Hoppa yfir valmynd
17. desember 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Úrskurður nr. 223/2008

Miðvikudaginn 17. desember 2008

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Friðjón Örn Friðjónsson, hrl., Guðmundur Sigurðsson, læknir og Þuríður Árnadóttir, lögfræðingur.

Með bréfi, dags. 11. ágúst 2008, kærir A, til úrskurðarnefndar almannatrygginga, endurreikning og uppgjör bótagreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins til hans árið 2007.

Málavextir eru þeir samkvæmt málsgögnum að Tryggingastofnun ríkisins sendi kæranda bréf, dags. 30. júlí 2008, varðandi endurreikning og uppgjör bótagreiðslna árið 2007, þar sem segir að kæranda hafi verið ofgreiddar bætur árið 2007 að fjárhæð 73.910 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Óskað er endurskoðunar.

 

Í rökstuðningi fyrir kæru segir:

„Ég er alveg gáttaður á að þetta sé hægt. Þetta er 3 árið sem ég er skertur um bætur. Það hlítur að vera eitthvað að hjá ykkur. Ég er með berstrípaðar bætur og ekkert annað. Þið hafið aðgang að skattframtali mínu, svo það er ekki verið að fela neitt.

Svo stendur hér.

Á hjálögðum yfirlitum má sjá niðurstöðu endurreiknings ásamt þeim tekjum og öðrum forsendum sem liggja til grundvallar honum.

Og hverjar voru svo þessar aðrar forsendur. Þið verðið að færa rök fyrir þessum gerning.“

 

Úrskurðarnefndin óskaði með bréfi, dags. 14. ágúst 2008, eftir greinargerð Tryggingastofnunar. Barst nefndinni greinargerð, dags. 25. ágúst 2008, þar sem segir:

„Kærð er endurkrafa ofgreiddra bóta til A, en krafan myndaðist við endurreikning tekjutengdra bóta til kæranda vegna ársins 2007.

Í 16. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007, er kveðið á um tilhögun útreiknings tekjutengdra bóta. Í 2. mgr. er tilgreint hvað teljist til tekna við bótaútreikning. Samkvæmt 5. mgr. skal leggja 1/12 hluta af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar. Bótagreiðsluár er almanaksár. Þegar endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluársins liggja fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skal Tryggingastofnun ríkisins endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna skv. 16. gr. Komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafa verið vangreiddar eða ofgreiddar fer um það skv. 55. gr. laganna.

Í 55. gr. almannatryggingalaga segir að Tryggingastofnun skuli draga ofgreiddar bætur frá bótum sem bótaþegi síðar öðlast rétt til. Er þessi skylda nánar útfærð í ákvæðinu m.a. varðandi tilhögun frádráttar.

Ástæða þess að endurkrafa myndast í uppgjöri er sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2008 vegna tekjuársins 2007 hafði farið fram komu í ljós að tekjur kæranda á árinu 2007 reyndust hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Í nóvember 2006 var kæranda send vélræn tekjuáætlun vegna ársins 2007 og var kærandi hvattur til að gera breytingar á áætluninni ef hún væri ekki rétt og senda stofnuninni leiðréttu áætlunina til baka svo hægt væri að breyta þeim tekjuforsendum sem bætur voru reiknaðar út frá. Kærandi lagði fram breytingu á tekjuáætluninni í september 2007 og myndaðist þá krafa að upphæð 28.144 kr. Í vélrænu áætluninni var gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum hjá kæranda að fjárhæð 640.812 kr. Maki kæranda var skráður með iðgjöld 140.028 kr. og laun 2.000.568 kr. Í breyttu áætluninni hækkuðu lífeyrissjóðstekjur kæranda í 670.260 kr og lífeyrissjóðstekjur maka í 180.000 kr. Einnig hækkuðu laun maka í 2.073.789 kr. en iðgjöldin breyttust óverulega. Þegar fyrirliggjandi tekjuupplýsingar voru keyrðar saman við skattframtal vegna ársins 2007 kom í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda reyndust að lokum vera 675.530 kr. Breytingar þær sem voru hjá maka kæranda voru að greiðslur úr lífeyrissjóði reyndust að lokum vera 508.234 kr., laun voru 2.189.747 kr. og iðgjöld voru 87.585 kr. Vextir hjá hvoru hjóna voru 3.577 kr. Ofgreiðslur til kæranda námu því 73.910 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta, eins og sjá má á bréfi Tryggingastofnunar dags. 30. júlí 2007.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Að sama skapi er bótaþega skylt að tilkynna Tryggingastofnun um breytingar á tekjum eða öðrum aðstæðum sem geta haft áhrif á greiðslur. Í framangreindu ákvæði felst rík skylda lífeyrisþega að vera vakandi fyrir því að tekjuforsendur bótaútreiknings séu réttar á hverjum tíma og gera viðvart ef svo er ekki. Aftur á móti er einungis um heimild hjá Tryggingastofnun að ræða til að afla tekjuupplýsinga. Slík heimild verður þess ekki valdandi að firra lífeyrisþega ábyrgð á upplýsingagjöf sinni samkvæmt ákvæðinu.

Á umsóknareyðublaði um bætur, svo og á eyðublöðum fyrir tekjuyfirlýsingar, er texti sem umsækjendur og lífeyrisþegar undirrita, þar sem þeir ábyrgjast að láta Tryggingastofnun vita ef breytingar verða á tekjum þeirra. Einnig er þetta áréttað í fylgibréfi með vélrænni tekjuáætlun í lok hvers árs. Til að auðvelda lífeyrisþegum að fylgjast með bótaútreikningi og meta hvort tilkynna þurfi breytingar hóf Tryggingastofnun í apríl 2004 að prenta gildandi tekjuáætlanir á bakhlið útsendra mánaðarlegra greiðslutilkynning. Eftir það hefði kærandi mátt sjá að þær tekjuforsendur sem stofnunin lagði til grundvallar voru ekki alfarið réttar.

Í kærunni fer kærandi fram á að vita hvaða forsendur væri verið að nefna í uppgjörsbréfinu en þær eru m.a. tekjur, bótaréttur, hjúskaparstaða og tekjusamþykki maka.

Með vísun til ofanritaðs telur Tryggingastofnun ekki forsendur til að breyta fyrri ákvörðun sinni um innheimtu ofgreiddra bóta til kæranda.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 29. ágúst 2008 og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum og/eða viðbótargögnum. Engar athugasemdir eða viðbótargögn hafa borist frá kæranda.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndar:

Mál þetta varðar endurreikning og uppgjör bótagreiðslna Tryggingastofnunar ríkisins til kæranda árið 2007, sem fól í sér að kæranda hefðu verið ofgreiddar bætur að fjárhæð 73.910 að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta

Felur kæran í sér beiðni um endurskoðun á framangreindum endurreikningi og bótauppgjöri.

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að ástæða þess að endurkrafa hafi myndast í uppgjöri ársins 2007 hafi verið sú að þegar samkeyrsla við tekjuupplýsingar af skattframtali 2008 vegna tekjuársins 2007 hafi farið fram hafi komið í ljós að tekjur kæranda á árinu 2007 hafi reynst hærri en tekjuáætlun gerði ráð fyrir. Í nóvember 2006 hafi kæranda verið send vélræn tekjuáætlun vegna ársins 2007 og kærandi verið hvattur til að gera breytingar á áætluninni væri hún ekki rétt og senda stofnuninni leiðrétta áætlun til baka svo hægt væri að breyta þeim tekjuforsendum sem bætur væru reiknaðar út frá. Kærandi hafi lagt fram breytingu á tekjuáætluninni í september 2007 og þá myndast krafa að fjárhæð 28.144 kr. Í vélrænu áætluninni hafi verið gert ráð fyrir lífeyrissjóðstekjum hjá kæranda að fjárhæð 640.812 kr. Maki kæranda hafi verið skráður með iðgjöld 140.028 kr. og laun 2.000.568 kr. Í breyttu áætluninni hafi lífeyrissjóðstekjur kæranda verið hækkaðar í 670.260 kr. og lífeyrissjóðstekjur maka í 180.000 kr. Einnig hafi laun maka verið hækkuð í 2.073.789 kr. en iðgjöldin breyst óverulega. Þegar fyrirliggjandi tekjuupplýsingar hafi verið keyrðar saman við skattframtal vegna ársins 2007 hafi komið í ljós að lífeyrissjóðstekjur kæranda reyndust vera 675.530 kr., greiðslur úr lífeyrissjóði til maka kæranda reyndust vera 508.234 kr., laun makans 2.189.747 kr. og iðgjöld 87.585 kr. Vextir hjá hvoru hjóna hafi verið 3.577 kr. Ofgreiðslur til kæranda hafi því numið 73.910 kr. að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

Kæranda var greiddur örorkulífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins fyrstu sex mánuði ársins 2007, síðari sex mánuði ársins var honum greiddur ellilífeyrir. Auk þess fékk kæranda greiddar lífeyrisgreiðslur á árinu 2007 í formi tekjutryggingar, samanburðar við reglur 2006 og aldurstengdrar örorkuuppbótar, auk orlofs- og desemberuppbóta.

Örorkulífeyrir, ellilífeyrir og tekjutrygging eru tekjutengdar bætur, sbr. 5. mgr. 18. gr., 2. mgr. 17. gr. og 2. og 3. mgr. 22. gr. almannatryggingalaga nr. 100/2007, en í 16. gr. laganna er mælt fyrir um hvað teljist til tekna við bótaútreikning.

Í lögum um almannatryggingar er að finna ákvæði til bráðabirgða þar sem segir í 8. tl. að á tímabilinu 1. janúar 2007 til og með 31. desember 2008 sé hægt að óska eftir því hjá Tryggingastofnun ríkisins að gerður verði samanburður á útreikningi elli- og örorkulífeyris og tekjutryggingar fyrir og eftir gildistöku laganna. Leiði samanburðurinn til hærri bóta samkvæmt eldri lögum skuli stofnunin greiða hærri bætur á því tímabili.

Samkvæmt 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga er umsækjanda og bótaþega, og eftir atvikum maka, skylt að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta og endurskoðun þeirra. Tryggingastofnun ríkisins er heimilt að afla upplýsinga um tekjur viðkomandi, og eftir atvikum maka hans, hjá skattyfirvöldum o.fl., svo fremi að samþykki þeirra liggi fyrir. Eingöngu er þó um að ræða heimild stofnunarinnar en útreikningur bóta grundvallast almennt á upplýsingum frá bótaþegum sem þeim ber skylda samkvæmt lögunum að veita.

Í 5. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga er mælt fyrir um að til grundvallar bótaútreikningi hvers mánaðar skuli leggja 1/12 af áætluðum tekjum bótagreiðsluársins og að bótagreiðsluár sé almanaksár. Í 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga segir að eftir að endanlegar upplýsingar um tekjur bótagreiðsluárs liggi fyrir við álagningu skattyfirvalda á opinberum gjöldum skuli Tryggingastofnun endurreikna bótafjárhæðir á grundvelli tekna samkvæmt greininni.

Þegar álagning skattyfirvalda á opinberum gjöldum vegna tekjuársins 2007 lá fyrir fór fram endurreikningur á bótarétti kæranda árið 2007 hjá Tryggingastofnun í samræmi við framangreint ákvæði 7. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga. Samkvæmt framlögðum yfirlitum yfir endurreikning lífeyrisgreiðslna Tryggingastofnunar til kæranda á árinu 2007 var munur á þeirri tekjuáætlun sem lögð var til grundvallar við samtímaútreikninga á greiðslu bóta til hans á árinu 2007 og þeim tekjum sem taldar voru fram á skattframtali hans og maka hans 2008 vegna tekjuársins 2007. Byggðist endurreikningurinn á því að samkvæmt upplýsingum frá skattstjóra hefðu lífeyrissjóðstekjur kæranda árið 2007 numið 675.530 kr., launatekjur maka kæranda 2.189.747 kr. og lífeyrissjóðstekjur makans 508.234 kr. Enn fremur á því að iðgjöld maka kæranda í lífeyrissjóð hefðu numið 87.585 kr. og að fjármagnstekjur þeirra hjóna numið 7.154 kr.

Samkvæmt endurreikningi Tryggingastofnunar var það niðurstaða stofnunarinnar að kæranda hefði verið ofgreidd tekjutrygging, orlofs- og desemberuppbætur, svo á bætur á grundvelli samanburðar við reglur 2006. Samtals væri um að ræða ofgreiðslur að fjárhæð 73.910 kr. að teknu tilliti til áður afdreginnar staðgreiðslu.

Úrskurðarnefnd almannatrygginga hefur yfirfarið endurreikning Tryggingastofnunar og er það niðurstaða nefndarinnar að endurreikningurinn hafi verið framkvæmdur á réttan hátt og gerir nefndin ekki athugasemdir við niðurstöðu hans.

Í 8. mgr. 16. gr. almannatryggingalaga segir að komi í ljós við endurreikning bóta að bætur hafi verið vangreiddar eða ofgreiddar fari um það samkvæmt 55. gr. laganna, þar sem kveðið er á um að Tryggingastofnun skuli endurkrefja bótaþega um ofgreiddar bætur. Í 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, um útreikning, endurreikning og uppgjör tekjutengdra bóta og vistunarframlags frá Tryggingastofnun, er hins vegar að finna heimildir til undanþágu frá endurkröfu. Þar segir:

„Þrátt fyrir að endurreikningur samkvæmt III. kafla leiði í ljós að bætur hafi verið ofgreiddar er heimilt að falla frá endurkröfu að fullu eða að hluta ef alveg sérstakar aðstæður eru fyrir hendi. Skal þá einkum litið til fjárhagslegra og félagslegra aðstæðna bótaþega og þess hvort hann var í góðri trú um greiðslurétt sinn.“

Á grundvelli þeirrar skyldu sem lögð er á bótaþega í framangreindu ákvæði 2. mgr. 52. gr. almannatryggingalaga um að veita Tryggingastofnun allar nauðsynlegar upplýsingar til þess að hægt sé að taka ákvörðun um bótarétt, fjárhæð og greiðslu bóta, svo og endurskoðun þeirra, telur úrskurðarnefnd almannatrygginga að á kæranda hafi hvílt sú skylda að sýna grandsemi og fylgjast með að greiðslur þær sem hann fékk frá Tryggingastofnun byggðust á réttum forsendum og leiðrétta þær ef tilefni væri til. Þegar til þessa er litið og enn fremur þess að tekjur kæranda og maka hans reyndust hærri en tekjuáætlunin gerði ráð fyrir, einkum lífeyrissjóðstekjur makans, og að ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að hinar sérstöku aðstæður, sem kveðið er á um í framangreindri 12. gr. reglugerðar nr. 939/2003, eigi við í tilviki kæranda telur úrskurðarnefndin rétt að staðfesta ákvörðun Tryggingastofnunar um að innheimta hinar ofgreiddu bætur er kæranda voru greiddar árið 2007 að fjárhæð 73.910 kr., að teknu tilliti til staðgreiðslu skatta.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Staðfest er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að endurkrefja A um 73.910 kr. vegna ofgreiddra bóta árið 2007.

 

 

F.h. úrskurðarnefndar almannatrygginga

Friðjón Örn Friðjónsson,

formaður



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta