Hoppa yfir valmynd
7. október 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 11/2003

Þriðjudaginn, 7. október 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 19. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 14. febrúar 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi, dags. 26. nóvember 2002, um að synja kæranda um fæðingarstyrk sem námsmanni.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Atvik málsins eru þau að 28. maí 2001 eignaðist ég mitt fyrsta barn, B. Var ég í fæðingarorlofi í sex mánuði eða til loka nóvember 2001. Ekki var mögulegt að ég héldi áfram námi eftir jólin 2001 vegna námskipunar skólans (á síðasta ári náms míns er lokaverkefni unnið eftir jól). Ég þurfti því að taka mér leyfi frá námi veturinn 2001-2002 að því leyti sem ég var ekki í fæðingarorlofi. Þann vetur varð ég hins vegar þunguð af yngri dóttur minni, D, sem fæddist 24. september 2002 og mál þetta varðar.

Af hálfu Tryggingastofnunar er litið svo á að ég hafí ekki verið í fullu námi veturinn 2001-2002, þ.e. hafi ekki verið í námi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu. Ástæður þess að svo var eru, eins og framan greinir, þær að ég eignaðist umrætt barn 28. maí 2001 og gat ekki stundað nám þennan vetur af þeim sökum. Ég tel að með ákvörðun  sinni sé Tryggingastofnun í raun að skerða rétt minn til fæðingarstyrks vegna fæðingar eldra barns. Ég vek athygli á því að vegna þess hve stutt er á milli fæðinga barnanna (tæpir 16 mánuðir) var mér í raun gert ómögulegt að fullnægja kröfu Tryggingastofnunar um að hafa verið sex mánuði í fullu námi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingu yngra barnsins. Jafnvel þótt ég hefði hafið nám í janúar 2002 (sem þó var ekki mögulegt) hefði það ekki fullnægt kröfu stofnunarinnar.

Ég lít svo á að ákvörðun Tryggingastofnunar sé í brýnni andstöðu við tilgang laga nr. 95/2000, sbr. einkum 2. gr. þeirra, en taka verður tillit til þessa tilgangs við skýringu á einstökum ákvæðum laganna. Í annan stað tel að ég með umræddri ákvörðun sé mér mismunað með ólögmætum hætti. Er sú mismunun að mínu mati í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. einnig 65. gr. stjórnarskrá  lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 og meginreglur jafnréttislaga nr. 96/2000.“

 

Með bréfi, dags. 20. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 16. apríl 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dags. 4. september 2002 sótti kærandi um fæðingarstyrk námsmanna vegna væntanlegrar fæðingar 26. september. Með umsókninni fylgdi staðfesting dags. 4. september frá E-háskóla um að hún væri skráð í fullt nám við skólann á haustönn 2002 og hefði greitt skólagjöld. Á staðfestingunni kom einnig fram hver námsbrautin i væri og að um væri að ræða þriðja námsár af þremur.

Foreldrar í fullu námi eiga rétt á fæðingarstyrk skv. 1. mgr. 19. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000. Skv. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 telst fullt nám vera 75-l00% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur, Sama á við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem gerir sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi. Í 2. mgr. 14. reglugerðarinnar er kveðið á um að leggja skuli fram staðfestingu frá viðkomandi skóla og að Tryggingastofnun ríkisins sé heimilt að krefjast að sýnt sé fram á námsárangur.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 9. október var, kæranda tilkynnt að ekki væri hægt að afgreiða umsóknina vegna þess að henni fylgdi ekki fullnægjandi vottorð um nám hennar á síðustu 12 mánuðum fyrir áætlaðan fæðingardag, þar sem upplýsingar vantaði um námsframvindu á haustönn 2001 og vorönn 2002, hvað hún lauk mörgum prófum og einingafjölda það ár.

19. nóvember barst önnur staðfesting  dags. 4. nóvember þar sem auk þeirra upplýsinga sem komið höfðu fram í fyrra vottorði var greint frá því að hún hefði innritast í skólann 1999, hafi lokið 58,5 einingum og sé í samþykktu barnsburðarleyfi í 2 ár frá skólanum. Með fylgdi miði frá henni dags. 5. nóvember þar sem hún greindi frá því að hún hefði eignast fyrsta barn sitt árið 2001 og annað barn 2002. í framhaldi af þessu mun hafa orðið ljóst að hún hafði ekki stundað nám skólaárið 2001-2002.

Lífeyristryggingasvið synjaði með bréfi dags. 26. nóvember umsókn um fæðingarstyrk námsmanna á þeim grundvelli að samkvæmt framlögðum gögnum uppfyllti kærandi ekki skilyrðið um 6 mánaða samfellt nám. Þess í stað yrði henni greiddur lægri fæðingarstyrkur foreldra utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi.

Óumdeilt er í þessu máli að kærandi stundaði ekki nám skólaárið 2001-2002 og fullnægir þar af leiðandi ekki því skilyrði 1. mgr. 14. gr. reglugerðarinnar fyrir greiðslu fæðingarstyrks námsmanna að hafa stundað fullt nám samfellt í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Hvorki í lögunum né í reglugerðinni er að finna undanþágu frá námsástundun vegna þess að umsækjandi hafi eignast annað barn á viðmiðunartímabilinu og þar er ekki heldur að finna skilyrði um að nám sé lagt niður meðan greiðslur fæðingarstyrks eiga sér stað.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 30. apríl 2003, og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Frekari athugasemdir bárust ekki.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar í fullu námi sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks.

Í 1. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er kveðið á um að fullt nám teljist vera 75–100% samfellt nám í viðurkenndri menntastofnun innan hins almenna menntakerfis á Íslandi í a.m.k. sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barns. Jafnframt segir að sama eigi við um 75-100% nám á háskólastigi og það nám annað sem geri sambærilegar kröfur til undirbúningsmenntunar og nám á háskólastigi.

Kærandi elur barn 24. september 2002, tólf mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 24. september 2001 fram að fæðingardegi barns. Samkvæmt gögnum málsins var kærandi hvorki á haustönn 2001 né á vorönn 2002 í fullu námi. Þar af leiðandi uppfyllir kærandi ekki það skilyrði að hafa verið í fullu námi í sex mánuði á síðustu 12 mánuðum fyrir fæðingu barnsins samkvæmt framangreindri skilgreiningu.

Með hliðsjón af framangreindu hefur kærandi því ekki áunnið sér rétt til greiðslu fæðingarstyrks sem foreldri í námi. Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins varðandi greiðslur til kæranda er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu fæðingarstyrks sem námsmanni er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta