandi þann þátt kærunnar er lýtur að óhóflegum drætti á afgreiðlsu á beiðni kæranda um aðgang að gögnum fjarskiptasjóðs með vísan til 11. gr. upplýsingalaga og ítrekar þá kröfu sína að aðgang að öllum gögnum er varða samning fjarskiptasjóðs við [B] Í bréfinu segir einnig m.a. svo:

,,[V]erulegar líkur [eru] á því að samningurinn feli í sér ólögmæta ríkisaðstoð til [B] og sé til þess fallinn að hafa mjög skaðleg áhrif á samkeppnina á markaðinum sbr. 61. gr. lög um Evrópska efnahagssvæðið nr. 2/1993.“

Hinn 7. ágúst 2009 ritaði úrskurðarnefndin [B] bréf til að kanna hvort [B] teldi eitthvað því til fyrirstöðu, umfram það sem fram kæmi í umsögn fjarskiptasjóðs, að veita kæranda aðgang að umbeðnum gögnum. Athugasemdir [B] bárust nefndinni með bréfi, dags. 20. ágúst 2009. Í bréfinu tekur [B] undir sjónarmið fjarskiptasjóðs og segir einnig m.a. svo:

,,[B] leyfir sér að benda á að upplýsingar þær sem óskað er aðgangs að eru þess eðlis að þær varða með beinum hætti rekstur og samkeppnishæfni [B]. Í þessu sambandi leyfir [B] sér að vekja sérstaka athygli á því að samkvæmt gr. 1.1.9 í útboðsskilmálum skyldu tilboð bjóðenda meðal annars innihalda upplýsingar er vörðuðu eftirfarandi: (i) hvernig bjóðandi hygðist fjármagna verkefnið; (ii) hvernig bjóðandi hygðist þjónusta verkið, þ.m.t. upplýsingar um kerfið sem þjónusta byggði á og þjónustugetu bjóðanda; (iii) upplýsingar um verkefnisstjóra og lykilstarfsmenn; (iv) ábyrgðaryfirlýsingar frá banka og (v) teikningar og / eða tæknilýsingar.

[B] hefur eðli máls samkvæmt verulega hagsmuni af því að upplýsingar á borð við þær sem að framan greinir séu ekki gerðar aðgengilegar almenningi, þ.m.t. keppinautum. Upplýsingarnar varða fjárhagslega hæfni [B] og tæknilega getu. Aðgangur almennings, þ.m.t. keppninauta [B], að tilvísuðum upplýsingum er því ljóslega til þess fallinn að skerða samkeppnishæfni [B] og þar með valda fyrirtækinu verulegu tjóni. Skal og bent á í þessu sambandi að tilvísaðar upplýsingar eru nýjar og varða þannig með beinum hætti stöðu [B] í dag.“

Hinn 27. ágúst 2009 ritaði úrskurðarnefndin kæranda bréf og gaf honum færi á að setja fram athugasemdir í tilefni af umsögn [B] Athugasemdir kæranda bárust nefndinni með bréfi, dags. 2. september. Þar segir m.a. svo:

,,[B] telur upp örfáa liði sem hann telur dæmi um upplýsingar sem ekki ættu að vera aðgengilegar almenningi, þ.m.t. keppinautum. [A] bendir á að þessi upptalning er bara brot af því sem var undanskilið aðgangi félagsins. Jafnfram á [A] erfitt með að sjá að hvernig aðgangur að upplýsingum um verkefnisstjóra og lykilstarfsmenn gæti skert samkeppnishæfi [B] og valdið fyrirtækinu tjóni. Til að taka af allan vafa um það þá staðfestir [A] hér með að þær upplýsingar hafa ekki mikið gildi fyrir [A].

Eins og fram kemur í grein 2.2.13 í útboðsskilmálum skal kerfið vera þannig uppbyggt að hægt sé að veita öðrum aðgang að því í heildsölu. Þá segir í grein 2.2.10 að seljandi, þ.e. [B], skuli veita öðrum þeim aðilum sem þess óska og sem bjóða farsímaþjónustu á Íslandi reikiaðgang inn á þá senda eða sendahluta sem fjarskiptasjóður styrkir, allan samningstímann. Þess má geta í þessu sambandi að [A] hefur þegar óskað eftir reikiaðgangi að þessum sendum. Í ljósi þess að [B] er skyldugur til að selja öðrum fjarskiptafyrirtækjum aðgang að þessum sendum verður að telja að nauðsynlegt sé að [B] upplýsi væntanlega kaupendur um kerfið sem þjónustan er byggð á. Með hliðsjón af því er ekki hægt að fallast á að upplýsingar um kerfið sem þjónustan er byggð á og þjónustugeta bjóðenda séu viðkvæmar upplýsingar sem ekki megi veita aðgang að.

[...]

Að mati [A] hefur hvorki umsögn [B] né heldur fjarskiptasjóðs tekist að sýna fram á að umræddar upplýsingar varði mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni [B] með þeim hætti að aðgangur að þeim myndi valda tjóni.“

Með vísan til 31. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er ekki þörf á að rekja hér frekar athugasemdir og rök ofangreindra aðila. Úrskurðarnefndin hefur haft þau til hliðsjónar við úrlausn málsins.

 

Niðurstöður


1.
Eins og fram kemur í lýsingu málsatvika hér að framan fer kærandi fram á aðgang að gögnum er varða samning fjarskiptasjóðs og [B] frá 25. febrúar 2009 um háhraðatengingar. Nánar tiltekið óskar hann eftir því að fá afhentan umræddan samning í heild sinni, án yfirstrikana, auk afrits af þeim viðaukum sem tilgreindir eru í 3. gr. samningsins. Kærandi kærir jafnframt þann óhóflega drátt sem var á afgreiðslu fjarskiptasjóðs á beiðninni. Þar sem stjórn fjarskiptasjóðs hefur nú tekið ákvörðun um umrædda beiðni hefur ekki þýðingu að lögum að úrskurðarnefndin taki síðara kæruefni sérstaklega til úrskurðar. Ber því að vísa þeim þætti kærunnar frá.

Stjórn fjarskiptasjóðs afhenti kæranda afrit af samningi sjóðsins og [B], frá 25. febrúar 2009, um háhraðanettengingar til allra landsmanna, með tilteknum yfirstrikunum. Byggði stjórnin ákvörðun um þá yfirstrikun á 5., sbr. 7. gr., upplýsingalaga. Nánar tiltekið var strikað yfir tiltekna töluliði, málsliði eða tilgreind orð eða fjárhæðir í samningnum sjálfum. Auk þess verður að skilja gögn málsins svo að kæranda hafi verið synjað um aðgang að öllum viðaukum samningsins, en þeir eru ellefu talsins, og að sú synjun hafi byggst á 5. gr. upplýsingalaga.

 

2.
Í gögnum málsins kemur fram að 9. janúar 2009 hafi, í kjölfar útboðs sem birt var í febrúar 2008, verið ákveðið að velja tilboð sem barst frá [B] Í kjölfarið fóru fram tilteknar skýringaviðræður. Í þeim tóku þátt fulltrúar fjarskiptasjóðs og samgönguráðuneytisins, Ríkiskaupa og [B] Samningur var svo undirritaður milli stjórnvalda og [B] þann 25. febrúar 2009.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita aðila sjálfum aðgang að skjölum og öðrum gögnum sem varða tiltekið mál ef þau hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.“ Þau gögn sem kæranda hefur verið synjað um aðgang að eru annars vegar gögn sem til urðu í tengslum við útboð sem kærandi tók sjálfur þátt í. Hins vegar eru þeir gögn sem tengjast þeim samningi sem gerður var í kjölfar vals á bjóðanda. Úrskurðarnefndin lítur svo á að kærandi sé aðili máls í skilningi hins umrædda ákvæðis þegar hann fer fram á að fá aðgang að útboðsgögnum, þ.á m. frá öðrum þátttakendum í útboðinu. Öðru máli gegnir hins vegar þegar hann óskar eftir aðgangi að samningi þeim sem gerður var í kjölfar útboðsins og viðaukum við hann. Þótt kærandi kunni að hafa hagsmuni af því, umfram aðra, að fá aðgang að gögnum sem þannig hafa orðið til eftir að val á bjóðanda fór fram verður orðalagið „upplýsingar um hann sjálfan“ í 1. mgr. 9. gr. ekki skýrt svo rúmt að það taki til upplýsinga sem fram koma í gögnum sem til urðu eftir þann tíma. Þar af leiðandi gilda reglur II. kafla upplýsingalaga um almennan aðgang að upplýsingum um þann hluta gagnanna. Með vísan til þessa verður hér fyrst fjallað um rétt kæranda til aðgangs að þeim viðaukum sem teljast til útboðsgagna og gagna sem tilheyra vali á tilboði en síðan um rétt hans til aðgangs að öðrum gögnum málsins.

 

3.
Viðauki 1 við hinn umrædda samning ber yfirskriftina „Útboðsgögn nr. 14121 dagsett í febrúar 2008 er bera nafnið: Háhraðanettengingar til allra landsmanna“.

Viðauki nr. 2 ber yfirskriftina „Fyrirspurnir og svör 1 – 22 á tilboðstímanum, nýir staðalistar, leiðréttingar á útboðsgögnum og fundargerð frá kynningarfundi. Um aðgang kæranda að þessum gögnum fer að 9. gr. upplýsingalaga.
 
Viðauki nr. 3 ber yfirskriftina „Tilboð seljanda, dags. 04.09.2008“. Þetta gagn varð eðli máls samkvæmt, eins og viðaukar nr. 1 og 2, til áður en ákvörðun var tekin um val tilboðs. Hið sama á við um eina fundargerð, dags. 20. október 2008, sem er að finna í viðauka 5. Um aðgang kæranda að þessum gögnum fer einnig að 9. gr. upplýsingalaga.

Í 1. mgr. 9. gr. upplýsingalaga er kveðið á um að almennt sé skylt að veita aðila máls aðgang að gögnum ef þau hafa að geyma upplýsingar sem varða hann sjálfan. Í 2. og 3. mgr. þeirrar greinar er að finna undantekningar frá þessari meginreglu, þ.á m. segir í 2. tölul. 2. mgr. að ákvæði 1. mgr. gildi ekki „um gögn sem hafa að geyma upplýsingar um mikilvæga almannahagsmuni er leynt eiga að fara skv. 6. gr.“ Þá segir orðrétt í 3. mgr.: „Heimilt er að takmarka aðgang aðila að gögnum ef þau hafa jafnframt að geyma upplýsingar um einkamálefni annarra, enda vegi þeir hagsmunir, sem mæla með því að upplýsingunum sé haldið leyndum, þyngra en hagsmunir þess sem fer fram á aðgang að gögnunum.“

Fjarskiptasjóður hefur til stuðnings þeirri ákvörðun að synja kæranda um aðgang að umræddum gögnum fyrst og  fremst vísað til einkahagsmuna [B] Undir þá afstöðu hefur [B] tekið.

Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið ofangreind gögn, þ.e. viðauka 1 til 3 og fundargerð sem tilheyrir viðauka 5, dags. 20. október 2008. Í viðauka 1 og 2 er að mati nefndarinnar ekkert að finna sem er þess eðlis að því skuli haldið leyndu með tilliti til hagsmuna [B], sbr. 3. mgr. 9. gr. upplýsingalaga. Tilboð [B] í hið umrædda verk, sem er að finna í viðauka 3, er heldur ekki þess eðlis að því beri almennt að halda leyndu fyrir kæranda með tilliti til hagsmuna [B] eða fundargerð, dags. 20. október 2008 sem er hluti af viðauka 5 við umræddan samning. Þó telur nefndin að í hluta af viðauka 3, þ.e. tilboði [B] í umrætt verk, komi fram upplýsingar um tiltekin viðskiptaleg atriði sem eðlilegt sé og sanngjarnt að ekki komist til vitundar samkeppnisaðila, nema fyrir liggi skýlaust samþykki [B] Nánar tiltekið er hér um að ræða töflu sem fylgdi tilboði [B] á 32 blaðsíðum þar sem listaðir eru upp allir þeir staðir sem [B] mun tryggja tiltekna háhraðatengingu, hnit viðkomandi staða og tilboðsverð án virðisaukaskatts vegna hvers staðar fyrir sig. Þó á kærandi rétt á aðgangi að síðustu línu eða röð töflunnar í heild sinni þar sem fram kemur heildarfjárhæð tilboðs.

 

4.
Eins og fram er komið eru önnur gögn málsins dagsett eftir að ákvörðun var tekin þann 9. janúar 2009 um að velja tilboð [B] Um aðgang kæranda að þeim gögnum sem eftir standa fer því að meginreglu 3. gr. upplýsingalaga, en ekki 9. gr. laganna.

Í 3. gr. upplýsingalaga, sbr. 1. gr. laga nr. 161/2006, segir orðrétt: „Stjórnvöldum er skylt, sé þess óskað, að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem varða tiltekið mál með þeim takmörkunum sem greinir í 4. – 6. gr. Stjórnvöldum er þó ekki skylt að útbúa ný skjöl eða önnur  gögn í ríkari mæli en leiðir af 7. gr.“ Í 7. gr. upplýsingalaga kemur m.a. fram að ef 4.-6. gr. eigi aðeins við um hluta skjals skuli veita almenningi aðgang að öðru efni skjalsins.

Fjarskiptasjóður hefur um synjun á gögnum málsins vísað til 5. gr. upplýsingalaga. Undir þau rök hefur [B] tekið.

Í 5. gr. upplýsingalaga segir orðrétt: „Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða  viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“ Í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til upplýsingalaga er m.a.  tekið fram til skýringar á niðurlagsákvæði greinarinnar að óheimilt sé: „...að veita almenningi upplýsingar um atvinnu-, framleiðslu- og viðskiptaleyndarmál eða viðkvæmar upplýsingar um rekstrar- eða samkeppnisstöðu svo og aðra mikilvæga viðskiptahagsmuni.“

Í framangreindu samhengi er rétt að fram komi að jafnvel þótt upplýsingar sem fram koma í gögnum málsins geti varðað mikilvæga viðskiptahagsmuni þeirra er hlut eiga að máli gera upplýsingalög ráð fyrir því að það sé metið í hverju og einu tilviki hvort um sé að ræða upplýsingar um svo mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Við matið verður einnig að líta til þess hversu mikið tjónið geti orðið og hversu líklegt er að það muni verða, verði upplýsingarnar veittar. Við það mat verður enn fremur að líta til eðlis upplýsinganna, framsetningar þeirra og aldurs, svo og hvaða þýðingu þær hafa fyrir rekstur fyrirtækisins á þeim tíma er matið fer fram, þ.á m. hvort um er að ræða nýjar eða óþekktar framleiðsluaðferðir eða upplýsingar sem skert geta samkeppnishæfni þess á annan hátt. Þegar allt þetta hefur verið virt verður að meta hvort vegi þyngra  hagsmunir fyrirtækisins eða þeir hagsmunir sem meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um aðgang almennings að gögnum er ætlað að tryggja, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar frá 23. mars 2000 í máli nr. 455/1999 (H 2000:1344). Við mat á hagsmunum almennings af því að fá aðgang að umræddum samningi og viðaukum hans verður að hafa í huga að með honum er ráðstafað opinberu fé.

Úrskurðarnefndin  hefur kynnt sér efni þeirra skjala sem stjórn fjarskiptasjóðs hefur afhent úrskurðarnefnd um upplýsingamál, þ.e. samning fjarskiptasjóðs og [B] frá 25. febrúar 2009 án útstrikana, ásamt fylgigögnum, sbr. 3. gr. samningsins. Þau gögn sem kærði hefur synjað kæranda um aðgang að, og úrskurðarnefndin hefur ekki þegar tekið afstöðu til í kafla 3 hér að framan eru eftirfarandi:

Samningur fjarskiptasjóðs og [B], dags. 25. febrúar 2009, án útstrikana.
Viðauki nr. 4, ábyrgðaryfirlýsing banka, dags. 17. febrúar 2009.
Viðauki nr. 5, fundargerðir skýringa- og samningsviðræðna, að undanskilinni þeirri fundargerð sem dags. er 20. október 2008.
Viðauki nr. 6, tíma og verkáætlun seljanda, dags. 20. febrúar 2009.
Viðauki nr. 7, staðalistar, dags. 28.08.2008 og 20.02.2009.
Viðauki nr. 8, samningur um endabúnað og uppsetningu, dags. 20.02.2009.
Viðauki nr. 9, lýsing á notendabúnaði, dags. 20.02.2009.
Viðauki 10, endursölufyrirkomulag, dags. 20.02.2009.
Viðauki nr. 11, sbr. 3. gr. samningsins, gervihnattalausnir, dags. 12. febrúar 2009.

Verður nú tekin afstaða til réttar kæranda til aðgangs að ofangreindum gögnum.

