Framhald átaks um styttingu biðlista eftir tilteknum skurðaðgerðum
Gerðar verða tæplega 530 liðskiptaaðgerðir á hnjám og mjöðmum á þessu ári á grundvelli átaks til að stytta bið eftir tilteknum skurðaðgerðum. Þetta er þriðja ár biðlistaátaksins og verður varið til þess um 840 milljónum króna á árinu.
Líkt og í fyrra var það mat Embættis landlæknis að brýnast væri að fjölga liðskiptaaðgerðum á hnjám og mjöðmum, aðgerðum á grindarbotnslíffærum kvenna og legnámsaðgerðum, augasteinaðgerðum og hjartaþræðingum. Embættið hefur sett það viðmið að bið eftir aðgerð skuli ekki vera lengri en þrír mánuðir og er meginmarkmið átaksins að nálgast það takmark eins og kostur er.
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir átaksverkefni eins og þetta nauðsynlegt til að bregast við alvarlegri stöðu þegar fólk þarf að bíða langtímum saman eftir mikilvægum og nauðsynlegum aðgerðum: „En við leysum þessi mál ekki varanlega með átaki. Við þurfum að styrkja opinbera heilbrigðiskerfið og innviði þess þannig að það hafi getu og burði til að anna vaxandi álagi, við þurfum að setja skýra stefnu um heilbrigðisþjónustuna og sjá til þess að lykilstofnanir kerfisins vinni á samhæfðan hátt að markmiðum hennar, líkt og bent er á í nýlegri skýrslu Ríkisendurskoðunar um þessi mál.“
Stofnanirnar sem taka þátt í biðlistaátakinu á þessu ári eru Landspítali, Heilbrigðisstofnun Vesturlands og Sjúkrahúsið á Akureyri. Aðgerðirnar sem þessar stofnanir munu sinna vegna átaksins koma til viðbótar þeim aðgerðum sem stofnanarnir sinna fyrir fastar fjárveitingar og eru liður í reglubundinni starfsemi þeirra.
Landspítali | SAk | HVE | Samtals | |
---|---|---|---|---|
Gerviliðaaðgerðir á hné/mjöðm | 270 | 190 | 37 | 497 |
Endurteknar liðskiptaaðgerðir á hné og mjöðm | 20 | 10 | 0 | 30 |
Augasteinsaðgerðir | 1200 | 100 | 0 | 1300 |
Grindarbotnsaðgerðir/brottnám legs | 100 | 18 | 37 | 155 |
Hjartaþræðingar og kransæðavíkkanir | 300 | 0 | 0 | 300 |