Hoppa yfir valmynd
16. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 13/2003

Þriðjudaginn, 16. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 27. febrúar 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 27. febrúar 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 13. janúar 2003, um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Í október síðastliðnum sótti undirrituð um fæðingarorlof hjá TR en umsóknin var ekki samþykkt á þeim forsendum að vinnuframlag umsækjanda náði ekki lágmarki skv. skilyrðum TR um fæðingarorlof. Undirrituð óskar eftir því að umsókn um fæðingarorlof verði endurskoðuð þar sem vinnuframlag er nægjanlegt.

Undirrituð starfaði sjálfstætt í tvö mánuði áður en hún gerðist launamaður og uppfyllir vinnuframlag í sjálfstæðri starfssemi ásamt vinnu sem launamaður lágmarki því er þarf til að eiga rétt á fæðingarorlofi. Þar sem tekjur af sjálfstæðri starfssemi eru undir lágmarki Ríkisskattstjóra (B kr.) eru þær tekjur undanþegnar staðgreiðslu skv. 3. gr. skattalaga og því eingöngu taldar fram með skattframtali 2003 vegna tekjuársins 2002 .

Hjálagt umsókn um fæðingarorlof var sent afrit af reikningum, staðfestum af Ríkisskattstjóra ásamt skilagrein vegna staðgreiðslu ( skilagrein RSK no. 38).

Á grundvelli ofangreinds óskar undirrituð að umsókn um fæðingarorlof verði  endurskoðuð þar sem undirrituð hefur fullnægt þeim skilyrðum um atvinnu til að eiga fullan rétt á fæðingarorlofi.“

 

Með bréfi, dags. 27. febrúar 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 7. maí 2003. Í greinargerðinni segir m.a.:

„Með umsókn dagsettri 10. október 2002 sem barst 15. október sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 6 mánuði frá 19. september vegna væntanlegrar fæðingar barns sama dag. Meðfylgjandi tilkynning um fæðingarorlof var óútfyllt.

13. nóvember barst yfirlit um greiðslu atvinnuleysisbóta á tímabilinu 19. apríl – 28. október 2002 ásamt greiðsluseðli fyrir tímabilið 19. ágúst – 2. september. 

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 13. nóvember var kæranda tilkynnt að samkvæmt staðgreiðsluskrá RSK uppfyllti hún ekki það skilyrði fyrir greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði að hafa verið í sex mánaða samfelldu starfi fyrir upphafsdag fæðingarorlofs (fæðingardag barns) þar sem ekki komi fram tekjur fyrir mars og apríl. Jafnframt var bent á að ef þessar upplýsingar væru ekki réttar væri nauðsynlegt að senda staðfestar upplýsingar um launatekjur fyrir þessa mánuði sem yrðu að vera staðfestar af RSK, t.d. með móttökustimpli.

Eftir það bárust vottorð frá D ehf. um að kærandi hefði starfað þar frá 13. júní - 31. ágúst 2002 ásamt launaseðlum fyrir tímabilið 26. júní – 25. september og staðfesting á að hún hefði unnið fyrir E ehf. í mars og apríl 2002 ásamt reikningum kvittuðum af henni um greiðslu.

Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 2. desember var kæranda tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn og vísað í fyrra bréf varðandi það að launaupplýsingar þurfi að vera staðfestar af RSK, t.d. með móttökustimpli. Tekið var fram að ekki sé hægt að taka tillit til launa ef þau koma ekki fram á staðgreiðsluskrá.

Þegar í bréfum lífeyristryggingasviðs var farið fram á að launaupplýsingar væru staðfestar af RSK, t.d. með móttökustimpli, var verið að vísa til þess að það getur komið til að laun sem greidd hafa verið komi ekki fram í staðgreiðsluskrá vegna þess að vinnuveitandi hafi ekki gert skil á laununum og launatengdum gjöldum til skattyfirvalda. Ef sú staða kemur upp hjá launþega sem er að sækja um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði getur hann framvísað launaseðlum hjá RSK (sem annast þá innheimtu launatengdra gjalda hjá vinnuveitanda), fengið það staðfest og með því að þannig sé framvísað launaseðlum sem eru staðfestir um móttöku af RSK er hægt að taka tillit til launa sem umsækjandi hefur fengið greidd en ekki koma  fram í staðgreiðsluskrá við mat á því hvort réttur sé á greiðslum úr Fæðingarorlofssjóði og við útreikning á greiðslum.

Það að hægt sé að fara til RSK með launaseðla á ekki við um greiðslur sem eiga sér stað skv. reikningum þar sem slíkar greiðslur eru ekki launagreiðslur. Ef greiðsla fyrir vinnu fer fram á þann hátt er eingöngu heimilt að taka tillit til þeirra launa ef gerð hafa verið skil á reiknuðu endurgjaldi til skattyfirvalda og greitt tryggingagjald.

6. desember bárust reikningarnir að nýju stimplaðir um móttöku sama dag af embætti Skattstjórans í sveitarfélaginu F. Þar sem um greiðslur skv. reikningum var að ræða auk þess sem það er ekki til embættis viðkomandi skattstjóra heldur til RSK (eins og komið hafði fram í bréfum frá lífeyristryggingasviði) sem er að snúa sér með launaseðla þegar vinnuveitandi hefur ekki gert skil á launum hafði þessi stimplun ekki áhrif á rétt hennar til greiðslna. Sama dag var kæranda með bréfi lífeyristryggingasviðs synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði á grundvelli þess að af gögnum sem hún hefði lagt fram og upplýsingum úr staðgreiðsluskrá sæist að hún hafi ekki verið á vinnumarkaði í mars og apríl mánuði 2002.

9. janúar barst skilagrein vegna 38. gr. á staðgreiðslu opinberra gjalda sem var kvittuð móttekin án greiðslu sama dag af embætti Tollstjórans í Reykjavík. Þar var merkt við skýringu á greiðslu “Annað, hvað?” og tilgreint að um væri að ræða vinnu samkvæmt reikningum. Fjárhæð tekna var til greind G kr. og skilaskyld staðgreiðsla H kr.

Í 38. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda nr. 45/1987 segir:

“Þeir menn, sem njóta annarra tekna en launatekna og vilja komst hjá greiðslu álags á tekjuskatt og útsvar af þessum tekjum, sbr. 121. gr. laga umtekjuskatt og eignaskatt, skulu greiða fjárhæð sem ætla má að nægi til lúkningar væntanlegri álagningu tekjuskatts og útsvars á þessar tekjur. Greiðsla þessi skal innt af hendi eigi síðar en 31. janúar næstan á eftir staðgreiðsluári. Greiðslan skal bætast við staðgreiðslu þá sem maðurinn innti af hendi eða innt hefur verið af hendi fyrir hann, á  staðgreiðsluári og færast á staðgreiðsluskrá áður en greiðslustaða hans er ákvörðuð skv. 34. gr. Nánari fyrirmæli um greiðslur, greiðslustaði, skilagreinar og aðra framkvæmd samkvæmt þessari grein skulu settar í reglugerð af fjármálaráðherra.”

Þessi skilagrein hafði ekki áhrif á rétt hennar til greiðslna þar sem hún bar hvorki með sér að gerð hefðu verið skil á reiknuðu endurgjaldi né að greitt hefði verið tryggingagjald. Með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 13. janúar var kæranda tilkynnt að borist hefðu viðbótargögn sem breyttu ekki fyrri afgreiðslu þar sem hún hefði ekki verið á vinnumarkaði eða sjálfstætt starfandi á umræddu tímabili samkvæmt skrám RSK.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi dags. 13. maí 2003 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda 26. maí 2003., en þá barst skattframtal kæranda fyrir árið 2002.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kærð er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Kærandi ól barn 19. september 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 19. mars 2002 til fæðingardags barns.

Samkvæmt 3. mgr. 15. ffl. byggir útreikningur greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði á upplýsingum er Tryggingastofnun ríkisins aflar um tekjur starfsmanns eða sjálfstætt starfandi foreldris úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda. Jafnframt segir í ákvæðinu að telji foreldri upplýsingar úr viðkomandi skrá ekki réttar skuli það leggja fram gögn því til staðfestingar.

Upplýsingar sem aflað var úr staðgreiðsluskrá í tilefni af umsókn kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði staðfestu ekki sex mánaða samfellt starf hennar á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs þann 19. september 2002. Á þeim tíma lágu ekki fyrir upplýsingar um sjálfstæða atvinnustarfsemi kæranda hjá skattyfirvöldum, sbr. 3. mgr. 7. gr. ffl. Af hálfu kæranda var síðan skilað inn viðbótargögnum, þ.e. reikningum vegna starfa við ræstingu í mars og apríl 2002. Að mati úrskurðarnefndar fæðingar- og foreldraorlofsmála fela þau gögn eigi í sér fullnægjandi staðfestingu á því að uppfyllt sé skilyrði laganna um sex mánaða samfellt starf.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði, er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta