Hoppa yfir valmynd
16. september 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mál nr. 30/2003

Þriðjudaginn, 16. september 2003

 

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

 

Úrskurður

 

Mál þetta úrskurðuðu Guðný Björnsdóttir hdl., Jóhanna Jónasdóttir læknir og Heiða Gestsdóttir, lögfræðingur.

Þann 7. maí 2003 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 5. maí 2003.

Kærð var ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins sem tilkynnt var með bréfi dags. 15. apríl 2003 um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

 

Í rökstuðningi með kæru segir m.a.:

„Við B og A fluttum til D-lands síðastliðið ár vegna náms sem B hóf síðastliðinn janúar 2003.

Ákveðið var að flytja nokkrum mánuðum áður en skóli hófst þannig að B myndi nú vera kominn ágætlega inn í D-tungumálið og fjölskyldan búin að koma sér vel fyrir í samfélagi D-lands.

Við óskum eftir að mál þetta verði tekið fljótt fyrir vegna þeirra aðstæðna sem við erum í  (engin réttindi til fæðingarorlofs hér í D-landi).

Bendi einnig á að áætlaður fæðingardagur var 28. apríl 2003. Vonandi verður barnið komið í heiminn þegar ykkur berst þetta bréf.”

 

Með bréfi, dags. 7. maí 2003, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins.

 

Greinargerð lífeyristryggingasviðs Tryggingastofnunar ríkisins er dags. 23. maí 2003 Í greinargerðinni segir:

„Kærð er synjun á fæðingarstyrk skv. 18. gr. laga um fæðingar- og fæðingarorlof nr. 95/2000 (ffl.) á grundvelli undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks nr. 909/2000.

Kærandi sótti um fæðingarstyrk með umsókn dags. 28. mars 2003 vegna áætlaðrar  fæðingar barns 29. apríl 2003.  Með fylgdi staðfesting frá E,  D-landi um að maki hennar hefði hafið nám þar í janúar 2003 og staðfesting á því að ekki væri réttur á greiðslum í D-landi. Í umsókninni var tekið fram að hún væri búin að vera búsett í D-landi síðan í ágúst 2002. Einnig kom þar fram að maki hefði verið að vinna í október og nóvember í D-landi og fylgdu launaseðlar með.

Kæranda var með bréfi dags. 15. apríl 2003 synjað um greiðslu fæðingarstyrks námsmanna á grundvelli þess að þar sem hún hefði flutt lögheimili sitt út í ágúst 2002 en maki hennar hefði ekki hafið nám fyrr en í janúar 2003 yrði ekki litið svo á að hún hefði flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms.

Samkvæmt 18. gr. ffl. eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða  í minna en 25% starfi rétt á fæðingarstyrk og að jafnaði er skilyrði að foreldri eigi lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafi átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag.

Í 1. mgr. 12. gr. reglugerðarinnar segir:

„Rétt til fæðingarstyrks á foreldri sem er utan vinnumarkaðs, í minna en 25% starfi eða í námi að því tilskildu að foreldrið hafi átt lögheimili hér á landi við fæðingu barns, ættleiðingu eða töku barns í varanlegt fóstur og síðustu 12 mánuðina þar á undan. Skilyrði um lögheimili er í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar.“

Í 13. gr. reglugerðarinnar segir:

„Tryggingastofnun ríkisins er, þrátt fyrir skilyrði 12. gr., heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Skilyrði samkvæmt ákvæði þessu er að fyrir liggi yfirlýsing frá almannatryggingum í búsetulandi um að foreldri eigi ekki rétt á greiðslum vegna fæðingar, ættleiðingar eða töku barns í varanlegt fóstur í því ríki.Ef fyrir hendi er réttur úr almannatryggingum í búsetulandi sem er lakari en sá réttur sem námsmaður á rétt til hér á landi er Tryggingastofnun ríkisins heimilt, þrátt fyrir skilyrði 2. mgr., að greiða mismun sem því nemur.“

I 1. mgr. 12. gr. nr. 909/2000 segir að skilyrði um lögheimili sé í samræmi við það búsetuskilyrði sem sett er fyrir rétti til að teljast tryggður samkvæmt lögum um almannatryggingar. Í I. kafla A.. laga um almannatryggingar nr. 117/1993 er kveðið á um hverjir skuli tryggðir skv. lögunum. Þar er í 9. gr. c. ATL kveðið á um heimild fyrir einstaklinga sem stunda nám erlendis til að teljast áfram tryggður hér á landi ásamt maka sem var tryggður hér á landi við upphaf námsins og börnum undir 18 ára aldri sem með honum dveljast og í 9. gr. d. ATL er kveðið á um setningu reglugerðar um einstök atriði sem varða framkvæmd kaflans. Í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um framkvæmd almannaskráningar og skráningu í tryggingaskrá 463/1999 segir að sá sem flytur búsetu sína frá Íslandi teljist ekki lengur tryggður og í 2. mgr. 15. gr. reglugerðar nr. 463/1999 segir að með námsmanni sé átt við einstakling, annan en launþega eða sjálfstætt starfandi einstakling, sem er við nám eða starfsþjálfun er lýkur með útgáfu vottorðs um menntun sem viðurkennt er af yfirvöldum.

Skv. ákvæðum ATL og reglugerðar 463/1999 getur einstaklingur sem er launþegi eða sjálfstætt starfandi einstaklingur erlendis ekki talist vera námsmaður sem hefur heimild til að vera áfram tryggður hér á landi. Í máli þessu hefur kærandi verið með lögheimili í D-landi frá 19. ágúst 2002 og fyrir liggur að eftir flutning til D-lands var maki hennar að vinna þar í landi áður en hann hóf nám í janúar 2003. Þar með verður ekki litið svo á að kærandi uppfylli skilyrði undanþáguákvæðis 13. gr. reglugerðar 909/2000 um að hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms.

Það hefur ekki áhrif á niðurstöðuna að kærandi eigi ekki rétt á greiðslum í D-landi þar sem þar í landi er ekki um að ræða greiðslur í fæðingarorlofi til foreldra sem eru utan vinnumarkaðar.“

 

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 6. júní 2003 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Með bréfi dags. 25. júní 2003 barst staðfesting E á því að maki kæranda, B, hafi í júlí 2002 haft samband við skólann í þeim tilgangi að hefja þar nám í ágúst 2002. Jafnframt kemur þar fram að námsbyrjun hafi verið frestað fram til janúar 2003 og að hann hafi lokið fyrsta misseri af náminu og eigi að hefja nám á öðru misseri 28. júlí 2003.

 

Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar:

Kæra varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um greiðslu fæðingarstyrks.

Afgreiðsla málsins hefur dregist nokkuð m.a. vegna anna hjá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof (ffl.) eiga foreldrar sem eru utan vinnumarkaðar eða í minna en 25% starfi rétt til fæðingarstyrks. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skulu foreldrar að jafnaði eiga lögheimili hér á landi við fæðingu barns og hafa átt lögheimili hér á landi síðustu 12 mánuði fyrir fæðingardag, sbr. og 1. mgr. 12. gr. reglugerðar nr. 909/2000 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks. Í 1. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar er kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins sé, þrátt fyrir 12. gr. heimilt á grundvelli umsóknar að greiða fæðingarstyrk til foreldris sem hefur flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, enda hafi foreldri átt lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár fyrir flutning.

Samkvæmt gögnum málsins flutti kærandi lögheimili sitt til D-lands 19. ágúst 2002. Maki hennar flytur lögheimili sitt til D-lands í september 2002. Eftir það starfar hann á vinnumarkaði í D-lands fram í desember sama ár. Hann hóf síðan nám við E, D-landi í janúar 2003.

Með hliðsjón af gögnum málsins þykir nægjanlega í ljós leitt að tilgangurinn með flutningi lögheimilis var fyrirhugað nám maka kæranda. Verður því á það fallist að kærandi uppfylli skilyrði þess að hafa flutt lögheimili sitt tímabundið vegna náms erlendis, sbr. 13. gr. reglugerðar nr. 909/2000, um undanþágu frá lögheimilisskilyrði. Frestun á námsbyrjun maka til janúar 2003 þykir eigi leiða til annarrar niðurstöðu. Með hliðsjón af framangreindu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar, sbr. 18. gr. ffl., en staðfest er að kærandi á ekki rétt á greiðslum vegna fæðingarinnar í D-landi, sbr. 2. mgr. 13. gr. reglugerðarinnar.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synjun á greiðslu fæðingarstyrks til A er hafnað. Greiða ber kæranda fæðingarstyrk sem foreldri utan vinnumarkaðar.

 

 

Guðný Björnsdóttir

Heiða Gestsdóttir

Jóhanna Jónasdóttir

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta