Nr. 339/2019 - Úrskurður
KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA
Þann 11. júlí 2019 er kveðinn upp svohljóðandi
úrskurður nr. 339/2019
í stjórnsýslumáli nr. KNU19030027
Kæra […]
og barna hennar
á ákvörðunum
Útlendingastofnunar
I. Kröfur, kærufrestir og kæruheimild
Þann 12. mars 2019 kærði […], fd. […], ríkisborgari […] (hér eftir kærandi) ákvarðanir Útlendingastofnunar, dags. 8. mars 2019, um að taka ekki til efnismeðferðar umsóknir kæranda og barna hennar, […], fd. […], ríkisborgara […] (hér eftir A), og […], fd. […] (hér eftir B), um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa þeim frá landinu.Kærandi krefst þess að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að stofnuninni verði gert að taka umsókn hennar til efnislegrar meðferðar hér á landi með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016, auk 3. mgr. 36. gr., sbr. 42. gr. sömu laga.Fyrrgreindar ákvarðanir eru kærðar á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og bárust kærurnar fyrir lok kærufrests.
II. Málsmeðferð
Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 18. nóvember 2018 og f.h. barna sinna. Við meðferð málsins framvísaði kærandi ítölsku dvalarleyfisskírteini á grundvelli alþjóðlegrar verndar með gildistíma til 14. september 2020. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. þann 16. janúar 2019, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 8. mars 2019 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að henni og börnum hennar skyldi vísað frá landinu. Ákvarðanir stofnunarinnar í málum hennar og barna hennar voru birtar fyrir kæranda þann 12. mars 2019 og kærði kærandi ákvarðanirnar þann sama dag til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 21. mars 2019 ásamt fylgigögnum. Frekari gögn bárust frá kæranda dagana 1., 3., og 5. apríl 2019. Kærandi kom í viðtal hjá kærunefnd útlendingamála þann 6. júní 2019 ásamt talsmanni sínum og túlki og gerði grein fyrir máli sínu, sbr. 7. mgr. 8 .gr. laga um útlendinga. Viðbótargögn bárust þá frá kæranda þann 1. júlí 2019.
III. Ákvarðanir Útlendingastofnunar
Í ákvörðun Útlendingastofnunar kom fram að kæranda hefði verið veitt alþjóðleg vernd á Ítalíu. Umsókn hennar um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Ítalíu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá hefði kærandi ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hún fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður væru fyrir hendi þannig að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hún flutt til Ítalíu.Í ákvörðunum Útlendingastofnunar í málum barnanna A og B kom fram að það væri niðurstaða stofnunarinnar, með vísan til niðurstöðu í máli móður þeirra, að gættum ákvæðum samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013, laga um útlendinga og barnaverndarlaga nr. 80/2002, að hagsmunum þeirra væri best borgið með því að fylgja móður sinni til Ítalíu.
IV. Málsástæður og rök kæranda
Í greinargerð kæranda kemur fram að hún hafi yfirgefið heimaríki sitt eftir að uppreisn hafi hafist í landinu og kærandi hafi verið vitni að því þegar faðir hennar hafi verið skotinn. Hún hafi komið til Ítalíu árið 2010 og búið í flóttamannabúðum fyrstu mánuðina. Eftir það hafi hún verið heimilislaus um tíma og hafst við á lestarstöð. Hún hafi síðan deilt herbergi með konu sem hafi reynt að fá hana til að […]. […]. Kærandi hafi átt erfitt með að nálgast heilbrigðisþjónustu á Ítalíu þar sem hún hafi þurft að sýna fram á skráð heimilisfang. Þegar hún hafi verið barnshafandi hafi hún greitt manni gjald til að fá að nota heimilisfang hans svo að hún gæti fengið læknishjálp á síðustu mánuðum meðgöngunnar. Kærandi hafi ítrekað leitað til félagsmálayfirvalda á Ítalíu en fengið takmarkaða aðstoð. Aðstæður kæranda hafi batnað að einhverju leyti eftir að hún hafi kynnst barnsföður sínum, en hann hafi séð fyrir henni eftir að hún hafi orðið barnshafandi. Eftir að barnsfaðir hennar hafi farið frá henni hafi hún leitað til félagsmálayfirvalda á ný en einungis fengið þau skilaboð að hún hefði sex mánuði til þess að finna annað húsnæði, annars yrði barn hennar tekið af henni. Hún hafi því ákveðið að yfirgefa landið og koma til Íslands í von um að barnsfaðir hennar væri hér á landi. Hún hafi þá upplifað fordóma á Ítalíu, auk þess sem hún óttist hóp glæpamanna á Ítalíu sem barnsfaðir hennar hafi átt í deilum við.
Í greinargerð sinni gerir kærandi athugasemdir við ákvörðun Útlendingastofnunar, m.a. við mat stofnunarinnar á horfum kæranda og barna hennar á Ítalíu og tilvísun stofnunarinnar til bréfs (e. circular letter) frá ítölskum stjórnvöldum frá janúar 2019. Kærandi bendir m.a. á að um almenna einhliða yfirlýsingu ítalskra stjórnvalda sé að ræða sem breyti ekki gildi upplýsinga sem komi fram í alþjóðlegum skýrslum. Kærandi vekur þá athygli á nýlegri skýrslu um aðstæður einstaklinga sem teljist sérstaklega viðkvæmir og eru endursendir til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar. Skýrslan sýni að sérstaklega viðkvæmir umsækjendur um alþjóðlega vernd standi frammi fyrir raunverulegri hættu á því að verða fyrir ómannúðlegri eða vanvirðandi meðferð við endursendingu til Ítalíu. Kærandi áréttar að þrátt fyrir að skýrslan varði einstaklinga sem sendir séu til Ítalíu á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar dragi efni skýrslunnar verulega úr áreiðanleika ofangreinds bréfs ítalskra stjórnvalda. Telur kærandi að ljóst sé að þær aðstæður sem bíði hennar og barna hennar á Ítalíu séu afar slæmar. Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og fleiri samtök hafi vakið athygli á því að þúsundir umsækjenda um alþjóðlega vernd og flóttamanna lifi við erfiðar aðstæður á Ítalíu með takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu, grunnmenntun og annarri almannaþjónustu.
Kærandi gerir auk þess fyrirvara við lagastoð reglugerðar nr. 276/2018 um breytingu á reglugerð um útlendinga nr. 540/2017. Kærandi bendir m.a. á að þau atriði sem talin séu upp í dæmaskyni í 32. gr. a umræddrar reglugerðar komi ekki í stað heildarmats á einstaklingsbundnum aðstæðum umsækjanda hverju sinni. Áréttar kærandi að frásögn hennar og þær heimildir sem hún hafi vísað til sýni fram á að hún og dóttir hennar hafi átt afar erfitt uppdráttar og upplifað alvarlega mismunun á Ítalíu. Telur kærandi að staða hennar og barna hennar yrði verulega síðri en staða almennings á Ítalíu hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu, félagslegri þjónustu og vinnumarkaði. Kærandi vekur þá m.a. athygli á meginreglunni um einingu fjölskyldunnar í 3. mgr. 16. gr. mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, auk þess að vekja athygli á sérviðmiðum er varði börn og ungmenni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga. Þar komi m.a. fram að líta beri til þess hvort flutningur úr landi til viðtökulands hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast. Áréttar kærandi að hún eigi á hættu að verða svipt forsjá yfir börnum sínum. Kærandi leggur þá áherslu á að börn teljist til sérstaklega viðkvæms hóps umsækjenda um alþjóðlega vernd, hvort sem þau séu í fylgd umönnunaraðila eða ekki, og íslenskum stjórnvöldum sé skylt að hafa ávallt það sem barni sé fyrir bestu í forgangi þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess, sbr. 3. mgr. 76. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944, 2. mgr. 1. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 1. mgr. 3. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Telur kærandi að allt bendi til þess að á Ítalíu bíði þeirra heimilisleysi, takmarkað aðgengi að heilbrigðisþjónustu og afskiptaleysi stjórnvalda. Það sé því þeim fyrir bestu að íslensk stjórnvöld taki mál allrar fjölskyldunnar til efnislegrar meðferðar hér á landi og veiti þeim alþjóðlega vernd.
Kærandi vísar þá til þess að sérstakar ástæður séu fyrir hendi í máli hennar og barna hennar í skilningi 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í þeim efnum fjallar kærandi almennt um og gerir grein fyrir inntaki og túlkun á ákvæðinu, m.a. með hliðsjón af lögskýringargögnum og fyrri úrskurðum kærunefndar útlendingamála. Telur kærandi að eðli málsins samkvæmt valdi viðkvæm staða þeirra því að þau muni eiga erfitt uppdráttar á Ítalíu, en hún standi frammi fyrir því að þurfa sjá ein fyrir tveimur börnum. Í því samhengi vísar kærandi í úrskurð kærunefndar nr. 242/2018 frá 29. maí 2018 sem hafi varðað unga konu og barn hennar sem hlotið höfðu vernd á Ítalíu. Kærunefndin hafi komist að þeirri niðurstöðu að sérstakar ástæður væru uppi í því máli og fallist á kröfu um að taka bæri málið til efnislegrar meðferðar. Telur kærandi að aðstæður hennar svipi mjög til aðstæðna kæranda í framangreindu máli og vísar í því sambandi til jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Kærandi gerir jafnframt kröfu um að mál hennar verði tekið til efnismeðferðar hér á landi á grundvelli 1. mgr. 42. gr. laga um útlendinga, sbr. 3. mgr. 36. gr. sömu laga, en í ákvæðinu megi finna regluna um non-refoulement, eða bann við að vísa fólki brott eða endursenda þangað sem líf þess eða frelsi kann að vera í hættu. Telur kærandi að þær aðstæður sem hún og börn hennar megi búast við á Ítalíu séu svo slæmar að þær jafnist á við ómannúðlega og vanvirðandi meðferð í skilningi 3. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.
V. Niðurstaða kærunefndar útlendingamála
Réttarstaða barna kæranda
Í 2. mgr. 10. gr. laga um útlendinga nr. 80/2016 segir að ákvarðanir sem varði barn skuli teknar með það sem því sé fyrir bestu að leiðarljósi, því tryggður réttur til að tjá skoðanir sínar í málum sem það varði og að tekið sé tillit til skoðana barnsins í samræmi við aldur þess og þroska. Í 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga kemur fram að við ákvörðun sem sé háð mati stjórnvalds skuli huga að öryggi barns, velferð þess og félagslegum þroska og möguleika þess til að sameinast fjölskyldu sinni. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga kemur m.a. fram að sé ólögráða barn í fylgd annars eða beggja foreldra skal það almennt viðurkennt að hagsmunum barns sé best borgið með því að tryggja fjölskylduna sem heild og rétt hennar til að vera saman.
Kærunefnd hefur farið yfir gögn málsins, þ. á m. viðtöl við kæranda hjá Útlendingastofnun og gögn um heilsufar hennar og barna hennar. Það er mat nefndarinnar að allt bendi til þess að hagsmunum A og B sé best borgið með því að tryggja rétt fjölskyldunnar til að vera saman og að réttarstaða A og B verði ákvörðuð í samræmi við meginregluna um einingu fjölskyldunnar. Börnin A og B eru í fylgd móður sinnar og verður því tekin afstaða til mála fjölskyldunnar í einum úrskurði.
Ákvæði 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga er mælt fyrir um að umsókn um alþjóðlega vernd skuli tekin til efnismeðferðar nema undantekningar sem greindar eru í a-, b- og c-liðum ákvæðisins eigi við. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 36. gr. er stjórnvöldum heimilt að synja því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar hafi umsækjandi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa hlotið virka alþjóðlega vernd eða annars konar vernd í öðru ríki eða ef hann, eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum, gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður og, ef hann var talinn flóttamaður, fengið vernd í samræmi við alþjóðasamning um stöðu flóttamanna.
Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum málanna er kærandi með viðbótarvernd á Ítalíu og dvalarleyfi á grundvelli þeirrar verndar með gildistíma til 14. september 2020. Þá kemur fram í gögnunum að A, […], er með dvalarleyfi á grundvelli fjölskyldutengsla með gildistíma til 14. september 2020. Að mati kærunefndar felur sú vernd sem kærandi og barn hennar njóta á Ítalíu í sér virka alþjóðlega vernd í skilningi a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Í ljósi framangreinds er það mat kærunefndar að skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu uppfyllt í málum kæranda og barns hennar.
Einstaklingsbundnar aðstæður kæranda
Kærandi er einstæð kona […]. Hún kom hingað til lands ásamt […] dóttur sinni A. Þá fæddi hún barn, B, hér á landi […]. Samkvæmt gögnum málsins er kærandi við góða líkamlega heilsu. Hún hefur sótt sálfræðiviðtöl hér á landi […]og í vottorði frá sálfræðingi hjá Reykjavíkurborg, dags. 3. apríl 2019, kemur m.a. fram að ekki hafi verið gerð formleg greining á vanda hennar en að hún sýni töluverð einkenni áfallastreitu. Þá hafi kærandi greint sálfræðingi frá kynferðislegri og líkamlegri misnotkun sem hún hafi orðið fyrir þegar hún hafi dvalið í [...] á Ítalíu. Að sögn sálfræðings þurfi kærandi á miklum stuðningi að halda og áframhaldandi sálfræðimeðferð. Kærandi hafi fengið stuðning inn á heimilið ásamt því að vinna einstaklingsáætlun með málstjóra sínum, en í henni felist að kærandi hitti sálfræðing vikulega, [...]. Í gögnum um heilsufar A og B kemur m.a. fram að þau séu almennt við góða heilsu.
Í ljósi ofangreinds og með hliðsjón af ungum aldri barna kæranda er það mat kærunefndar að gögn málsins beri með sér að fjölskyldan í heild hafi sérþarfir í skilningi 6. tölul. 3. gr. laga um útlendinga sem taka hefur þurft tillit til við meðferð málsins.
Aðstæður á Ítalíu
Kærunefnd útlendingamála hefur lagt mat á aðstæður á Ítalíu, m.a. með hliðsjón af eftirfarandi skýrslum og gögnum:
- Italy 2018 Human Rights Report (United States Department of State, 13. mars 2019);
- Asylum Information Database. Country Report – Italy (European Council on Refugees and Exiles, apríl 2019);
- World Report 2019 – European Union (Human Rights Watch, 17. janúar 2019);
- Annual Report on the Situation of Asylum in the European Union 2018 (European Asylum Support Office, 24. júní 2019);
- Report concerning the implementation of the Council of Europe Convention on Action against Trafficking in Human Beings by Italy (Council of Europe: Group of Experts on Action against Trafficking in Human Beings, 25. janúar 2019);
- 2018 Trafficking in Persons Report – Italy (United States Department of State, 28. júní 2018);
- Freedom in the World 2018 – Italy (Freedom House, 5. apríl 2018);
- Amnesty International Report 2017/18 - Italy (Amnesty International, 22. febrúar 2018);
- Mutual Trust Is Still Not Enough – The situation of persons with special reception needs transferred to Italy under the Dublin III Regulation (Danish Refugee Council og Swiss Refugee Council, 12. desember 2018);
