Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar fá 20.000 króna eingreiðslu vegna COVID-19
Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar, sem eiga rétt á orlofsuppbót á árinu 2020, fá 20.000.kr eingreiðslu til viðbótar vegna þeirra áhifa sem COVID-19 faraldurinn hefur haft. Tillaga þess efnis var samþykkt á Alþingi í gær sem hluti af aðgerðarpakka stjórnvalda vegna COVID-19. Jafnframt var gerð breyting á lögum um almannatryggingar til að þessi greiðsla gæti farið fram. Greiðslan kemur til framkvæmda þann 1. júní næstkomandi.
Greiðslan kemur til viðbótar við þá orlofsuppbót sem örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar eiga rétt á í ár og telst ekki til tekna þeirra. Hún mun þar af leiðandi ekki skerða aðrar greiðslur til hópsins. Miðað er við að um það bil 20.000 örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar uppfylli skilyrðið um rétt á orlofsuppbót á árinu 2020 og er kostnaður ríkissjóðs vegna aðgerðarinnar áætlaður um 400 milljónir króna.
Ásmundur Einar Daðason, félags-og barnamálaráðherra: „Áhrifanna af COVID-19 faraldrinum gætir víða í okkar samfélagi og við höfum frá upphafi lagt áherslu á það að styðja við viðkvæma hópa á þessum tímum. Á nokkrum vikum hefur daglegt líf okkar allra raskast mikið og aukið álag á öllum sviðum samfélagsins, ekki síst þá hópa sem minna mega sín. Það er því einkar ánægjulegt að þessi tillaga hafi verið samþykkt á Alþingi. Saman förum við í gegnum skaflinn.”