Hoppa yfir valmynd
31. október 2001 Matvælaráðuneytið

Ávarp á ráðstefnu um byggðamál, alþjóðavæðingu og samvinnu, 30.10.2001

Valgerður Sverrisdóttir,
iðnaðar- og viðskiptaráðherra

Byggðamál, alþjóðavæðing og samvinna,
ráðstefna, haldin í Eldborg, Svartsengi, 30. október 2001


Góðir ráðstefnugestir
Ladies and Gentlemen:

First of all I would like to welcome our guests from Paris, Brussels and Oslo. My best tanks to all of you for coming to Iceland and to share your valuable experience with us her today.

Ég vil bjóða ykkur velkomin til þessarar ráðstefnu sem haldin er í samvinnu Byggðastofnunar og iðnaðarráðuneytisins. Heiti ráðstefnunnar er byggðamál, alþjóðavæðing og samvinna. Í dag munum við fyrst og fremst beina athygli okkar að því sem er að gerast í Evrópu og öðrum OECD ríkjum á sviði byggðaþróunarmála. Til þess að fræða okkur um þau mál höfum við fengið fimm erlenda fyrirlesara auk þriggja íslenskra sem hafa sérstaklega kynnt sér byggðaþróunarmál í Evrópu. Þá mun Theodór A. Bjarnason flytja okkur lokaorðin í dag.

Nú stendur yfir umfangsmikil vinna við mótun nýrrar byggðaáætlunar en gildandi áætlun rennur úr gildi um næstu áramót. Skipulag vinnunnar nú er með talsvert öðrum hætti en áður. Að þessari vinnu koma 25 manns víðs vegar af landinu - með reynslu af ýmsum sviðum þjóðfélagsins. Þá hefur verið leitað í smiðju til enn fleiri aðili sem hafa þekkingu á tilteknum sviðum.

Formaður sex manna verkefnisstjórnar er Páll Skúlason háskólarektor. Auk verkefnisstjórnar hafa starfað þrír vinnuhópar og hafa þeir skilað tillögum sínum til verkefnisstjórnarinnar. Einum hópnum var sérstaklega falið að fjalla um alþjóðasamvinnu en formaður þess hóps, Elísabet Benediktsdóttir framkvæmdastjóri Þróunarstofu Austurlands, mun hafa framsögu á ráðstefnunni síðar og mun hún eflaust fjalla um störf hópsins.

Þegar við í ráðuneytinu voru að skipuleggja vinnuna við mótun nýrrar byggðaáætlunar sl. vor komust við að þeirri niðurstöðu að það væri skynsamlegt að fjalla sérstaklega um alþjóðasamvinnu. Í flestum löndum Evrópu eru menn að glíma við svipuð vandamál og hafa í gegnum tíðina beitt ýmsum aðgerðum til að reyna að hafa áhrif á þróun byggðar. Við vitum að á vegum Evrópusambandsins er miklum fjármunum varið til að þróa einstök svæði og hjálpa svæðum til að hjálpa sér sjálf. Þessar aðgerðir eru með ýmsum hætti. Þar getur verið um að ræða styrki til stofnunar nýrra fyrirtækja, þjálfunar starfsfólks og fjármagn til verkefna á sviði rannsókna og þróunar.

Þó svo að við Íslendingar eigum ekki kost á að taka þátt í hinum hefðbundnu byggðaþróunaráætlunum Evrópusambandsins þá erum við aðilar að ýmsum áætlunum á sviði rannsókna og þróunar. Almennt má segja að við höfum staðið okkur mjög vel varðandi þátttöku í þeim áætlunum Evrópusambandsins sem við eigum aðild að. Hins vegar kemur í ljós að þátttaka af landsbyggðinni er mun slakari en þátttaka af höfðuborgarsvæðinu. Við þurfum að leita skýringa á þessum mun og kanna með hvaða hætti við getum stuðlað að meiri þátttöku landsbyggðarinnar í rannsóknar- og þróunaráætlunum Evrópusambandsins. Ég á von á því að það verði tillögur í nýrri byggðaáætlun er miði að því að auka hlut landsbyggðarinnar í þessum efnum.

Sl. haust var okkur boðið að gerast aðilar að Interreg áætlun Evrópusambandsins, Northern Periphery, sem er sérstaklega hönnuð fyrir hinn norðlæga hluta Evrópu. Á þeim tíma var það mat Byggðastofnunar að við ættum frekar að beina áherslum okkar að öðrum áætlunum Evrópusambandsins. Það varð því niðurstaðan þá að við ættum ekki að þiggja aðild að þessari áætlun. Þau lönd sem standa að Northern Periphery eru Noregur, Svíþjóð, Finnland, Skotland, Færeyjar og Grænland. Eftir því sem við höfum kynnt okkur betur þessa áætlun þá hefur komið í ljós að ýmsir hér á landi hafa mikinn áhuga á að taka þátt í ýmsum verkefnum sem boðið er upp á. Jafnframt er greinilega mikill áhugi þeirra nágrannalanda okkar sem aðild eiga að áætluninni að Ísland verði með. Í því sambandi má nefna að Samband íslenskra sveitafélaga, Fjarðabyggð og Háskólinn á Akureyri hafa nú þegar lýst yfir áhuga á að taka þátt í tilteknum verkefnum. Í ljósi þess mikla áhuga á þátttöku í Northern Periphery sem ég hef orðið vör við þá hef ég ákveðið að beita mér fyrir því að Ísland geti tekið fullan þátt í þeirri áætlun sem er að fara af stað þessa dagana

Góðir ráðstefnugestir

Umræðan um byggðamál hefur oft á tíðum verið neikvæð hér á landi. Það hefur skort sameiginlegan skilning milli þeirra sem búa á landsbyggðinni og þeirra sem búa á höfðuborgarsvæðinu. Ég tel að besta leiðin til lausnar á þessum vanda felist í því að efla faglega umræðu um byggðamál í landinu. Ráðstefnan hér í dag er haldin til að undirbyggja slíka umræðu og læra af öðrum þjóðum. Iðnaðarráðueytið mun í samvinnu við Byggðastofnun og aðra - beita sér fyrir fleiri slíkum ráðstefnum á næstu mánuðum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta