Hoppa yfir valmynd
21. maí 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 21/2008

Miðvikudaginn 21. maí 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi, sem barst úrskurðarnefnd almannatrygginga 15. janúar 2008, kærir A, ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 22. nóvember 2007, um innheimtu ofgreiddra bóta. Áður hafði kærandi sent erindi sitt til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, sem móttók það 3. desember 2007. Ráðuneytið endursendi kæranda erindið 21. desember 2007 með ábendingum um að leita til úrskurðarnefndar almannatrygginga.

Óskað er endurskoðunar.

 

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins sendi kæranda bréf, dags. 22. nóvember 2007, til innheimtu ofgreiddra bóta að fjárhæð kr. 442.954. Í bréfinu var þess farið á leit að framangreind fjárhæð yrði endurgreidd fyrir 15. janúar 2008.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„Bréf frá Tryggingastofnun barst mér í hendur 29. nóv 2007, og í því er mér tjáð að ég skuldi 442.954 kr vegna ofgreiðslu bóta.

Þannig er að mér var kippt útaf vinnumarkaði 2004 og var ég á endurhæfingalífeyrir þangað til vor 2007. Í upphafi þegar ég geri skýrslu gef ég upp tekjur sem ég er með 20.000 á mán, ekki var ég strax búin að fá uppgefið hvað ég fengi frá mínum lífeyrissjóði þannig að starfsmaður Tryggingastofnunar bað mig að láta sig vita þegar það kæmi sem ég geri samviskusamlega. Ég hringi í hana, en sendi ekki skriflegt bréf því ekki tjáði hún mér þá að þess þyrfti. Síðan hef ég fengið bréf þar sem ég hef verið beðin að senda breytingar á launum ef einhverjar séu, en hef ekki gert það, vegna þess að ég vissi ekki betur en að þetta væri allt inni og engrar breytinga þörf. Ég er ekki sátt við að borga vegna mistaka starfsmanns, nóg þykir mér vera á mig hallað að vera að tekjutengja þessa lús sem örorkubætur eru í dag. Að ekki skuli vera litið á mig sem einstakling nema þegar ég þarf að borga, en ekki þegar ég fæ borgað. Ég hafði samband við starfsmann tryggingarstofnunar þegar mér barst þetta bréf í hendur og tjáði hún mér þá að þetta hefði allt þurft að vera skriflegt, ekki finnst mér nóg að fá að vita þetta svona löngu seinna, þegar maður fær ekki réttar upplýsingar getur maður ekki breytt rétt og er ekki hægt að ætlast til að borgað sé fyrir annarra mistök.

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 16. janúar 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Greinargerðin er dags. 28. febrúar 2008 og þar segir:

„Í kæru kemur fram að þann 29. nóvember 2007 hafi kæranda borist bréf frá Tryggingastofnun þar sem fram kom að kærandi skuldar stofnuninni 442.954 kr. Ljóst er að hér er um samanlagðar kröfur áranna 2005 og 2006 að ræða. Krafa Tryggingastofnunar er fyrir árið 2006 kr. 256.921 að teknu tilliti til skatta. Eftirstöðvar kröfu Tryggingastofnunar er fyrir árið 2005 kr. 186.033 að teknu tilliti til skatta. Rétt er að ítreka það að bréf tryggingastofnunar þann 29. nóvember 2007, er ekki stjórnvaldsákvörðun heldur eingöngu tilkynning um uppsafnaðar skuldir kæranda.

Þar sem um er að ræða kröfur vegna tveggja mismunandi ára er eðlilegt að svara þeim í sitthvoru lagi.

Krafa vegna ársins 2005.

Ástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2006 vegna tekjuársins 2005 hafði farið fram komu í ljós að tekjur kæranda og maka kæranda á árinu 2005 reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir.

Þann 27. október 2006 sendi Tryggingastofnun kæranda bréf þar sem fram kom að ofgreiðslur til kæranda námu 214.298 kr vegna tekjuársins 2005. Frá og með l. febrúar 2007, voru dregnar 5.653 kr. af mánaðarlegum greiðslum til kæranda eða allt þar til endurhæfingar greiðslur til kæranda hættu þann l. júní 2007. Í lok þessa mánaðarlega frádráttar skuldaði kærandi stofnuninni kr. 186.033. Ekki verður séð að kærandi hafi nýtt sér andmælarétt sinn eða kæruheimild í lögum um almannatryggingar nr, 100/2007 (atl).

Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. atl. skal kæra til úrskurðarnefndar um almannatryggingar hafa verið borin fram áður en þrír mánuðir eru liðnir síðan að bótaþega var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar. Í 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 er að finna sambærilegt ákvæði.

Í 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga kemur fram að berist stjórnsýslukæra meira en ári eftir að aðila var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun skuli kærunni ekki sinnt. Telja verður að þetta eigi við um málsmeðferð úrskurðarnefndar þar sem í 8. mgr. 8. gr. atl. skal málsmeðferð nefndarinnar vera í samræmi við stjórnsýslulög.

Kæra barst úrskurðarnefnd almannatrygginga þann 16. janúar s.l., en kæranda hafði verið tilkynnt ákvörðun stofnunarinnar þann 27. október 2006. Meira en ár var liðið frá því að kæranda var tilkynnt um ákvörðun Tryggingastofnunar og var því kærufrestur liðinn.

Ekki verður séð að nein rök mæli með því að í þessu máli verði vikið frá þeirri reglu 2. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga um að kæru sem berst þegar meira en ár er liðið frá ákvörðun skuli ekki tekin til greina og fer því Tryggingastofnun fram á frávísun á þessum hluta málsins. Komist úrskurðarnefnd almannatrygginga að annarri niðurstöðu áskilur Tryggingastofnun sér hins vegar rétt til að koma að efnislegri greinargerð um málið.

Krafa vegna ársins 2006.

Í 16. gr. atl, er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 16. gr. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna.

Í 55. gr. atl. segir að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Er þessi skylda nánar útfærð í ákvæðinu m.a. varðandi tilhögun frádráttar.

Ástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 hafði farið fram komu í ljós að tekjur kæranda og maka kæranda á árinu 2006 reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir vegna ársins 2006. Í tekjuáætlun 2006 voru launatekjur kæranda áætlaðar samtals 265.860 kr. og launatekjur maka kæranda voru áætlaðar 4.154.064 kr. Fjármagnstekjur kæranda og maka kæranda voru áætlaðar samtals 17.136.

Við bótauppgjör ársins 2006 kom hins vegar í ljós að launatekjur kæranda námu samtals 348.307 kr. og lífeyrissjóðstekjur námu samtals 781.843 kr.. Einnig kom í ljós að launatekjur maka kæranda námu samtals 4.342.063 og aðrar tekjur maka námu samtals 28.365 kr. Ofgreiðslur til kæranda námu því kr. 256.921, eins og sjá má á bréfi Tryggingastofnunar þann 8. október 2007.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. atl. er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur.

Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra. Til að auðvelda lífeyrisþegum að fylgjast með bótaútreikningi og meta hvort tilkynna þurfi breytingar hóf Tryggingastofnun í apríl 2004 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðslutilkynninga. Eftir það hefði kærandi því mátt sjá að þær tekjuforsendur sem stofnunin lagði til grundvallar voru ekki alfarið réttar.

Í kæru kemur fram að kærandi telur sig hafa haft samband við fulltrúa Tryggingastofnunar og tilkynnt fulltrúa stofnunarinnar símleiðis um breyttar tekjur. Tryggingastofnun kannast ekki við þessa tilkynningu og hefur ekki fundið gögn til að styðja hana. Langt er um liðið síðan umrætt símtal á að hafa átt sér stað og hafi símtalið átt sér stað er erfitt fyrir stofnunina að vita hvað fór á milli viðkomandi einstaklinga og hvernig viðkomandi einstaklingar hafi skilið samræðurnar. Einnig verður að benda á að kærandi hefur haft ítrekuð tækifæri til að leiðrétta meint mistök stofnunarinnar. Í fyrsta lagi hefur kæranda mánaðarlega verið sendar gildandi tekjuáætlanir, í öðru lagi hefur kæranda verið sendar tekjuáætlanir til staðfestingar árlega og í þriðja lagi hefur kæranda tvisvar verið sent bréf þar sem honum er tilkynnt um ofgreiðslu fyrir einstök ár, fyrst þann 27. október 2006 og svo þann 8. október 2007. Það er þó ekki fyrr en í janúar 2008 sem að kærandi sendir úrskurðarnefnd kæru.

Rétt er að ítreka að í ákvæði 2. mgr. 52. gr. atl. felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 3. mars 2008 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Engar athugasemdir eða viðbótargögn hafa borist frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins vegna ofgreidda bóta til kæranda. Í bréfi Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 22. nóvember 2007, sem hefur að geyma hina kærðu ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta, segir að ákvörðunina megi kæra skriflega innan þriggja mánaða frá móttöku hennar til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Kærandi beindi kæru sinni til ráðuneytisins, sem taldi ágreiningsefnið ekki eiga undir ráðuneytið og endursendi kæranda erindi hennar með bréfi þar sem segir að allur ágreiningur varðandi bætur, bótaupphæðir og tilhögun bóta skuli til lykta leiddur af úrskurðarnefnd almannatrygginga. Ráðlagði ráðuneytið kæranda að beina erindi sínu til úrskurðarnefndarinnar. Þrátt fyrir að Tryggingastofnun ríkisins hafi í framangreindu bréfi sínu til kæranda tilgreint að heimilt væri að kæra ákvörðunina til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins er engar athugasemdir við það að finna í greinargerð Tryggingastofnunar að mál þetta sæti kærumeðferð hjá úrskurðarnefnd almannatrygginga. Hins vegar er í greinargerðinni tekið fram að bréf Tryggingastofnunar til kæranda frá því í nóvember 2007 sé ekki stjórnvaldsákvörðun heldur eingöngu tilkynning um uppsafnaðar skuldir kæranda.

Í 1. mgr. 7. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007 segir að rísi ágreiningur um grundvöll, skilyrði og upphæð bóta samkvæmt almannatryggingalögunum leggi sjálfstæð og óháð nefnd, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurð á málið.

Ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta byggir á útreikningi bóta, sem ótvírætt fellur undir úrskurðarvald úrskurðarnefndar almannatrygginga samkvæmt 7. gr. almannatryggingalaga. Úrskurðarnefnd almannatrygginga lítur svo á að bréf Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda, dags. 22. nóvember 2007, feli í sér stjórnvaldsákvörðun um að innheimta hjá kæranda bætur sem stofnunin telji sig hafa ofgreitt henni, sbr. 2. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá telur úrskurðarnefndin að ákvörðun um innheimtu ofgreiddra bóta hafi beinlínis áhrif á upphæð bóta sem bótaþegi nýtur frá Tryggingastofnun ríkisins og þar með eigi mál sem varði innheimtu ofgreiddra bóta undir nefndina.

Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að mál þetta skuli tekið til afgreiðslu af hálfu nefndarinnar.

Af hálfu Tryggingastofnunar ríkisins hefur því verið haldið fram að mál þetta varði endurkröfu ofgreiddra bóta bæði vegna áranna 2005 og 2006. Hefur þeirri staðhæfingu ekki verið mótmælt af hálfu kæranda. Í hinni kærða ákvörðun, sem er bréf Tryggingastofnunar til kæranda, dags. 22. nóvember 2007, segir að fyrir liggi skuld kæranda við stofnunina að fjárhæð 442.954 kr., sem óskað er eftir endurgreiðslu á. Meðal þeirra gagna sem fylgdu með greinargerð Tryggingastofnunar til úrskurðarnefndar almannatrygginga eru afrit af bréfum stofnunarinnar til kæranda, dags. 27. október 2006 og 8. október 2007. Í fyrrnefnda bréfinu segir að niðurstaða endurreiknings bótagreiðslna til kæranda árið 2005 sýni að bætur ársins 2005 hafi verið ofgreiddar sem nemi 214.298 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta. Í síðarnefnda bréfinu segir að niðurstaða endurreiknings bótagreiðslna til kæranda árið 2006 sýni að bætur ársins 2006 hafi verið ofgreiddar sem nemi 256.921 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Á grundvelli framangreindra upplýsinga og gagna frá Tryggingastofnun ríkisins, sem kærandi hefur ekki gert athugasemdir við, telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að leitt hafi verið í ljós að endurkrafa sú sem sett var fram í bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. nóvember 2007, byggist hvort tveggja á endurreikningi Tryggingastofnunar á bótagreiðslum til kæranda árið 2005 og árið 2006 og að 186.033 kr. varði árið 2005 en 256.921 kr. varði árið 2006.

Af rökstuðningi fyrir kæru verður ráðið að kæranda hafi misst vinnu af einhverjum sökum árið 2004 og í kjölfarið fengið greiddan endurhæfingarlífeyri þar til vorið 2007. Þá verður af kærunni ráðið að kærandi hafi við upphaf þess að hún fékk greiddan endurhæfingarlífeyri gefið upplýsingar um að mánaðartekjur hennar væru 20.000 kr. og að þá hafi hún ekki vitað hvað hún fengi greitt frá lífeyrissjóði sínum. Hún hafi síðan haft símasamband við starfsmann Tryggingastofnunar þegar ljóst var hverjar lífeyrissjóðsgreiðslurnar væru og hafi starfsmaðurinn tjáð henni að ekki væri þörf á að hún sendi skriflegar upplýsingar. Kærandi kveðst síðan hafa fengið bréf þar sem hún hafi verið beðin um að senda upplýsingar um breytingar á launum ef einhverjar væru en það hafi hún ekki gert þar sem hún hafi ekki vitað betur en að allar upplýsingar væru til staðar og engra breytinga þörf.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að hin kærða ákvörðun, innheimta ofgreiddra bóta að fjárhæð 442.954 kr., sé samanlagðar ofgreiddar bætur stofnunarinnar til kæranda árin 2005 og 2006. Varðandi endurkröfu ofgreiddra bóta vegna ársins 2005 segir að ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2006 vegna tekjuársins 2005 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda og maka hennar á árinu hafi reynst hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Þá er því haldið fram að kærufrestur hafi verið liðinn varðandi þennan lið kærunnar þegar kæran barst úrskurðarnefnd almannatrygginga og því skuli vísa honum frá nefndinni.

Varðandi endurkröfu ofgreiddra bóta vegna ársins 2006 segir í greinargerð Tryggingastofnunar að ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri sé sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2007 vegna tekjuársins 2006 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda og maka hennar reyndust hærri en tekjuáætlun kæranda gerði ráð fyrir vegna ársins 2006. Munaði þar einkum um lífeyrissjóðstekjur kæranda sem ekki hafði verið gert ráð fyrir í tekjuáætluninni. Þá segir í greinargerðinni að Tryggingastofnun kannist ekki við þá tilkynningu sem kærandi kveðst hafa gefið fulltrúa stofnunarinnar símleiðis og að engin gögn hafi fundist sem styðji hana. Langt sé umliðið frá því umrætt símtal hafi átt að eiga sér stað og hafi það átt sér stað sé erfitt fyrir stofnunina að vita hvað fór á milli viðkomandi einstaklinga og hvernig þeir hafi skilið samræðurnar. Þá hafi kærandi haft ítrekuð tækifæri til að leiðrétta meint mistök stofnunarinnar.

Greiðslur Tryggingastofnunar til kæranda á árunum 2005 og 2006 fóru fram á grundvelli þágildandi laga um almannatryggingar nr. 117/1993, með síðari breytingum. Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993, sbr. lög nr. 74/2002, segir að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni. Sams konar ákvæði er nú í 7. mgr. 16. gr. endurútgefinna almannatryggingalaga nr. 100/2007. Við endurreikning á lífeyrisgreiðslum Tryggingastofnunar til kæranda árin 2005 og 2006 var byggt á þeim reiknireglum sem í gildi voru þau ár og því þykir rétt í þessu sambandi að vísa til ákvæða almannatryggingalaga nr. 117/1993, með síðari breytingum, í úrskurði þessum.

Samkvæmt 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega, og eftir atvikum maka, skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur viðkomandi, og eftir atvikum maka hans, hjá skattyfirvöldum o.fl., svo fremi að samþykki þeirra, liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.

Í 2. mgr. 10. gr. almannatryggingalaganna er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning og er vísað til ákvæða laga um tekjuskatt í því sambandi.

Í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Þar segir enn fremur, eins og að framan greinir, að þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir, við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum, skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni. Komi í ljós að tekjutengdar bætur hafi verið ofgreiddar skuli innheimta þær samkvæmt 50. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 50. gr. almannatryggingalaga er meginreglan sú, hafi Tryggingastofnun ofgreitt bótaþega bætur samkvæmt lögunum, að stofnunin skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar kann að öðlast rétt til. Einnig á Tryggingastofnun endurkröfurétt á hendur bótaþega samkvæmt almennum reglum.

Eins og að framan greinir varðar hluti þeirrar fjárhæðar sem Tryggingastofnun hefur óskað endurgreiðslu á frá kæranda ofgreiddar bætur til hennar árið 2005, eða 186.033 kr. Ákvörðun um innheimtu þessarar fjárhæðar byggir á endurreikningi stofnunarinnar sem kynntur var kæranda með bréfi, dags. 27. október 2006.

Í 1. mgr. 7. gr. a almannatryggingar nr. 117/1993, sbr. lög nr. 60/1999, er kveðið á um að kæra til úrskurðarnefndar almannatrygginga skuli vera skrifleg og hún borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun. Samhljóða ákvæði er nú í 1. mgr. 8. gr. almanntryggingalaga nr. 100/2007. Ákvæði þessi eru í samræmi við ákvæði 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 sem hefur að geyma þá almennu reglu að kæra skuli borin fram innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um stjórnvaldsákvörðun.

Í 28. gr. stjórnsýslulaganna er kveðið á um hvernig fara skuli með kæru sem berst að liðnum kærufresti. Þar segir:

„Hafi kæra borist að liðnum kærufresti skal vísa henni frá, nema:

1. afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr, eða

2. veigamiklar ástæður mæla með því að kæran verði tekin til meðferðar.

Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.“

Kæra sú sem hér er til úrlausnar barst fyrst heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu 3. desember 2007, en þá var liðið meira en ár frá því að kæranda var kynntur endurreikningur Tryggingastofnunar ríkisins vegna bótaársins 2005 sem bar með sér að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur á því ári og sem er grundvöllur þeirrar ákvörðunar Tryggingastofnunar að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur á árinu 2005.

Á grundvelli framangreindra lagaákvæða um kærufrest tekur úrskurðarnefnd almannatrygginga ekki til efnislegrar meðferðar endurreikning Tryggingastofnunar á bótagreiðslum til kæranda árið 2005.

Hins vegar telur úrskurðarnefndin sér fært að taka afstöðu til þess hvort þær bætur sem Tryggingastofnun reiknaði að kæranda hefðu verið ofgreiddar árið 2005 skuli innheimtar hjá kæranda, sbr. bréf stofnunarinnar 22. nóvember 2007, sem er hin kærða ákvörðun og verður nánar vikið að þeim þætti málsins síðar.

Hluti þeirrar fjárhæðar sem Tryggingastofnun hefur óskað endurgreiðslu á frá kæranda varðar ofgreiddar bætur til hennar árið 2006, eða 256.921 kr. Ákvörðun um innheimtu þessarar fjárhæðar byggir á endurreikningi stofnunarinnar sem kynntur var kæranda með bréfi, dags. 8. október 2007.

Við samtímaútreikning vegna greiðslu bóta ársins 2006 var lagt til grundvallar að kærandi hefði launatekjur að fjárhæð 265.860 kr. og engar tekjur úr lífeyrissjóði. Þá var lagt til grundvallar að tekjur maka kæranda væru 4.154.064 kr. og fjármagnstekjur þeirra 17.136 kr. Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna ársins 2006 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti ársins 2006 hjá Tryggingastofnun í samræmi við ákvæði 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt upplýsingum er Tryggingastofnun fékk frá skattyfirvöldum hafði kærandi á árinu 2006 launatekjur að fjárhæð 348.307 og tekjur frá lífeyrissjóði að fjárhæð 781.843. Þá hafði maki hennar tekjur á árinu 2006 að fjárhæð 4.370.428 kr. en fjármagnstekjur voru engar.

Samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar, byggðum á framangreindum upplýsingum, var það niðurstaða stofnunarinnar að kæranda hefði verið ofgreidd tekjutrygging að fjárhæð 318.264 kr. á árinu 2006 og orlofs- og desemberuppbætur að fjárhæð 13.261 kr. Hefur stofnunin farið fram á endurgreiðslu þessara fjárhæða.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar vegna ársins 2006 og er það niðurstaða nefndarinnar að endurreikningurinn hafi verið framkvæmdur á réttan hátt og gerir nefndin ekki athugasemdir við niðurstöðu hans.

Eins og að framan greinir er í 5. mgr. 10. gr. almannatryggingalaga, nr. 117/1993, kveðið á um þá meginreglu að innheimta skuli ofgreiddar bætur.

Í 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun ríkisins er að finna heimild til undanþágu frá endurkröfu en þar segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Kærandi byggir kröfu sína um niðurfellingu endurkröfu ofgreiddra bóta árin 2005 og 2006 á því að ofgreiðslan hafi átt sér stað vegna mistaka starfsmanns Tryggingastofnunar sem tekið hafi niður upplýsingar eftir henni símleiðis um lífeyrissjóðstekjur hennar en síðan hafi ekki verið reiknað með þessum lífeyrissjóðstekjum í tekjuáætlun hennar. Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að hafi símtal það sem kærandi vísar til átt sér stað þá sé langt um liðið frá því það átti sér stað og erfitt sé fyrir stofnunina að vita hvað fór á milli viðkomandi einstaklinga og hvernig þeir hafi skilið samræðurnar. Þá bendir Tryggingastofnun á að kærandi hafi fengi ítrekuð tækifæri til að leiðrétta meint mistök stofnunarinnar. Þannig hafi kærandi fengið sendar mánaðarlega gildandi tekjuáætlanir, kæranda hafi verið sendar tekjuáætlanir til staðfestingar árlega og henni hafi fyrst verið tilkynnt um ofgreiðslu í október 2006.

Á grundvelli þeirrar skyldu sem lögð er á bótaþega í framangreindu ákvæði 2. mgr. 47. gr. almannatryggingalaga nr. 117/1993 um að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta, svo og endurskoðun þeirra, telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að á kæranda hafi hvílt sú skylda að sýna grandsemi og fylgjast með þeim greiðslum sem hún fékk frá Tryggingastofnun. Skal í því sambandi m.a. haft í huga að kærandi mun hafa fengið sendar mánaðarlega gildandi tekjuáætlanir og verið sendar tekjuáætlanir til staðfestingar árlega. Telur úrskurðarnefndin því að kæranda hafi mátt vera ljóst þegar hún tók við mánaðarlegum lífeyrisgreiðslum frá Tryggingastofnun árin 2005 og 2006 að greiðslur byggðust ekki á réttri tekjuáætlun og væru þar af leiðandi of háar. Þá telur úrskurðarnefndin jafnframt að á kæranda hafi hvílt sú skylda að gera Tryggingastofnun viðvart um að lífeyrisgreiðslur til hennar á árunum 2005 og 2006 væru of háar. Þá skal jafnframt haft í huga að hvorki er hægt að fullyrði hvað kæranda og starfsmanni Tryggingastofnunar ríkisins fór á milli á þeim tíma sem kærandi upphaflega gerði grein fyrir tekjum sínum né á hvern hátt samskipti þeirra kunni að hafa verið túlkuð af þeirra hálfu.

Með vísan til framangreinds telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að ekki séu fyrir hendi skilyrði til að fella niður endurkröfu Tryggingastofnunar ríkisins á hendur kæranda vegna ofgreiddra bóta árin 2005 og 2006. Því er staðfest sú ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins að endurkrefja kæranda um ofgreiddar bætur er henni voru greiddar árin 2005 og 2006.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja A, um ofgreiddar bætur áranna 2005 og 2006.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta