Hoppa yfir valmynd
7. október 2021 Dómsmálaráðuneytið

Nr. 478/2021 Úrskurður

KÆRUNEFND ÚTLENDINGAMÁLA

 

Þann 7. október 2021 er kveðinn upp svohljóðandi

úrskurður nr. 478/2021

í stjórnsýslumáli nr. KNU21050026

 

Kæra [...]

á ákvörðun

Útlendingastofnunar

 

 

I.          Kröfur, kærufrestir og kæruheimild

Þann 11. maí 2021 kærði [...], fd. [...], ríkisborgari Venesúela (hér eftir nefndur kærandi), ákvörðun Útlendingastofnunar, dags. 20. apríl 2021, um að taka ekki til efnismeðferðar umsókn hans um alþjóðlega vernd á Íslandi og vísa honum frá landinu.

Þess er aðallega krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Til vara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt alþjóðleg vernd á Íslandi. Til þrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt viðbótarvernd á Íslandi. Til þrautaþrautavara er þess krafist að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að kæranda verði veitt mannúðarleyfi á Íslandi.

Fyrrgreind ákvörðun er kærð á grundvelli 7. gr. laga um útlendinga og barst kæran fyrir lok kærufrests.

II.         Málsmeðferð

Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd á Íslandi þann 24. janúar 2021. Við umsókn framvísaði kærandi m.a. útrunnu vegbréfi útgefnu af yfirvöldum í Venesúela og dvalarleyfisskírteini útgefnu af argentínskum yfirvöldum með gildistíma frá 14. ágúst 2013 til 14. ágúst 2028. Kærandi kom til viðtals hjá Útlendingastofnun, m.a. dagana 11. febrúar og 13. apríl 2021, ásamt löglærðum talsmanni sínum. Útlendingastofnun ákvað þann 20. apríl 2021 að taka ekki umsókn kæranda um alþjóðlega vernd hér á landi til efnismeðferðar og að honum skyldi vísað frá landinu. Ákvörðunin var birt fyrir kæranda þann 27. apríl 2021 og kærði kærandi ákvörðunina þann 11. maí 2021 til kærunefndar útlendingamála. Greinargerð kæranda barst kærunefnd 2. júní 2021 ásamt fylgigögnum. Þá bárust viðbótargögn þann 3. júní 2021.

III.          Ákvörðun Útlendingastofnunar

Í ákvörðun Útlendingastofnunar kemur fram að kæranda sé með ótímabundið dvalarleyfi í Argentínu. Umsókn hans um alþjóðlega vernd yrði því ekki tekin til efnismeðferðar, sbr. a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, enda fæli flutningur kæranda til Argentínu ekki í sér brot gegn 42. gr. laga um útlendinga, sbr. jafnframt 3. mgr. 36. gr. laganna. Þá taldi Útlendingastofnun að kærandi hefði ekki slík tengsl við Ísland að nærtækast væri að hann fengi hér vernd eða að sérstakar ástæður mæltu annars með því að taka bæri umsókn kæranda til efnismeðferðar, sbr. 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda var vísað frá landinu, sbr. c-lið 1. mgr. 106. gr. laga um útlendinga, og skyldi hann fluttur til Argentínu.

IV.          Málsástæður og rök kæranda

Í greinargerð kæranda kemur fram að hann hafi í viðtölum hjá Útlendingastofnun greint frá ástæðum þess að hann hafi flúið heimaríki sitt. Kærandi hafi tekið þátt í mótmælum í heimaríki og í kjölfarið orðið fyrir aðkasti tiltekins hóps sem kallist Colectivos sem starfi í skjóli ríkisstjórnarinnar. Hópurinn hafi m.a. frelsissvipt hann, beitt hann pyndingum og hótað honum og fjölskyldu hans. Af ótta við meðlimi hópsins hafi kærandi flúið til Argentínu. Kærandi hafi í viðtalinu greint frá því að vera með dvalarleyfi í Argentínu en þrátt fyrir dvöl sína þar hafi hann stutt við stjórnarandstöðuflokk í heimaríki og tekið virkan þátt í mótmælum gegn sitjandi ríkisstjórn. Kærandi hafi greint frá því að hafa borist hótanir í Argentínu og leitað til lögreglu en hún hafi ekkert aðhafst í málinu. Á þeim tímapunkti hafi kæranda verið ljóst að hann væri ekki öruggur í Argentínu og ákveðið að flýja. Kærandi fjallar í greinargerð sinni um aðstæður í heimaríki sínu en þar sé öryggisástand ótryggt og vísar hann til alþjóðlegra skýrslna máli sínu til stuðnings. Í greinargerðinni er umfjöllun um yfirvöld í heimaríki kæranda, stöðu stjórnarandstöðunnar og tiltekna hópa sem starfi í heimaríki kæranda og styðji ríkisstjórnina þar í landi.

