Vel sóttur fundur um flugöryggi
Innanríkisráðuneyti efndi í vikunni til fundar um flugöryggi í einka- og frístundaflugi eða almannaflugi í samvinnu við Isavia, Rannsóknarnefnd samgönguslysa og Flugmálafélag Íslands. Tilgangur fundarins var að grasrótin og stjórnsýslan gætu talað saman um flugöryggi í einka- og frístundaflugi. Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytis, setti fundinn og sagði í upphafi ávarps síns að flugið væri snar þáttur í lífi Íslendinga og minntist á hvernig frumkvöðlar í fluginu hefðu nánast fært landið í einu skref inn í nútímann og tæknina.
Einnig kom fram í ávarpi ráðuneytisstjóra að samkvæmt skýrslu IATA, Alþjóðasambands flugfélaga, skapaði flugið um 20 þúsund störf í landinu og áhrif á landsframleiðslu væru kringum 13%. Sagði hún hina víðtæku starfsemi íslenskra flugfélaga hérlendis og erlendis vel þekkta og minnti á áherslu sem Íslendingar hefðu lagt á það síðustu árin að ná nýjum loftferðasamningum. Í lokin lagði Ragnhildur áherslu á að þegar flugöryggi væri annars vegar mættum við ekki sofna á verðinum.
Þórólfur Árnason, forstjóri Samgöngustofu, og Halla Sigrún Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri samhæfingarsviðs, fjölluðu um hlutverk Samgöngustofu og samskipti við grasrótina.
Samvinna skilar árangri
Michel Masson, flugöryggisfulltrúi EASA, Flugöryggisstofnunar Evrópu, kynnti síðan hlutverk EASA í tengslum við almannaflug. Fór hann fyrst yfir helstu atriði í starfsemi EASA sem hefur aðsetur í Köln og skrifstofur í Brussel, Beijing, Montreal og Washington og starfa alls hjá stofnuninni kringum 750 manns.
Masson ræddi síðan um stefnu og hlutverk EASA við reglusetningu og sagði stefnu EASA þá að setja lágmarksreglur, að eitt regluverk henti ekki öllum sviðum í flugrekstri og að nálgast ætti reglusetningu út frá mati á áhættu. Einnig lagði hann áherslu á að með samvinnu allra sviða í flugrekstri næðist bestur árangur.
Þorkell Ágústsson, rannsóknarstjóri hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa, fór yfir flugslys og alvarleg flugatvik á síðustu árum. Kom meðal annars fram í máli hans að ekkert banaslys hefði orðið á átta ára tímabili 2001 til 2008 en þrjú banaslys árin 2009 til 2014. Þá sagði hann fimm banaslys hafa orðið í almannaflugi á síðustu 20 árum.
Sólveig Ragnarsdóttir, flugöryggissérfræðingur á samhæfingarsviði Samgöngustofu, ræddi um tilkynningaskyldu í almannaflugi. Fór hún yfir skilgreiningar og hvað ætti að tilkynna, trúnað og þagnarskyldu og fleira.
Í lokin fjallaði Matthías Sveinbjörnsson, forseti Flugmálafélags Íslands, umhlutverk Flugmálafélagsins og benti meðal annars á að flugstarfsemi þrifist ekki án grasrótar og að grasrót þyrfti andrými til að lifa. Ræddi hann meðal annars um áhættu, fyrir hverja settar væru reglugerðir og kröfur og spurði hvert ætti að stefna. Sagði hann mikilvægt að auka samstarf, hlusta á ráð og reynslu frá flugheiminum, læra af reynslunni og vinna að markvissum aðgerðum.