 

5.
Úrskurðarnefndin hefur kynnt sér efni samnings fjarskiptasjóðs og [B] frá 25. febrúar 2009 án útstrikana. Telur nefndin að einvörðungu upplýsingar sem fjarskiptasjóður strikaði yfir í því eintaki samningsins sem afhent var kæranda og fram koma í 16. gr. og 2. mgr. 19. gr. séu þess eðlis að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt vegna hagsmuna [B] Að öðru leyti ber að afhenda kæranda afrit samningsins, dags. 25. febrúar 2009, án yfirstrikana.
 
Viðauki nr. 4 inniheldur ábyrgðaryfirlýsingu banka, dags. 17. febrúar 2009. Með tilliti til efnis yfirlýsingarinnar telur úrskurðarnefndin að í henni komi fram upplýsingar sem sanngjarnt sé og eðlilegt að leynt fari, sbr. síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga. Ber því að fallast á synjun fjarskiptasjóðs á aðgangi að því gagni.

Í viðauka 5 er að  finna samtals 14 fundargerðir aðila frá tímabilinu 20. október 2008 til og með 13. febrúar 2009. Um aðgang að þessum gögnum hefur fjarskiptasjóður synjað kæranda. Um aðgang að fyrstu fundargerðinni, 20. október 2008, hefur verið fjallað hér að framan.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál telur, með hliðsjón af efni umræddra fundargerða, að þar sé almennt að finna upplýsingar um fyrirkomulag verks, verkhraða, greiðslufyrirkomulag og önnur atriði sem telja má eðlilegt og sanngjarnt að leynt fari skv. síðari málsl. 5. gr. upplýsingalaga. Ber því að fallast á synjun fjarskiptasjóðs á beiðni kæranda um aðgang að viðauka 5 í heild sinni, að undanskilinni þeirri fundargerð sem dags. er 20. október 2008, sem fjallað var um að framan.

Í viðauka nr. 6 er að finna tíma- og verkáætlun verksala, dags. 20. febrúar 2009. Er henni skipt í 11 áfanga auk þess sem þessum viðauka fylgir Íslandskort þar sem merktir hafa verið inn verkstaðir og tilgreindur verktími á tilteknum svæðum á landinu. Þrátt fyrir að upplýsingar sem fram koma í þessum viðauka geti talist varða viðskiptahagsmuni [B] verður ekki séð að þær lúti að svo mikilvægum fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækis, að ætla megi að þær séu til þess fallnar að valda því tjóni verði aðgangur veittur að þeim. Ber því að veita kæranda aðgang að viðauka nr. 6.

Í viðauka nr. 7 koma fram upplýsingar um þá staði sem gert er ráð fyrir að fái háhraðanettengingu samkvæmt samningi. Annars vegar er um að ræða lista yfir staði samkvæmt leiðréttri tilboðsskrá dags. 28. ágúst 2008. Hins vegar listi yfir viðbótarstaði, sem gera verður ráð fyrir að samið hafi verið um að skyldu fá slíka tengingu, til viðbótar við þá staði sem fram komu á lista frá 28. ágúst 2008. Í umræddum lista yfir viðbótarstaði er sérstaklega merkt við þá staði sem virðast vera „í athugun“.

Ekki verður séð að það geti talist til trúnaðarupplýsinga hvaða staðir munu samkvæmt samningum stjórnvalda við [B] fá háhraðanettengingu, hvorki á grundvelli hagsmuna [B] né m.t.t. hagsmuna íbúa þeirra staða sem hér um ræðir. Ólíkt þeirri töflu sem fram kemur í tilboði [B] og liggur til grundvallar hinum umrædda samningi koma ekki fram í þessum lista upplýsingar um kostnað við tryggingu háhraðanets á hverjum stða fyrir sig. Hér hefur úrskurðarnefndin einnig litið til þess að umræddur listi er aðgengilegar á heimasíðu samgönguráðuneytisins. Með hliðsjón af þessu stendur ekkert því í vegi að fjarskiptasjóður afhendi kæranda afrit af viðauka 7 við umræddan samning.

Viðauki nr. 8 inniheldur sérstakan samning um endabúnað og uppsetningu.  Telst hann hluti af meginsamningi um háhraðanettengingar til allra landsmanna, eins og aðrir viðaukar samningsins. Umræddur samningur um endabúnað og uppsetningu inniheldur samkvæmt efni sínu upplýsingar um skyldur seljanda, m.a. gagnvart þeim sem munu njóta þeirra háhraðanettenginga sem þeim verða boðnar samkvæmt aðalsamningi aðila. Úrskurðarnefndin hefur yfirfarið efni samningsins. Almennt verður að gera ráð fyrir að efni hans innihaldi upplýsingar sem varða viðskiptahagsmuni [B] Á hinn bóginn er það afstaða nefndarinnar að einvörðungu þær upplýsingar um verð og önnur atriði sem fram koma í 1. mgr. 49. gr. og 50. gr. samningsins innihaldi upplýsingar sem séu þess eðlis, að teknu tilliti til hagsmuna [B], að sanngjarnt sé og eðlilegt að þeim sé haldið leyndum. Fjarskiptasjóði ber að veita kæranda aðgang að samningnum að öðru leyti.

Í viðauka nr. 9 kemur fram lýsing á notendabúnaði sem verksali mun nota, eða bjóða uppá, þeim notendum sem fá háhraðanettengingu samkvæmt samningi. Þær upplýsingar sem fram koma í viðauka 9 lúta ekki að viðskiptahagsmunum [B] að öðru leyti en því að af þeim má ráða hvaða lausnir það eru sem [B] mun bjóða notendum háhraðanettenginga uppá. Verður ekki séð að í þessum lýsingum komi fram slíkar tæknilegar upplýsingar að sanngjarnt sé og eðlilegt að þær fari leynt af þeirri ástæðu. Þá verður ekki talið að ætla megi að þessar upplýsingar séu til þess fallnar að valda [B] tjóni verði almenningi veittur aðgangur að þeim. Ber því að veita kæranda aðgang að viðauka nr. 9.

Viðauki nr. 10 ber yfirskriftina „endursölufyrirkomulag“. Hann inniheldur fyrirmynd að tveimur samningum sem [B] gerir, eða mun gera, við svonefnda endursöluaðila. Í fyrri samningnum er um að ræða fyrirmynd að samningi við endursöluaðila um endursölu á UMTS háhraðanetstengingum með internetþjónustu. Í síðari samningnum er um að ræða fyrirmynd að samningi um endursölu á ADSL þjónustu fyrir [B]

Úrskurðarnefndin telur að í þessum samningsfyrirmyndum sé ekkert að finna sem skaðað gæti viðskipthagsmuni [B] með þeim hætti að af þeim sökum beri að synja kæranda um aðgang að þeim.

Viðauki nr. 11. ber yfirskriftina „Gervihnattalausnir“. Er hér um að ræða stutt minnisblað, á einni blaðsíðu, um gervihnattatengingar. Með hliðsjón af efni minnisblaðsins, og meginreglu 3. gr. upplýsingalaga um upplýsingarétt almennings, verður ekki séð að í því komi fram neinar þær upplýsingar sem eðilegt og sanngjarnt sé að haldið sé leyndum að teknu tilliti til hagsmuna [B] Ber því fjarskiptasjóði að afhenda kæranda afrit af umræddum viðauka.

 

Úrskurðarorð


Fjarskiptasjóði ber að afhenda kæranda, [...] afrit eftirtalinna gagna: Í fyrsta lagi samning um háhraðanettengingar til allra landsmanna sem sjóðurinn gerði við [B] 25. febrúar 2009, að undanskilinni 16. gr. og 2. mgr. 19. gr. Í öðru lagi ber að afhenda í heild sinni viðauka nr. 1, 2, 6, 7, 9, 10 og 11. Í þriðja lagi viðauka nr. 3, að undanskilinni töflu sem þar er að finna á 32 blaðsíðum og inniheldur lista yfir staði sem gert er ráð fyrir að tryggð verði háhraðanettenging ásamt tilboðsverði án virðisaukaskatts vegna hvers staðar fyrir sig. Þó á kærandi rétt á aðgangi að síðustu línu töflunnar þar sem fram kemur heildarfjárhæð tilboðs. Í fjórða lagi afrit fundargerðar, dags. 20. október 2008, sem tilheyrir viðauka nr. 5 við samninginn. Að öðru leyti er fallist á synjun fjarskiptasjóðs á aðgangi að viðauka nr. 5. Í fimmta lagi ber að afhenda viðauka nr. 8, að undanskildum 1. mgr. 49. gr. og 50. gr. hans.

Fallist er á þá ákvörðun fjarskiptasjóðs að synja kæranda um aðgang að viðauka nr. 4 í heild sinni.

 


Friðgeir Björnsson
formaður

 


                           Helga Guðrún Johnson                           Trausti Fannar Valsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta