Viðmið um skipulag stærri heilsugæslustöðva
Heilbrigðisráðuneytið birtir hér með viðmið um skipulag stærri heilsugæslustöðva, húsnæði þeirra og starfsemi. Viðmiðin verða lögð til grundvallar við frumathuganir og húsrýmisáætlanir þessara stofnana. Viðmiðin taka til heilsugæslustöðva sem þjóna 10.000 manns eða fleirum en geta einnig verið gagnleg til hliðsjónar þótt um minni heilsugæslustöðvar sé að ræða.
Í meðfylgjandi skýrslu sem birtir viðmiðin er í fyrsta lagi fjallað um grundvöll þjónustu heilsugæslustöðva og hugmyndafræðina að baki henni, kröfur varðandi stærð og innra skipulag og forsendur sem leggja skal til grundvallar þegar ákvörðun er tekin um stærð húsnæðis heilsugæslustöðva.
Heilsugæslustöðvar sinna fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu og eftir atvikum annars stigs heilbrigðisþjónustu. Heilsugæslan á að vera fyrsti viðkomustaður fólks í heilbrigðiskerfinu þar sem notendur eiga meðal annars kost á almennum lækningum, hjúkrun, endurhæfingu, heilsuvernd og forvörnum, sálfræðiþjónustu, geðvernd og mæðra- og ungbarnavernd. Þar er einnig veitt bráða- og slysamóttaka. Þjónusta heilsugæslustöðva er skilgreind nánar í 17. gr. reglugerðar nr. 111/2020.
Hugmyndafræði skipulags
Kjarninn í hugmyndafræði við skipulag húsnæðis fyrir heilsugæslu tekur mið af því að hægt sé að skipuleggja þjónustuna þannig að hún mæti sem best þörfum notenda. Í viðmiðunum kemur m.a. fram að stærð og skipulag heilsugæslustöðva skuli taka mið af fjölda íbúa á viðkomandi þjónustusvæði, þjónustunni sem veitt er á viðkomandi stöð, auk möguleika til breytinga á þjónustu og þróun hennar. Skipulag húsnæðis skal vera með þeim hætti að þjónusta við notendur og rekstur stöðvarinnar verði skilvirkur og að það henti vel fyrir teymisvinnu starfsmanna. Einnig skal taka mið af mögulegum tækninýungum sem bætt geta þjónustuna og aðgengi að henni.
Þegar gerð er þarfagreining fyrir heilsugæslustöð er gerð grein fyrir fjölda starfsmanna / stöðugilda og fjölþættri nýtingu rýma, s.s. að hægt sé að opna á milli fundarsalar og matsalar og nýta þannig rýmið til fræðslustarfsemi, námskeiða og þverfaglegs samstarfs. Þá geta starfsmenn einnig í sumum tilfellum samnýtt önnur rými eins og teymisrými og viðtalsherbergi. Þessa samnýtingu þarf að meta og skoða í hverju tilviki fyrir sig. Grundvallaratriði er að húsnæðið sé sveigjanlegt og geti nýst vel inn í framtíðina til að halda utan um síbreytilega þjónustu.