Mannanafnanefnd, úrskurðir 16. maí 2009
FUNDARGERÐ
Ár 2009, laugardaginn 16. maí, var haldinn símafundur í mannanafnanefnd. Viðstödd voru Ágústa Þorbergsdóttir, Kolbrún Linda Ísleifsdóttir og Veturliði G. Óskarsson. Neðangreind mál voru tekin fyrir:
1. Mál nr. 20/2009 Eiginnafn: Emerald (kk.) - Beiðni um endurupptöku
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Mannanafnanefnd tók til úrskurðar beiðni um eiginnafnið Emerald (kk.) á fundi sínum föstudaginn 27. febrúar sl. þar sem beiðninni var hafnað. Í þeim úrskurði segir m.a.:
Nafnið Emerald er þekkt sem kvenmannsnafn víða um heim, sbr. The Oxford Dictionary of English Christian Names eftir E.G. Withycombe og vefsíðuna Behind the Name, http://www.behindthename.com/name/emerald.
Nafnið Emerald sem karlmannsnafn brýtur þannig í bág við 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um að stúlku skuli gefa kvenmannsnafn og dreng skuli gefa karlmannsnafn. Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er enginn karl skráður með eiginnafnið Emerald sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna. Því telst ekki vera hefð fyrir nafninu Emerald sem karlmannsnafni enda heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja sama nafn sem kven-mannsnafn og karlmannsnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar. Eiginnafnið Emerald (kk.) uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.
Nafnið var tekið upp á ný að beiðni umsækjenda og leitað nánar að rökum sem gætu stutt það að nafnið yrði samþykkt sem karlmannsnafn. Rök frá fyrra fundi þykir nefndinni að vísu enn vera sterk en þegar til þess er litið að mörg dæmi eru um tökunöfn sem enda á -ald og eru karlkyns svo og að allmörg dæmi eru um karlkynsnöfn sem eru án nefnifallsendingar þykir nefndinni ljóst að nafnmynd á borð við Emerald (nf.) gæti staðist formlega samkvæmt lögum um mannanöfn og vinnureglum mannanafnanefndar. Nefndin telur því rétt að samþykkja nafnið Emerald en vill þó minna á rök frá fundi 27. febrúar þar sem bent er á að utan Íslands sé Emerald þekktara sem nafn kvenna en karla og gæti slíkt orðið nafnbera óþægilegt erlendis þó að líkurnar á því að slíkt gerist í íslensku málumhverfi séu of litlar til þess að svokallað amaákvæði eigi hér við.
Þess skal getið að mannanafnanefnd tók ex officio fyrir og samþykkti eiginnafnið Emeralda (kvk.) á fundi 14. maí sl.
Eiginnafnið Emerald (kk.) tekur beygingu í eignarfalli, Emeralds, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Emerald (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
2. Mál nr. 42/2009 Eiginnafn: Marel (kvk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
1. Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
2. Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
3. Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Eiginnafnið Marel er og hefur verið skráð sem karlmannsnafn (eiginnafn kk.) á mannanafnaskrá frá upphafi. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 er því óheimilt að nafnið sé tekið upp sem kvenmannsnafn (eiginnafn kvk.). Hefðarreglur mannanafnalaga eiga heldur ekki við þar sem ekki er heimilt að samþykkja sama nafn sem eiginnafn kk. og eiginnafn kvk. á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar. Vegna mistaka hefur þó nafnið Marel verið samþykkt inn á mannanafnaskrá sem eiginnafn kvk. þrátt fyrir að það uppfylli ekki fyrrgreind ákvæði 2. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá eru 86 einstaklingar skráðir með eiginnafnið Marel í Þjóðskrá og eru 85 þeirra karlar en aðeins 1 kona. Með vísan til 2. mgr. 5. gr. mannanafnalaga nr. 45/1996 skal fjarlægja eiginnafnið Marel (kvk.) út af mannanafnaskrá.
Úrskurðarorð:
Eiginnafnið Marel (kvk.) skal tekið út af mannanafnaskrá.
5. Mál nr. 45/2009 Eiginnafn: Sturri (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Eiginnafnið Sturri (kk.) tekur beygingu í eignarfalli, Sturra, og telst að öðru leyti uppfylla ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið Sturri (kk.) er samþykkt og skal nafnið fært á mannanafnaskrá.
6. Mál nr. 46/2009 Eiginnafn: Byrnir (kk.)
Kveðinn er upp svohljóðandi úrskurður:
Öll skilyrði 1., 2. og 3. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn þurfa að vera uppfyllt svo að mögulegt sé að samþykkja nýtt eiginnafn og færa það á mannanafnaskrá. Skilyrðin eru þessi:
· Eiginnafn skal geta tekið íslenska eignarfallsendingu eða hafa unnið sér hefð í íslensku máli. Nafnið má ekki brjóta í bág við íslenskt málkerfi. Það skal ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls nema hefð sé fyrir öðrum rithætti þess. (Með almennum ritreglum íslensks máls er vísað til auglýsinga nr. 132/1974 og 261/1977 um íslenska stafsetningu).
· Stúlku skal gefa kvenmannsnafn og dreng skal gefa karlmannsnafn.
· Eiginnafn má ekki vera þannig að það geti orðið nafnbera til ama.
Þegar svo háttar að eiginnafn uppfyllir ekki þau skilyrði, sem tilgreind eru í 1. og 3. málslið 1. mgr. 5. gr. laga nr. 45/1996 um mannanöfn, þ.e. tekur ekki íslenska eignarfallsendingu og/eða telst ekki ritað í samræmi við almennar ritreglur íslensks máls, er unnt að samþykkja nafnið á mannanafnaskrá ef það telst hafa áunnið sér hefð. Hins vegar heimila mannanafnalög ekki að unnt sé að samþykkja nýtt eiginnafn á mannanafnaskrá á grundvelli hefðar ef það brýtur í bág við önnur ákvæði 5. gr. laganna, þ.e. 2. málslið 1. mgr., 2. mgr. og 3. mgr. 5. gr.
Hugtakið hefð í mannanafnalögum varðar einkum erlend nöfn frá síðari öldum sem ekki hafa aðlagast ritreglum íslensks máls. Þau eru stundum nefnd ung tökunöfn og koma fyrst fram í íslensku máli árið 1703 þegar manntal á Íslandi var tekið fyrsta sinni. Túlkun mannanafnanefndar á hugtakinu hefð í 5. og 6. gr. laga nr. 45/1996 styðst við eftirfarandi vinnulagsreglur sem nefndin setti sér á fundi 14. nóvember 2006 og sem eru byggðar á greinargerð með frumvarpi að mannanafnalögum og eldri vinnulagsreglum:
1. Ungt tökunafn telst hafa unnið sér hefð í íslensku máli ef það fullnægir einhverju eftirfarandi skilyrða:
a. Það er nú borið af a.m.k. 15 Íslendingum;
b. Það er nú borið af 10–14 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 30 ára aldri;
c. Það er nú borið af 5–9 Íslendingum og hinn elsti þeirra hefur náð a.m.k. 60 ára aldri;
d. Það er nú borið af 1–4 Íslendingum og kemur þegar fyrir í manntalinu 1910;
e. Það er ekki borið af neinum Íslendingi nú en kemur a.m.k. fyrir í tveimur manntölum frá 1703–1910.
2. Með Íslendingum er átt við þá sem öðlast hafa íslenskan ríkisborgararétt án umsóknar og eiga eða hafa
átt lögheimili á Íslandi.
3. Tökunafn getur verið hefðað þó að það komi ekki fyrir í manntölum ef það hefur unnið sér menningar-helgi. Nafn telst hafa unnið sér menningarhelgi komi það fyrir í alkunnum ritum, frumsömdum eða þýddum, í nafnmynd sem ekki brýtur í bág við íslenskt málkerfi.
Rittáknið y er ekki ritað í íslenskum orðum nema það styðjist við uppruna. Upphaflega táknaði y í íslensku hljóð sem var svipað y í dönsku og varð til við viss skilyrði. Það á ekki við um það nafn sem hér er sótt um. Í uppruna þess orðs er ekkert sem styður ritháttinn Byrnir. Finna má mörg dæmi frá fyrri tíð þar sem rittáknunum y og i er víxlað enda var almenn kunnátta í stafsetningu lítil og þau borin eins fram frá 15. og 16. öld.
Hvað varðar nöfnin Ingvi–Yngvi og Ingvar–Yngvar er þar um að ræða ævaforna hljóðbreytingu þar sem v-ið hefur áhrif á i framar í orðinu og kringir það. Af sama toga er t.d. y í syngja í íslensku (eldra *singv-), sbr. ensku sing þar sem þessi hljóðbreyting hefur ekki orðið. Nafnið Byrnir er ekki sambærilegt, þar hefur ekki verið v sem hefur haft þessi áhrif.
Eiginnafnið Byrnir (kk.) getur því ekki talist ritað í samræmi við ritreglur íslensks máls.
Samkvæmt gögnum Þjóðskrár er enginn karl skráður með eiginnafnið Byrnir, sem uppfyllir skilyrði ofangreindra vinnulagsreglna. Eiginnafnið Byrnir (kk.) uppfyllir þar af leiðandi ekki öll ákvæði 5. gr. laga nr. 45/1996 og því er ekki mögulegt að fallast á það.
Úrskurðarorð:
Beiðni um eiginnafnið og ritháttinn Byrnir (kk.) er hafnað.
---------------------------------------------
Fleira var ekki tekið fyrir og fundi slitið.