Hoppa yfir valmynd
16. desember 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 29/2003

Þriðjudaginn, 16. desember 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 6. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 15. apríl 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 7. apríl 2003 um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Mér var synjað um fæðingarorlof vegna þess að ég var ekki í fullu starfi tveimur mánuðum áður en barnið mitt fæddist 06.03.02. Ég er ekki sammála þessu því vil ég kæra þennan úrskurð. Ég hef verið sjálfstætt starfandi síðan 96, ég hef rekið fyrirtækið mitt  A ehf síðan 97, ég var undirverktaki hjá því þar til um áramótin 01-02,  síðan þá hef ég verið launþegi hjá því. Það er rétt að ég skilaði ekki launum þessa tvo mánuði áður en barnið fæddist, því um áramótin hætti ég sem undirverktaki og gerðist launþegi. Ég tók mér launalaust frí í þrjá mánuði  frá áramótum til apríl 02. Ástæða þess að ég tók mér frí eru persónulegar. Ég hef alltaf starfað fyrir fyrirtækið mitt A ehf síðan að það var stofnað því hef ég ekki getað sótt um atvinnuleysisbætur eða ráðið mig til starfa hjá öðrum. Ástæða þess að ég fæ ekki orlofið er mér sagt að sé vegna þess að ég hafi verið án vinnu en það er ekki rétt því að ég var í launalausu fríi, önnur ástæða er vegna þess að ég hafí átt að greiða reiknaða endurgjaldið eftir áramótin 02 en það er heldur ekki rétt því að þá hætti ég sem undirverktaki og gerðist launþegi hjá fyrirtækinu sem ég er enn í dag, því skil ég ekki þennan úrskurð því sannarlega hef ég verið í föstu starfi og er enn .“

 

Með bréfi, dags. 7. maí 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 2. september 2003. Í greinargerðinni segir:

„Með umsókn dagsettri 14. febrúar 2003 sótti kærandi um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði í 2 mánuði frá 1. mars 2003 vegna fæðingar barns 6. mars 2002. Með umsókninni fylgdi tilkynning um fæðingarorlof undirrituð af honum sem sjálfstætt starfandi einstaklingi og yfirlýsing frá honum þar sem hann kvaðst hafa verið í launalausu leyfi janúar, febrúar og mars 2002. Hann hefði verið verktaki og síðan launþegi hjá sama fyrirtæki sem hann reki sjálfur.

Kæranda var synjað um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með bréfi lífeyristryggingasviðs dags. 7. apríl 2003 á grundvelli þess að ekki væri uppfyllt skilyrði 1. mgr. 13. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.) um samfellt starf í a.m.k. sex mánuði fyrir upphaf fæðingarorlofs (fæðingu barns).

Kærandi hafði verið sjálfstætt starfandi einstaklingur á árinu 2001 en skv. yfirliti RSK yfir reiknað endurgjald afskráði hann sig frá janúar 2002. Frá þeim tíma er ekki hægt að líta á hann sem sjálfstætt starfandi einstakling. Frá apríl 2002 fær hann síðan skv. staðgreiðsluskrá RSK greidd laun frá fyrirtækinu A ehf. ( sem hann er eigandi að) en hann hafði áður hætt að fá greidd laun frá því fyrirtæki þegar hann fór að gefa upp reiknað endurgjald í febrúar 1999. Á tímabilinu janúar – mars 2002 kveðst hann hafa verið í launalausu leyfi.

Lífeyristryggingasvið telur að þann tíma sem leið frá því kærandi afskráði sig sem sjálfstætt starfandi einstakling í janúar 2002 og þangað til hann hóf störf að nýju hjá fyrirtæki sínu í apríl 2002 sé ekki hægt að líta svo á að hann hafi verið í  ráðningarsambandi við sjálfan sig og að heimild 2. mgr. 4. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000 til þess að telja til samafellds starfs launalaust leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi eigi ekki við. Hann uppfylli því ekki skilyrði 1. mgr. 13. ffl. fyrir greiðslulm úr Fæðingarorlofssjóði.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. september 2003, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum.

Frekari athugasemdir bárust frá kæranda með ódagsettu bréfi sem barst nefndinni 30. september 2003, þar sem kærandi ítrekar áður fram komin sjónarmið.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnun ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Foreldri öðlast rétt til greiðslna úr Fæðingarorlofssjóði eftir að hafa verið samfellt í sex mánuði á innlendum vinnumarkaði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs, sbr. 1. mgr. 13. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) Með samfelldu starfi er átt við að foreldri hafi verið í a.m.k. 25% starfi í hverjum mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks.

Í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000 sagði fyrir breytingu þá sem gerð var á henni með reglugerð nr. 186/2003 að til samfellds starfs teljist ennfremur:

„a. orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningasamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti,

b. sá tími sem foreldri fær greiddar atvinnuleysisbætur eða er á biðtíma eftir atvinnuleysisbótum samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar,

c. sá tími sem foreldri fær greidda sjúkra- eða slysadagpeninga eða er á biðtíma eftir dagpeningum, enda hafi foreldri látið af launuðum störfum af heilsufarsástæðum,

d. sá tími sem foreldri nýtur bóta frá tryggingafélagi sem koma í stað launa vegna tímabundins atvinnutjóns af völdum slysa.“

Barn kæranda fæddist 6. mars 2002. Sex mánaða viðmiðunartímabil samkvæmt framangreindu er því frá 6. september 2001 til fæðingardags barns.

Kærandi var ekki að störfum á vinnumarkaði fyrstu þrjá mánuði ársins 2002 eða þar til hann hóf störf sem launþegi við fyrirtæki sitt A ehf. í apríl 2002. Ekki verður fallist á að kærandi hafi á þessu tímabili verið í launalausu leyfi samkvæmt ráðningarsamningi við eigið fyrirtæki í skilningi stafliðar a. í 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2002. Kærandi uppfyllir því ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs né ávann hann sér rétt á annan hátt, sbr. 2. mgr. 4. gr. reglugerðar nr. 909/2000.

Samkvæmt framangreindu uppfyllir kærandi ekki það skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. að hafa verið samfellt á innlendum vinnumarkaði í sex mánuði fyrir upphafsdag fæðingarorlofs.

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A um greiðslu úr Fæðingarorlofssjóði er staðfest.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta