Rekstur félagslegra leiguíbúða sveitarfélaga
Samband íslenskra sveitarfélaga og félagsmálaráðuneytið gengust fyrir ráðstefnu föstudaginn 4. apríl sl. um rekstur félagslegra leiguíbúða sveitarfélaga. Markmið hennar var að miðla reynslu og þekkingu á rekstri leiguíbúða sveitarfélaga. Á ráðstefnunni var fjallað um reynslu Félagsbústaða hf. og Félagsþjónustunnar í Reykjavík í þeim efnum á undanförnum árum. Einnig komu fram upplýsingar og sjónarmið fulltrúa Reykjanesbæjar og Ísafjarðarbæjar sem nýlega hafa lokið undirbúningsvinnu og stofnað félög um rekstur leiguíbúðanna. Einnig var fjallað um viðfangsefni varasjóðs húsnæðismála og lánveitingar Íbúðalánasjóðs.
Sveitarfélög hafa hlutverk og skyldur í félagslegum húsnæðismálum landsmanna. Leiguíbúðir eru vaxandi þáttur í úrræðum sveitarfélaganna. Nærri lætur að 4% íbúða landsmanna séu leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga. Með tilkomu húsaleigubóta 1995 var sú stefna mörkuð að tengja aðstoð til leigjenda við aðstæður einstaklingsins í stað þess að vera bundin ákveðnum íbúðum. Í kjölfarið hefur þróunin verið sú að færa aðstoðina frá því að láta íbúðir í té með mikilli niðurgreiðslu yfir í að nálgast kostnaðarleigu og greiða húsaleigubætur. Tenging félagslegrar aðstoðar við íbúðirnar var erfið úrlausnar og óskilvirk aðferð til að ná settum markmiðum.
Á síðastliðnum árum hafa orðið verulegar breytingar á viðhorfum til leiguíbúða og á rekstrarumhverfi þeirra. Lykilatriði í þessari þróun er mikilvægi þess að aðskilja eignarhald og rekstur leiguíbúða. Svipuð þróunarferli hafa átt sér stað í Evrópu og á Norðurlöndunum. Með stofnun Félagsbústaðir hf. árið 1997, hlutafélags í eigu Reykjavíkurborgar um rekstur félagslegra íbúða, voru mörkuð tímamót í rekstri slíkra íbúða á Íslandi. Með lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, var þessari þróun mætt í húsnæðislöggjöfinni. Í 38. gr. laganna segir: "Sveitarfélagi er heimilt að stofna hlutfélag, sjálfseignarstofnun eða félag með ótakmarkaðri ábyrgð er annist útleigu íbúða í eigu sveitarfélagsins." Félagsmálaráðuneytið hefur gert leiðbeiningar og fyrirmyndir að samþykktum fyrir félög og leigufélög sveitarfélaga sem birtar eru á heimasíðu ráðuneytisins. Ráðuneytið hefur staðfest samþykktir leigufélaga þriggja sveitarfélaga þ.e. Reykjavíkurborgar, Reykjanesbæjar, Ísafjarðarbæjar og Grindavíkurkaupstaðar.
Á síðastliðnum árum hefur leiguíbúðum sveitarfélaga fjölgað bæði vegna aukinnar eftirspurnar og vegna þess að sveitarfélög hafa þurft að innleysa félagslegar eignaríbúðir sem ekki er unnt að selja á fasteignamarkaði. Virkur leigumarkaður er víðast fyrir hendi en í einstöku sveitarfélagi er offramboð á leiguhúsnæði og dæmi eru um að íbúðir standi auðar. Með lögum nr. 86/2002, um breytingu á lögum nr. 44/1998 um húsnæðismál, með síðari breytingum, var lagður grunnur að starfrækslu nýs sjóðs, varasjóðs húsnæðismála. Hinn nýi sjóður tók til starfa 1. ágúst sl. og er ætlað að veita framlög til sveitarfélaga og félaga á þeirra vegum vegna félagslegra íbúða, sbr. nánari ákvæði þar að lútandi, og tekur hann jafnframt við öllum réttindum og skyldum varasjóðs viðbótarlána sem lagður verður niður samhliða. Eitt af verkefnum varasjóðs húsnæðismála er að veita ráðgjöf og leiðbeiningar þeim sveitarfélögum sem vilja breyta um rekstrarform félagslegra leiguíbúða eða hagræða í rekstri þeirra. Heimilisfang sjóðsins er: Varasjóður húsnæðismála. Ártorgi 1, 550 Sauðárkróki. Sími 455 7160.
Á heimasíðu Sambands íslenskra sveitarfélaga má finna öll þau erindi sem flutt voru á ráðstefnunni.