- Wave Country Report 2017 (Women against Violence Europe, mars 2018);
- The Journey of Hope: Education for Refugee and Unaccompanied Children in Italy (Education International Research, 31. maí 2017);
- Concluding observations of the Committee on the Elimination of Racial Discrimination (UN Committee on the Elimination of Racial Discrimination, 17. febrúar 2017);
- Integration of Refugees in Greece, Hungary and Italy: Comparative Analysis (European Parliament, desember 2017);• Investing in Children´s Services – Improving Outcomes (European Social Network, 2016);
- ECRI Report on Italy (European Commission against Racism and Intolerance, 7. júní 2016);
- Reception conditions in Italy. Report of the current situation of asylum seekers and beneficiaries of protection, in particular Dublin returnees (Swiss Refugee Council, ágúst 2016);
- Information note, Dublin transfers post-Tarakhel: Update on European case law and practice (Elena, European legal network on asylum, október 2015);
- Submission by the United Nations High Commissioner for Refugees. For the Office of the High Commissioner for Human Rights’ Compilation Report – Universal Periodic Review: Italy (UNHCR, mars 2014);
- UNHCR Recommendations on Important Aspects of Refugee Protection in Italy (UNHCR, júlí 2013);
- Upplýsingar af vefsíðu Istituto Nazionale della Previdenza Sociale/INPS (https://www.inps.it);
- Upplýsingar af vefsíðu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (http://ec.europa.eu);
- Upplýsingar af vefsíðu OSCE Office for Democratic Institutions and Human Rights (http://hatecrime.osce.org/italy) og
- Upplýsingar af vefsíðu ítalska flóttamannaráðsins (í. Consiglio Italiano per I Rifugiati - http://www.cir-onlus.org/en/).
Samkvæmt ofangreindum gögnum eru dvalarleyfi einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns og einstaklinga með viðbótarvernd gefin út til fimm ára. Unnt er að endurnýja leyfin að fimm árum liðnum en biðtími eftir slíkri endurnýjun getur verið langur. Þá geta einstaklingar sem hafa dvalið á Ítalíu í fimm ár sótt um ótímabundið dvalarleyfi á Ítalíu, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns geta öðlast ríkisborgararétt að fimm árum liðnum en einstaklingar með viðbótarvernd að tíu árum liðnum. Einstaklingar með réttarstöðu flóttamanns fá ferðaskilríki (í. documenti di viaggio) með fimm ára gildistíma en handhafar viðbótarverndar geta fengið svonefnt ferðaleyfi (í. titolo di viaggio). Af framangreindum gögnum verður þó ekki séð að á Ítalíu sé munur á réttindum einstaklinga með réttarstöðu flóttamanns og handhafa viðbótarverndar hvað snertir aðgang að húsnæði, heilbrigðisþjónustu og atvinnuleyfi.Í skýrslu Asylum Information Database kemur m.a. fram að húsnæðisaðstoð við einstaklinga sem njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu sé af skornum skammti. Ítölsk yfirvöld reka þó búsetuúrræðin SIPROIMI (e. System for the Protection of Beneficiaries of International Protection and Unaccompanied Foreign Minors) sem eru nánast eingöngu ætluð handhöfum alþjóðlegrar verndar og fylgdarlausum börnum. Þegar einstaklingar hafa fengið inngöngu í SIPROIMI úrræði mega þeir dvelja þar í sex mánuði. Aftur á móti eru ekki nógu mörg SIPROIMI úrræði til að mæta þeim fjölda sem hefur fengið alþjóðlega vernd. Í framangreindum skýrslum kemur jafnframt fram að sambærileg félagsleg húsnæðisúrræði á vegum sveitarfélaga séu aðgengileg einstaklingum sem njóta alþjóðlegrar verndar og ítölskum ríkisborgurum, þó að einhver dæmi séu um að sveitarfélög geri kröfu um búsetu á Ítalíu í tiltekinn tíma til að öðlast rétt til aðgangs að slíkum úrræðum.
Þá kemur fram í framangreindum skýrslum að einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar og hafa dvalarleyfi á Ítalíu hafa sama rétt til atvinnuþátttöku og ítalskir ríkisborgarar. Hins vegar sé atvinnuleysi mikið og eigi útlendingar oft í erfiðleikum með að finna atvinnu við hæfi. Einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar á Ítalíu eiga almennt sama rétt og ítalskir ríkisborgar til velferðarþjónustu sem er m.a. veitt af tryggingastofnun ríkisins (í. Istituto Nazionale della Previdenza Sociale/INPS) og sveitarfélögum. Þjónustan getur eftir atvikum falið í sér m.a. atvinnuleysisbætur, fæðingarorlof og fjölskyldubætur. Búseta á tilteknu svæði er ekki skilyrði fyrir félagslegri þjónustu, en í einhverjum tilvikum er gerð krafa um búsetu á Ítalíu í ákveðinn tíma, t.a.m. er tiltekin aðstoð við framfærslu eingöngu veitt einstaklingum sem hafa búið í tíu ár á Ítalíu.
Hægt er að skrá fæðingu barns á spítala, innan þriggja daga frá fæðingu, eða síðar í sveitarfélagi viðkomandi að framlögðum persónuskilríkum. Foreldrar barna á aldrinum þriggja mánaða til tveggja ára geta sótt um aðgang að vöggustofum, en aðgengi að þeim og gjöldum er stjórnað af hverju sveitarfélagi fyrir sig. Börn á aldrinum þriggja til sex ára eiga þá að geta fengið aðgang að leikskólum, og í einhverjum tilvikum bjóða sveitarfélög upp á lækkuð gjöld, falla frá gjöldum eða bjóða forgang að plássi þegar aðstæður krefjast slíks og tiltekin skilyrði eru uppfyllt. Í skýrslu Asylum Information Database og skýrslu samtakanna Education International Research kemur m.a. fram að ítölsk lög kveði á um skólaskyldu til 16 ára aldurs. Öll börn sem dvelja á ítölsku yfirráðasvæði eiga því rétt á skyldubundinni menntun frá sex til 16 ára aldurs, til jafns við ítalska ríkisborgara, án tillits til réttarstöðu þeirra á Ítalíu og án endurgjalds. Þá eiga erlend börn rétt á sérstakri aðstoð hafi þau sérþarfir og jafnframt bjóða sumir skólar upp á sérstakt undirbúningsnámskeið til að aðstoða erlenda nemendur við að aðlagast skólanum. Þegar erlend börn leggja fram umsókn um skólavist þá er krafist sömu upplýsinga um barnið og hjá ítölskum börnum og skortur á framlagningu gagna á ekki að koma í veg fyrir að barn sé skráð í skólann.
Í framangreindum gögnum kemur fram að einstaklingar sem hlotið hafa alþjóðlega vernd eiga sama rétt og ítalskir ríkisborgarar til lögboðinnar heilbrigðisþjónustu að því gefnu að þeir hafi skráð sig inn í heilbrigðiskerfið. Slík skráning er háð því að umsækjandi hafi skráð lögheimili sem eðli máls samkvæmt getur verið hindrun fyrir einstaklinga sem eru án fastrar búsetu. Í ofangreindri skýrslu Asylum Information Database kemur fram að skráning í heilbrigðiskerfið gildi jafn lengi og dvalarleyfi einstaklings og falli ekki sjálfkrafa úr gildi á meðan á málsmeðferð endurnýjunar dvalarleyfisins standi. Í framkvæmd geti þó einstaklingar með útrunnin dvalarleyfi átt í erfiðleikum með að nálgast heilbrigðisþjónustu. Einstaklingar þurfa almennt að greiða hluta þess kostnaðar sem fellur til vegna heilbrigðisþjónustu sem þeir nýta sér en frá því eru þó undantekningar, t.d. í þeim tilvikum þegar einstaklingar eru utan vinnumarkaðar og án annarrar framfærslu. Í skýrslu Asylum Information Database kemur þó fram að mismunandi túlkun á reglum um greiðsluþátttöku sjúklinga hafi leitt til þess að í sumum sveitarfélögum hafi verið gerð krafa um að einstaklingar sem njóta alþjóðlegrar verndar en eru utan vinnumarkaðar greiði kostnað við heilbrigðisþjónustu. Samkvæmt framangreindum heimildum eru því ýmsar aðgangshindranir til staðar þegar kemur að heilbrigðiskerfinu á Ítalíu.
Af framangreindum skýrslum verður ráðið að fordómar í garð fólks af erlendum uppruna sé vandamál á Ítalíu en ítölsk yfirvöld hafi gripið til aðgerða til að sporna við kynþáttafordómum og mismunun á grundvelli kynþáttar, m.a. með lagasetningu. Í kjölfar athugasemda alþjóðlegra eftirlitsnefnda, stofnana og frjálsra félagasamtaka hafa ítölsk stjórnvöld tekið mikilvæg skref í þá átt að vinna gegn kynþáttafordómum, mismunun á grundvelli kynþáttar og hatursglæpum, þ. á m. með aðgerðaráætlun gegn kynþáttahyggju (e. National Action Plan against Racism, Xenophobia and Intolerance). Þá hefur rannsóknum og ákærum fjölgað í málum er varða mismunun, hatursorðræðu og hatursglæpi á grundvelli kynþáttar og þjóðernis. Framangreindar skýrslur bera enn fremur með sér að almenningur á Ítalíu geti leitað sér aðstoðar ítalskra löggæsluyfirvalda vegna ofbeldisbrota og hótana.
Í ofangreindum skýrslum kemur þá m.a. fram að ítölsk stjórnvöld hafi á undanförnum árum gripið til ýmissa aðgerða í því skyni að berjast gegn mansali, m.a. með gerð og eftirfylgni með aðgerðaráætlun gegn mansali (e. National Action Plan against Trafficking in, and Serious Exploitation of, Human Beings) og með aukinni samvinnu ríkisstofnana og frjálsra félagasamtaka. Þá hefur Ítalía á undanförnum árum sett aukið fjármagn í rannsóknir á mansali í landinu sem og til ýmissa frjálsra félagasamtaka sem aðstoða þolendur mansals. Auk þess hefur verið lögð áhersla á þjálfun lögreglumanna og annarra viðeigandi starfsmanna í þessum málaflokki.
Ákvæði 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga
Í 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga kemur fram að ef svo standi á sem greini í 1. mgr. skuli taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar ef útlendingurinn hefur slík sérstök tengsl við landið að nærtækast sé að hann fái hér vernd eða ef sérstakar ástæður mæli annars með því. Í 32. gr. a og 32. gr. b reglugerðar um útlendinga nr. 540/2017, sbr. 4. mgr. 36. gr. laganna, koma fram viðmið varðandi mat á því hvort taka skuli umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar vegna sérstakra tengsla eða ef sérstakar ástæður mæla með því. Í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga koma fram sérviðmið er varða börn og ungmenni. Þar segir m.a. að við mat á því hvort taka skuli umsókn til efnismeðferðar vegna sérstakra ástæðna skuli hagsmunir barnsins hafðir að leiðarljósi. Þá segir að við mat á hagsmunum barns skuli meðal annars að líta til þess hvort flutningur til viðtökuríkis hafi í för með sér hættu á að fjölskyldan aðskiljist eða muni aðskiljast.
Eins og áður hefur verið rakið er kærandi einstæð kona með tvö ung börn á framfæri. Kemur frásögn kæranda í viðtölum hjá Útlendingastofnun og fyrir kærunefnd að mestu leyti heim og saman við heimildir um aðstæður einstaklinga með alþjóðlega vernd á Ítalíu sem nefndin hefur kynnt sér, þ.e. hvað varðar erfitt aðgengi að vinnumarkaðnum og félagslegu húsnæði, framfærslu frá yfirvöldum, heilbrigðisþjónustu og aðstoð við að aðlagast ítölsku samfélagi. Síðan kærandi kom hingað til lands hefur hún m.a. notið sálfræðiaðstoðar, ásamt því að fá stuðning inn á heimilið, svo sem fram hefur komið. Samkvæmt vottorði sálfræðings sýnir kærandi töluverð og alvarleg einkenni áfallastreitu eins og áleitnar minningar, martraðir, skert minni, o.fl. Samkvæmt framburði kæranda […]. Framangreindar skýrslur og gögn málsins bera með sér að þótt úrræði séu til staðar á Ítalíu sem eigi að veita einstaklingum í stöðu kæranda stuðning og félagslega aðstoð, benda gögn málsins til þess að tafir gætu orðið á því að kærandi fengi aðgang að slíkum úrræðum auk þess sem einstaklingar geti mætt hindrunum við að verða sér úti um slíkan stuðning.
Að mati kærunefndar bera gögn málsins með sér að kærandi megi vænta þess að staða hennar verði verulega síðri en staða almennings á Ítalíu, m.a. vegna eftirfarandi samverkandi þátta; stöðu kæranda sem flóttakonu […] sem sé einstæð með tvö mjög ung börn á framfæri sem þurfi á stöðugri umönnun að halda, erfiðleika við að afla sér viðhlítandi heilbrigðisþjónustu á Ítalíu, þ. á m. geðheilbrigðisþjónustu, og vandkvæða við að komast út á vinnumarkaðinn og afla húsnæðis fyrir sig og börn sín vegna framangreindra einstaklingsbundinna ástæðna, sbr. áðurnefnd viðmið í dæmaskyni um sérstakar ástæður í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Það er þá mat kærunefndar að það sé ekki í samræmi við hagsmuni barna kæranda að fara aftur til Ítalíu, sbr. sérviðmið varðandi börn og ungmenni í 32. gr. a reglugerðar um útlendinga, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, sbr. einnig 2. mgr. 10. gr. og 3. mgr. 25. gr. laga um útlendinga og 1. mgr. 3. gr. og 1. mgr. 22. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2013. Við mat á bestu hagsmunum barna kæranda hefur kærunefnd einkum litið til viðkvæmrar stöðu þeirra í ljósi þess að þau séu bæði mjög ung og viðkvæmrar stöðu móðurinnar, sbr. m.a. almenna athugasemd barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna nr. 14, um rétt barnsins til að allar ákvarðanir sem það varði séu byggðar á því sem því sé fyrir bestu.
Að öllu framangreindu virtu er það niðurstaða kærunefndar, eins og hér sérstaklega stendur á og í ljósi þess að kærandi er einstæð móðir með tvö mjög ung börn, að fella úr gildi ákvarðanir Útlendingastofnunar í máli kæranda og barna hennar og leggja fyrir stofnunina að taka mál þeirra til efnislegrar meðferðar á grundvelli 1. málsl. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.
Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um athugasemdir kæranda við ákvarðanir Útlendingastofnunar.
Samantekt
Með vísan til þess sem að framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar útlendingamála, eins og hér stendur á, að taka beri mál kæranda og barna hennar til efnismeðferðar hér á landi.
Úrskurðarorð
Ákvarðanir Útlendingastofnunar eru felldar úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda og barna hennar til efnismeðferðar.The decisions of the Directorate of Immigration are vacated. The Directorate shall examine the merits of the applicant‘s and her children‘s application for international protection in Iceland.
Hjörtur Bragi Sverrisson
Árni Helgason Þorbjörg Inga Jónsdóttir