Aðalkrafa kæranda byggir á því að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun að rétt sé að ógilda ákvörðunina. Útlendingastofnun hafi leyst úr máli kæranda á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga með hliðsjón af aðstæðum kæranda í Argentínu og komist að þeirri niðurstöðu að umsókn hans yrði ekki tekin til efnismeðferðar. Kærandi telur að ekki hafi verið skilyrði til þess að leysa úr máli kæranda á framangreindum grundvelli og líti svo á að málið hafi sætt rangri málsmeðferð. Af orðalagi ákvæðisins og lögskýringargögnum að baki ákvæðinu sé ljóst að Útlendingastofnun sé heimilt að hafna því að taka umsókn um alþjóðlega vernd til efnismeðferðar að því gefnu að umsækjandi hafi komið til landsins að eigin frumkvæði eftir að hafa dvalist í ríki þar sem hann þurfti ekki að sæta ofsóknum og gat óskað eftir því að fá viðurkennda stöðu sem flóttamaður. Kærandi hafi komið til Íslands að eigin frumkvæði eftir að hafa dvalið í Argentínu þar sem hann hafi þegar hlotið ótímabundið dvalarleyfi. Í viðtali hjá Útlendingastofnun hafi kærandi greint frá því að hafa tekið virkan þátt í mótmælum gegn ríkisstjórn heimaríkis síns þrátt fyrir að vera búsettur í Argentínu auk þess sem að honum hafi borist hótanir og verið ógnað með skotvopni af hálfu meðlima Colectivos hópsins þar í landi. Af framburði kæranda og fyrirliggjandi gögnum sé ljóst að kærandi hafi ástæðu til að óttast ofsóknir af hálfu meðlima Colectivos í Argentínu. Skilyrði a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga séu því ekki uppfyllt en af því leiði að Útlendingastofnun hefði með réttu átt að fjalla um málið á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga. Þá bendir kærandi á að slík málsmeðferð hefði samræmst betur sjónarmiðum um réttmætar væntingar kæranda enda hafi hann staðið í þeirri trú að málið hefði verið sett í efnismeðferð.

Þá hafi Útlendingastofnun ekki gætt að leiðbeiningarskyldu sinni samkvæmt 11. gr. laga um útlendinga og 7. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við meðferð málsins. Kærandi lagði fram umsókn um alþjóðlega vernd hér á landi þann 24. janúar 2021 og var stuttu síðar boðaður til viðtals hjá Útlendingastofnun. Af viðtalsboðuninni verði ekki annað séð en að málið hafi verið sett í efnismeðferð hjá stofnuninni. Viðtal hafi farið fram 11. febrúar 2021 og verið um hefðbundið efnismeðferðarviðtal að ræða. Tveimur vikum síðar hafi greinargerð verið skilað til stuðnings kröfum kæranda, en eðli málsins samkvæmt hafi greinargerðin aðallega fjallað um 37. gr. laga um útlendinga og hvernig aðstæður kæranda samræmdust þeim skilyrðum sem þar komi fram. Í greinargerðinni sé ekki vikið að skilyrðum 36. gr. laga um útlendinga. Kæranda hafi fyrst við birtingu ákvörðunar Útlendingastofnunar verið ljóst að stofnunin hefði sett málið í annan farveg en gert var við upphaf þess. Í samræmi við 7. gr. stjórnsýslulaga telur kærandi að Útlendingastofnun hafi borið að tilkynna kæranda um fyrirhugaðar breytingar á meðferð málsins og leiðbeina honum um þýðingu þessara breytinga fyrir réttarstöðu hans, en með því hefði kæranda verið veitt raunhæft tækifæri til að gæta hagsmuna sinna. Þá bendir kærandi á 38. gr. tilskipun Evrópusambandsins 2013/32/EU máli sínu til stuðnings. Þá telur kærandi að málsmeðferð Útlendingastofnunar hafi brotið gegn 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga og 10. gr. stjórnsýslulaga en rannsókn stofnunarinnar hefði átt að beinast að atriðum sem skipta máli við mat á því hvort kærandi ætti á hættu ofsóknir í heimaríki sínu. Í hinni kærðu ákvörðun sé hins vegar hvergi fjallað um aðstæður kæranda í heimaríki heldur einungis að einstaklingsbundnum aðstæðum hans í Argentínu.

Kærandi telur trúverðugleikamat Útlendingastofnunar einnig vera ófullnægjandi. Kærandi hafi lagt fram tilteknar ljósmyndir sem sýni kæranda taka þátt í mótmælum en í hinni kærðu ákvörðun sé það mat Útlendingastofnunar að ekki væri hægt að meta hvort um væri að ræða kæranda á umræddum myndum. Þessu mati Útlendingastofnunar mótmæli kærandi. Þá hafi það verið mat Útlendingastofnunar að kærandi hafi ekki lagt fram gögn sem sýni fram á að hann yrði talinn nafntogaður og áberandi stjórnarandstæðingur og að stjórnmálaþátttaka sem hann lýsti væri almenns eðlis. Þessu andmælir kærandi og leggur áherslu á að samkvæmt fyrirliggjandi heimildum þurfi einstaklingar ekki að vera áberandi stjórnarandstæðingar til þess að verða fyrir ofsóknum af hálfu stjórnvalda í heimaríki hans. Þá mótmælir kærandi því mati Útlendingastofnunar að þær heimildir sem stofnunin hafi kynnt sér er varði starfsemi og virkni Colectivos bendi til þess að hópurinn sé fyrst og fremst staðbundinn og stundi það almennt ekki að elta fólk uppi innanlands á milli fylkja eða á milli landa. Kærandi vísar til trúverðugs framburðar síns og skýrslu frá lögregluyfirvöldum í Argentínu máli sínu til stuðnings. Með hliðsjón af framangreindu séu verulegir annmarkar á málsmeðferð kæranda hjá Útlendingastofnun sem kunni að hafa haft áhrif á niðurstöðuna í málinu og því beri að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Til þess að tryggja rétt kæranda á því að mál hans hljóti efnislega umfjöllun á tveimur stjórnsýslustigum sé jafnframt farið fram á að lagt verði fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar efnismeðferðar en ekki meðferðar í samræmi við a-lið 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga.

Varakrafa kæranda byggir á því að kærandi sé haldinn ástæðuríkum ótta við ofsóknir vegna stjórnmálaskoðana sinna og sé því flóttamaður í skilningi 1. mgr. 37. gr. laga um útlendinga og eigi rétt á alþjóðlegri vernd hér á landi samkvæmt 1. mgr. 40. gr. sömu laga. Bæði frásögn kæranda og framlögð gögn sýni að kærandi styðji ekki stjórnvöld í heimaríki, að hann hafi tekið þátt í mótmælum og að hann hafi sætt ógnunum frá Colectivos vegna stjórnmálaskoðana sinna. Þar sem kærandi óttist ofsóknir af hálfu stjórnvalda í heimaríki sé jafnframt óhætt að fullyrða að kæranda standi ekki til boða vernd yfirvalda í heimaríki.

Þrautavarakrafa kæranda byggir á því að honum verði veitt viðbótarvernd á Íslandi. Heimildir bera með sér að ástandið í heimaríki kæranda sé slæmt og að almennir borgarar búi við mikið óöryggi vegna spillingar og ógnarstjórnar og vísar kærandi m.a. til ákvörðunar Útlendingastofnunar í máli nr. 2017-09713 frá 21. september 2020. Kærandi tekur þó fram að Útlendingastofnun hafi nú synjað ríkisborgurum frá heimaríki kæranda um viðbótarvernd, sbr. ákvörðun í máli nr. 2021-02416 frá 9. apríl 2021, en að mati kæranda sé rangt að meta það sem svo að öryggisástand landsins hafi batnað þar í landi.

Þrautaþrautavarakrafa kæranda er byggð á því að rík þörf sé á vernd vegna erfiðra almennra aðstæðna í heimaríki kæranda í skilningi 1. mgr. 74. gr. laga um útlendinga. Í heimaríki kæranda ríki mannúðarkrísa sem hafi versnað með tilkomu Covid-19 faraldursins. Þá þyki kæranda ljóst að mannréttindabrot séu viðvarandi í landinu sem yfirvöld standi sjálf fyrir eða láti þau að minnsta kosti óátalin og vísar í því samhengi til landaupplýsinga og fyrri ákvarðana Útlendingastofnunar, s.s. í ákvörðun í máli stofnunarinnar nr. 2021-02416 frá 9. apríl 2021.

V.           Niðurstaða kærunefndar útlendingamála

Í greinargerð kæranda gerir hann kröfu um að ákvörðun Útlendingastofnunar verði felld úr gildi og að lagt verði fyrir stofnunina að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar. Krafa kæranda er byggð á því að slíkir annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda að rétt sé að ógilda ákvörðunina.

Rannsóknarreglan í 10. gr. stjórnsýslulaga mælir fyrir um að stjórnvald afli þeirra gagna sem eru nauðsynleg svo mál sé nægilega upplýst áður en ákvörðun er tekin. Reglan gerir kröfu um rannsókn sem er fullnægjandi grundvöllur ákvörðunar stjórnvalds en gerir hvorki kröfu um að aflað sé allra upplýsinga sem varpað gætu ljósi á málið né að stjórnvald afli ófáanlegra gagna. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðast af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum málsaðila, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann beri fyrir sig. Í athugasemdum við 10. gr. stjórnsýslulaga er tekið fram að því tilfinnanlegri eða meira íþyngjandi sem stjórnvaldsákvörðun er, þeim mun strangari kröfur verði almennt að gera til stjórnvalda um, að það gangi úr skugga um að upplýsingar, sem búa að baki ákvörðun, séu sannar og réttar. Í 2. mgr. 23. gr. laga um útlendinga segir að við meðferð mála vegna umsókna um alþjóðlega vernd skuli Útlendingastofnun afla nauðsynlegra og aðgengilegra upplýsinga. Kröfur til rannsóknar í hverju máli ráðist af lagagrundvelli málsins og einstaklingsbundnum aðstæðum kæranda, þ.m.t. þeim málsástæðum sem hann ber fyrir sig. Samkvæmt 2. mgr. 28. gr. laga um útlendinga skal viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd hagað þannig að sem mestar líkur séu á að aðstæður sem geta haft þýðingu fyrir umsókn umsækjanda upplýsist. Í 3. mgr. 28. gr. kemur fram að við upphaf viðtals þurfi að upplýsa umsækjanda um að þær upplýsingar sem hann láti í té verði lagðar til grundvallar við ákvörðun umsóknar hans. Í IV. kafla stjórnsýslulaga eru lögfestar meginreglur um andmælarétt en þær fela í sér að málsaðili eigi þess kost að gæta réttar síns og hagsmuna með því að kynna sér gögn máls, tjá sig um framkomnar upplýsingar og koma að frekari upplýsingum og viðhorfum áður en stjórnvald tekur ákvörðun í máli hans. Rannsóknarreglan tengist náið andmælareglunni sem fram kemur í 13. gr. stjórnsýslulaga þótt markmið reglnanna sé ekki að öllu leyti hið sama. Rannsóknarreglunni er aðallega ætlað að veita öryggi fyrir því að efni ákvörðunar verði bæði löglegt og rétt en andmælareglunni er ætlað að veita aðila máls rétt til að hafa áhrif við meðferð og úrlausn máls og verja hagsmuni sína.

Í 7. gr. stjórnsýslulaga er mælt fyrir um leiðbeiningarskyldu stjórnvalda en samkvæmt ákvæðinu er stjórnvaldi skylt að leiðbeina og aðstoða þá sem til þess leita um þau málefni sem eru á starfssviði þess. Í leiðbeiningarskyldu stjórnvalda felst ekki aðeins skylda til að svara fyrirspurnum heldur einnig skylda til þess að leiðbeina aðilum að eigin frumkvæði, s.s. ef stjórnvaldi má ljóst vera að aðili hafi misskilið réttarreglur, ekki skilað inn nauðsynlegum gögnum, ekki veitt nægjanlega ítarlegar upplýsingar eða hefur að öðru leyti bersýnilega þörf fyrir leiðbeiningar beri stjórnvaldi að gera aðila viðvart og veita viðkomandi viðeigandi leiðbeiningar. Í 2. mgr. 11. gr. laga um útlendinga segir að í máli vegna umsóknar um alþjóðlega vernd skuli útlendingi þegar í upphafi máls leiðbeint um réttindi sín og meðferð málsins á tungumáli sem ætla má með sanngirni að hann geti skilið. Að öðru leyti gildi almenn leiðbeiningarskylda samkvæmt 7. gr. stjórnsýslulaga um framkvæmd laganna, sbr. 3. mgr. 11. gr. laga um útlendinga.

Af yfirliti yfir feril máls kæranda hjá Útlendingastofnun má sjá að efnisviðtal hafi farið fram þann 11. febrúar 2021. Í formála viðtalsins má sjá að kærandi hafi verið upplýstur um ástæðu viðtalsins, þ.e. að fá frásögn hans af því hvers vegna hann teldi sig vera flóttamann og hvaða atburður/atburðir hafi valdið flótta hans frá heimaríki. Þá má af endurriti viðtalsins sjá að spurningar Útlendingastofnunar hafi fyrst og fremst beinst að aðstæðum kæranda í heimaríki en ekki Argentínu. Þann 2. mars 2021 hafi kærandi lagt fram greinargerð í máli sínu þar sem byggt hafi verið á 1. og 2. mgr. 37. gr. laga um útlendinga auk 1. mgr. 74. gr. sömu laga og aðallega fjallað um aðstæður hans í heimaríki. Þann 13. apríl 2021 hafi kærandi verið boðaður í framhaldsviðtal hjá Útlendingastofnun þar sem nánar var spurt út í heilsufar kæranda og aðstæður hans í Argentínu. Ekki er að sjá að kærandi hafi verið leiðbeint í upphafi viðtals um það hvers vegna stofnunin taldi ástæðu til þess að kalla hann í viðtal á ný til þess að fá frekari upplýsingar um aðstæður hans í Argentínu. Þá má sjá að kærandi hafi spurt um ástæður þess að verið væri að spyrja hann um aðstæður í Argentínu og að starfsmaður Útlendingastofnunar hafi aðeins svarað á þá leið að mikilvægt væri að fá upplýsingar um stöðu hans og öryggi í Argentínu þar sem hann hafi ótímabundið dvalarleyfi þar í landi en ekki frekar um hvaða þýðingu það hefði fyrir málsmeðferð hjá stofnuninni.

Við meðferð málsins hjá kærunefnd óskaði kærunefnd eftir afstöðu Útlendingastofnunar til þeirrar málsástæðu kæranda um að hann hafi ekki verið upplýstur um að til stæði að endursenda hann til Argentínu auk þess sem óskað var eftir því að lögð yrðu fram frekari gögn í málinu, s.s. samskipti við talsmann kæranda, ef einhver væru. Kærunefnd barst tölvubréf frá Útlendingastofnun þann 3. september 2021 þar sem fram kemur að í upphafi viðtals kæranda þann 11. febrúar 2021 hafi verið farið yfir leiðbeiningar þar sem honum hafi m.a. verið gerð grein fyrir því að þær upplýsingar sem hann veitti yrðu lagðar til grundvallar við ákvörðun um umsókn hans um alþjóðlega vernd hér á landi. Bæði í hælisbeiðni og viðtölum kæranda komi skýrt fram að hann hafi verið búsettur í Argentínu. Þá hafi frásögn kæranda í viðtali hans hjá Útlendingastofnun þann 11. febrúar 2021 varðað bæði aðstæður hans í heimaríki og Argentínu. Þá hafi verið spurt nánar út í aðstæður hans í Argentínu í framhaldsviðtali þann 13. apríl 2021. Að framhaldsviðtali loknu hafi talsmanni verið sent tölvubréf sem innihélt m.a. afrit af viðtalinu, þýðingu á framlögðum gögnum ásamt afriti af samskiptum Útlendingastofnunar við argentínska sendiráðið í Noregi. Þá hafi kæranda verið veittur frestur til að skila inn viðbótarathugasemdum við fyrri greinargerð. Þann 15. apríl 2021 hafi kærandi tilkynnt með tölvubréfi að ekki yrði skilað inn viðbótarathugasemdum.

Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að upphaflega hafi málið verið rekið sem svokallað efnismál hjá Útlendingastofnun þar sem aðstæður í heimaríki kæranda hafi fyrst og fremst komið til skoðunar og að málsmeðferð stofnunarinnar hafi lotið að því að meta hvort kærandi uppfyllti skilyrði laga um útlendinga til þess að fá réttarstöðu flóttamanns, viðbótarvernd eða dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða. Greinargerð kæranda til Útlendingastofnunar ber með sér að hann hafi talið mál sitt vera í þeim farvegi en hvergi í greinargerð hans eru færð fram rök fyrir því að taka skuli mál hans til efnismeðferðar á grundvelli 37. gr. laga um útlendinga, s.s. með vísan til 2. mgr. 36. gr. laga um útlendinga, auk þess sem hvergi er fjallað um aðstæður hans í Argentínu, líkt og við mætti búast ef kærandi teldi mál sitt vera rekið á grundvelli a-liðar 1. mgr. 36. gr. laga um útlendinga. Kærandi mætti til framhaldsviðtals hjá Útlendingastofnun þann 13. apríl 2021 þar sem hann var spurður nánar út í aðstæður sínar í Argentínu og í kjölfarið var honum boðið með tölvubréfi Útlendingastofnunar, dags. 13. apríl 2021, að leggja fram viðbótargreinargerð í málinu sem hann afþakkaði með tölvubréfi, dags. 15. apríl 2021. Af gögnum málsins verður ekki séð að kærandi hafi verið upplýstur með formlegum hætti um breytta afstöðu Útlendingastofnunar til umsóknar hans, þ.e. að til stæði að endursenda hann til Argentínu í stað heimaríkis. Áður en ákvörðun var tekin í máli kæranda lá afstaða kæranda í málinu að þessu leyti því ekki fyrir.

Með hliðsjón af framangreindu var að mati kærunefndar fullt tilefni til að leiðbeina kæranda með fullnægjandi hætti um breytta afstöðu Útlendingastofnunar til umsóknar kæranda, sbr. 7. gr. stjórnsýslulaga, og leita eftir sjónarmiðum og afstöðu kæranda í málinu áður en ákvörðun var tekin í máli hans, sbr. 10. og 13. gr. stjórnsýslulaga, einkum þegar haft er í huga hve miklir hagsmunir voru í húfi fyrir kæranda. Þrátt fyrir að framhaldsviðtal kæranda hjá Útlendingastofnun og samskipti starfsmanna stofnunarinnar við argentínska sendiráðið í Noregi hafi borið þess merki að til stæði að senda hann til Argentínu, og að talsmanni kæranda hafi mátt vera það ljóst, þá er að mati kærunefndar ekki í samræmi við vandaða stjórnsýsluhætti að uppi sé vafi um slíkt grundvallaratriði þegar ákvarðanir eru teknar í málum umsækjenda um alþjóðlega vernd. Þegar litið er til málsmeðferðar Útlendingastofnunar í máli kæranda telur kærunefnd að rannsókn málsins hafi verið áfátt, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga.

Meginmarkmið með stjórnsýslukæru er að tryggja réttaröryggi borgaranna með því að gera þeim kleift að fá umfjöllun um mál sín á tveimur stjórnsýslustigum. Eins og að framan greinir telur kærunefnd að annmarkar hafi verið á málsmeðferð Útlendingastofnunar í máli kæranda og að ekki hafi farið fram viðhlítandi mat á máli hans. Kærunefnd telur jafnframt að ekki sé unnt að bæta úr þeim annmörkum á kærustigi og því rétt að mál kæranda hljóti nýja meðferð hjá Útlendingastofnun.

Með vísan til alls þess sem framan er rakið er það niðurstaða kærunefndar að fella beri hina kærðu ákvörðun úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka umsókn kæranda um alþjóðlega vernd til nýrrar meðferðar.

Í ljósi framangreindrar niðurstöðu er, að mati kærunefndar, ekki tilefni til umfjöllunar um aðrar málsástæður kæranda.


 

Úrskurðarorð:

 

Ákvörðun Útlendingastofnunar er felld úr gildi. Lagt er fyrir Útlendingastofnun að taka mál kæranda til meðferðar á ný.

 

The decision of the Directorate of Immigration is vacated. The Directorate is instructed to re-examine the case.

 

 

Tómas Hrafn Sveinsson

 

 

Bjarnveig Eiríksdóttir                                                                                     Sandra Hlíf Ocares

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta