Hoppa yfir valmynd
11. janúar 2017 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Auglýsing um breytingu á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla.

Breytingarnar varða brautskráningu úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið.

Í auglýsingu nr. 894/2016, sem birt var í Stjórnartíðindum 31. október 2016,  staðfesti mennta- og menningarmálaráðherra breytingar á aðalnámskrá grunnskóla og greinasviðum með aðalnámskrá grunnskóla. Meginbreytingin lýtur að því að ef niðurstöður samræmdra könnunarprófa sýna að nemandi í 9. bekk hefur sýnt framúrskarandi (A) eða góða hæfni (B) samkvæmt hæfnikröfum 10. bekkjar og náð framúrskarandi árangri í öðrum greinum geta foreldrar óskað eftir því við skólastjóra grunnskóla að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið.

Í stað kafla 9.10 Brautskráning úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið í aðalnámskrá grunnskóla, sbr. auglýsingu nr. 760/2011, kemur nýr kafli með sama heiti, svohljóðandi:

9.10 Brautskráning úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið.

Ef niðurstöður samræmdra könnunarprófa sýna að nemandi í 9. bekk hefur sýnt framúrskarandi (A) eða góða hæfni (B) samkvæmt hæfnikröfum 10. bekkjar og náð framúrskarandi árangri í öðrum greinum geta foreldrar óskað eftir því við skólastjóra grunnskóla að barn þeirra sé útskrifað úr grunnskóla áður en tíu ára skyldunámi er lokið.

Skólastjóri skal ráðfæra sig við umsjónarkennara nemandans og sérfræðiþjónustu sveitarfélagsins áður en hann tekur ákvörðun í málinu. Skólastjóri metur hvenær nemandi hafi lokið grunnskólanámi og ber ábyrgð á útskrift hans úr grunnskóla. Nemanda ber að ljúka öllu skyldunámi samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla með framúrskarandi árangri áður en hann útskrifast þaðan, samanber eftirfarandi viðmið:

• Nemandi uppfylli viðmið með hliðsjón af hæfniviðmiðum aðalnámskrár með framúrskarandi árangri.

• Nemandi hafi fengið náms- og starfsráðgjöf.

• Skólastjóri telji útskrift ráðlega.

• Nemandi hefur félagsþroska til að takast á við félagslegt umhverfi framhaldsskóla.

Nemendur sem ekki hafa lokið grunnskólanámi geta þó hafið nám í framhaldsskóla samhliða í samráði við foreldra, viðkomandi framhaldsskóla og viðkomandi sveitarfélag, þar sem ljóst sé hvernig námið er formlega metið. Samkvæmt grunnskólalögum er gert ráð fyrir að nánar sé samið um framkvæmd og fyrirkomulag milli hlutaðeigandi grunn- og framhaldsskóla.

Ákveði skólastjóri að synja foreldrum um útskrift úr grunnskóla áður en 10 ára skyldunámi er lokið geta foreldrar kært þá synjun grunnskóla til mennta- og menningarmálaráðuneytis sem úrskurðar í málinu.

Á vef ráðuneytisins er uppfærð útgáfa af aðalnámskrá grunnskóla með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á henni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta