Hoppa yfir valmynd
30. apríl 2009 Dómsmálaráðuneytið

Mannanafnanefnd, úrskurðir 30. apríl 2009

FUNDARGERÐ

Ár 2009, fimmtudaginn 30. apríl, var haldinn símafundur í mannanafnanefnd. Viðstödd voru Kolbrún Linda Ísleifsdóttir, Ágústa Þorbergsdóttir og Veturliði G. Óskarsson. Neðangreind mál voru tekin fyrir:

 

 

1.         Mál nr. 29/2009          Eiginnafn:        Gael  (kk.)

  

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Mál þetta, sem móttekið var 6. apríl 2009, var tekið fyrir á fundum mannanafnanefndar 8. og 14. apríl sl. en afgreiðslu þess þá frestað til frekari skoðunar og gagnaöflunar.

 

Eiginnafnið Gael (kk.) tekur beygingu í eignarfalli, Gaels, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

 

Mannanafnanefnd telur rétt að benda umsækjendum á að kyn eiginnafnsins Gael er óljóst þar sem nafnið finnst bæði sem kvenmannsnafn og sem karlmannsnafn í erlendum gagnasöfnum og er þar mun algengara sem kven-mannsnafn. Einnig skal bent á að á mannanafnaskrá er aðeins eitt eiginnafn sem endar á –gael og er það kven-mannsnafnið Abigael.

 

Mannanafnanefnd telur þó ekki rétt að hafna nafninu formlega á þeim forsendum heldur treystir hún dómgreind forráðamanna barnsins til að velja því nafn sem það getur borið kinnroðalaust og án vandkvæða. Þetta er gert í anda laga nr. 45/1996 um mannanöfn og með vísun til athugasemda með lagafrumvarpinu á sínum tíma, sem einkennist af fullu trausti á smekkvísi og dómgreind almennings.

 

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Gael  (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsendingu þess, Gaels, en þó ekki fyrr en skráning þess hefur verið framkvæmd hjá Þjóðskrá.

 

 

 

2.         Mál nr. 33/2009          Eiginnafn:        Reyn  (kvk.)

 

Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:

 

Eiginnafnið Reyn (kvk.) tekur beygingu í eignarfalli, Reynar, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.

Úrskurðarorð:

Beiðni um eiginnafnið Reyn  (kvk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá ásamt eignarfallsendingu þess, Reynar.

 

  

- - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - - -

Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta