Hoppa yfir valmynd
4. júlí 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Móttaka hóps flóttafólks 2007

Ákveðið hefur verið að taka á móti hópi flóttafólks frá Kólumbíu á árinu 2007. Um er að ræða hóp kvenna sem skilgreindar eru Konur í áhættu (Women at Risk) samkvæmt mati Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) og börn þeirra. Konurnar hafa dvalið mislengi í Ekvador en þarlend stjórnvöld geta ekki tryggt öryggi þeirra til frambúðar. Alls er 30 manns boðið hæli hér á landi undir hatti þessa verkefnis á þessu ári. Fullorðnar konur eru tíu og börnin eru tuttugu. Ákvörðunin er eins og endranær tekin í samræmi við tillögur Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Sami háttur verður á móttökunni og árið 2005 en þá var tekið á móti 24 einstaklingum frá Kólumbíu og einni sjö manna fjölskyldu frá fyrrum Júgóslavíu sem öll settust að í Reykjavík. Reykjavíkurborg hefur samþykkt að taka aftur á móti hópi en móttakan árið 2005 tókst vel. Félagsmálaráðuneytið semur bæði við Reykjavíkurborg og Rauða kross Íslands um aðstoð og þjónustu við fólkið fyrsta dvalarárið. Samið verður við borgina um að veita fólkinu meðal annars umtalsverða félagsþjónustu, húsnæði, aðstoð til barna í grunn- og leikskólum og tryggja fullorðnum námskeið í íslensku.

Félagsmálaráðuneytið hefur samið við Rauða kross Íslands um ýmsa aðstoð fyrir fólkið. Rauði kross Íslands heldur einnig utan um samskiptin við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og Reykjavíkurdeild Rauða krossins tekur meðal annars að sér útvegun og þjálfun stuðningsfjölskyldna fyrir hverja og eina flóttamannafjölskyldu og útvegun innbús á heimili fólksins.

Gert er ráð fyrir að fólkið komi til landsins í september næstkomandi.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta