Hoppa yfir valmynd
25. nóvember 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Vegna ákvörðunar Persónuverndar um Ferðagjöf

Vegna ákvörðunar Persónuverndar varðandi Ferðagjöf vill atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið koma eftirfarandi á framfæri:

Markmið Ferðagjafar var að hvetja til ferðalaga innanlands og styðja þannig við íslensk ferðaþjónustufyrirtæki í kjölfar heimsfaraldurs COVID-19. Verkefnið var meðal þeirra skilgreindu aðgerða sem ætlað var að styðja við viðspyrnu efnahagslífsins, þá einkum ferðaþjónustunnar. Mikil áhersla var lögð á að veita Íslendingum hvata til að ferðast innanlands og nýta sér afþreyingu og þjónustu. Útbúin var tæknileg lausn í formi smáforrits sem gerði þetta kleift með skömmum fyrirvara.

Ráðuneytinu þykir miður að mistök hafi átt sér stað sem leiddu til þess að aflað var víðtækari persónuupplýsinga en efni stóðu til. Mistökin fólust m.a. í því að smáforrit Ferðagjafar aflaði upplýsinga um aldur og kyn einstaklinga fyrstu þrjá dagana eftir útgáfu smáforritsins. Líkt og fram kemur í ákvörðun Persónuverndar er það mat stofnunarinnar að sú tímaþröng sem verkefnið var unnið í hafi átt stærstan þátt í að umrædd vinnsla hafi farið fram. Um mannleg mistök var að ræða sem þegar í stað var ráðin bót á.

Ráðuneytið vill þó vekja sérstaka athygli á því, líkt og fram kemur í ákvörðun Persónuverndar, að enginn einstaklingur varð fyrir tjóni vegna vinnslunnar. Um leið og mistökin urðu ljós, var látið af umræddri öflun upplýsinga og þeim eytt í kjölfarið. Meðan á vinnslu málsins stóð var bætt úr öllum annmörkum og orðið við tilmælum Persónuverndar.

Persónuvernd hóf frumkvæðisathugun á málinu í september 2020 og hefur átt í samskiptum bæði við YAY ehf. og atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, sem er ábyrgðaraðili framkvæmdarinnar en Stafrænt Ísland leiddi tæknilega útfærslu þess. Ráðuneytið fagnar framkomnum athugasemdum Persónuverndar.

Það er mat atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins að þrátt fyrir minniháttar hnökra í upphafi verkefnisins, sem í einu og öllu hefur verið bætt úr, hafi framkvæmd Ferðagjafarinnar gengið vel og fjölmargir Íslendingar notið hennar í þágu íslenskrar ferðaþjónustu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta