Ný könnun á sviði húsnæðismála
Árni Magnússon félagsmálaráðherra kynnti í dag nýja spurningakönnun á sviði húsnæðismála sem Gallup vann fyrir félagsmálaráðuneytið.
Könnuninni er ætlað að varpa ljósi á stöðu mála á þessum vettvangi og nýtast við undirbúning tillögugerðar um breytingar á lögum um húsnæðislán í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hækkun lánshlutfalls almennra íbúðalána í allt að 90%.
Niðurstöður könnunarinnar kynntar: Þóra Ásgeirsdóttir, Gallup, Hallur
Magnússon, Íbúðalánasjóði, Árni Magnússon, félagsmálaráðherra og
Sigurjón Örn Þórsson, aðstoðarmaður ráðherra.
Niðurstöður könnunarinnar er að finna í heild sinni á vef félagsmálaráðuneytisins.
Í framsögu sinni benti félagsmálaráðherra benti sérstaklega á eftirfarandi niðurstöður í könnuninni:
- Tveir af hverjum þremur eru hlynntir hugmyndum um 90% lán en 23% eru andvíg. Þeir sem búa í leiguhúsnæði og í foreldrahúsum eru hlynntari hugmyndinni en viðmiðunarhópar.
- Þrír af hverjum fjórum segja að það myndi engin áhrif á þá varðandi kaup á húsnæði hvort 90% lán yrðu í boði eða ekki.
- Meirihlutanum finnst að Íbúðalánasjóður eigi að sjá um húsnæðislánin – 55% nefna Íbúðalánasjóð og rösklega 5% nefna ríkið og hið opinbera.
- Þeim sem taka afstöðu til þess hve vextir eigi að vera háir af verðtryggðum húsnæðislánum segja að meðaltali 4%, rösklega 57% nefna 4% eða lægra og þriðjungur nefnir tölur á bilinu 4,1-5%. Hvergi er munur eftir bakgrunni.
- Að meðaltali fengu 16% þeirra sem keyptu eða byggðu húsnæði á sl. 10 árum viðbótarlán frá Íbúðalánasjóði eða félagslegt lán. Helmingur þeirra sem eru 20-24 ára fékk viðbótarlán og 26% þeirra sem ekki eru í sambúð eða giftir. Um 26% þeirra sem keyptu á sl. 2 árum segjast hafa fengið viðbótarlán hjá Íbúðalánasjóði.
- Allur þorri fólks hefur fengið lán frá Íbúðalánasjóði eða áður Húsnæðistofnun. Um 28% fá lífeyrissjóðslán að meðaltali 2,1 milljónir króna, 21% fær annars konar veðlán að meðaltali 2,5 milljónir króna og um 20% er að taka annars konar lán – yfirdráttarlán, bankalán o.s.frv. að upphæð að meðaltali 1,6 milljón króna.
Könnun á sviði húsnæðismála (500 KB)