Hoppa yfir valmynd
4. júní 2021

Stefnt að styrkingu Schengen-samstarfsins

Að þessu sinni er fjallað um:

  • nýja stefnu um Schengen-svæðið,
  • fund EES-ráðsins,
  • nýafstaðna ráðherrafundi um samgöngur og fjarskipti,
  • ályktun ráðherraráðs ESB um ferðaþjónustu og loks
  • fund vísindamálaráðherra ESB.

Ný Schengen-stefna

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins kynnti nýja Schengen stefnu (e. Strategy towards a fully functioning and resilient Schengen area) 2. júní sl.

Schengen er stærsta svæði innan Evrópu sem heimilar frjálsa för sem meira en 400 milljón ríkisborgarar Evrópu og gestir geta nýtt sér. Schengen varðar ekki einungis landamæramál heldur einnig hagkerfi ríkjanna.

Undanfarin ár hafa tvær umfangsmiklar áskoranir tengst Schengen-svæðinu. Fyrst var það fordæmalaus fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd árið 2016 og nú heimsfaraldur. Þessar áskoranir leiddu til ósamræmdra aðgerða á landamærum ríkjanna og takmarkana á frjálsri för þar sem ríki fóru í auknum mæli að taka upp eftirlit á innri landamærum. Þeirri stefnu sem framkvæmdastjórn ESB kynnir nú er ætlað að endurbyggja og styrkja Schengen-svæðið enn frekar. Stefnan tekur á þremur meginstoðum Schengen-svæðisins.

  • Öflugri og öruggari ytri landamæri. Landamæra- og strandgæslustofnun Evrópu hefur verið efld til muna, ný og bætt skráningarkerfi munu einnig líta dagsins ljós, s.s. Entry/Exit System (EES) og European Travel Information and Authorsation System (ETIAS) en kerfunum er m.a. annars ætlað halda betur utan um för inn og út af svæðinu.
  • Stefnt er að svæði án eftirlits á innri landamærum. Svo það takist ber að tryggja og efla aðra þætti Schengen-samstarfsins, s.s. efla öryggi á ytri landamærum með ríkari lögreglusamvinnu, öflugu vegabréfsáritanakerfi, sameiginlegu evrópsku brottvísunarkerfi og bættu flóttamannakerfi. 
  • Schengen þarf að búa yfir öflugu stjórnkerfi. Slíkt fæst með gagnkvæmu trausti aðildarríkja og sameiginlegri ábyrgð. Vilji er til þess að færa vinnslu Schengen-úttekta í hverju aðildarríki á pólitískt stig þar sem ráðherraráð ESB og Evrópuþingið geta rætt niðurstöður þeirra og mögulegar aðgerðir.

Nánari upplýsingar um nýja Schengen stefnu framkvæmdastjórnar ESB.

Málamiðlun um breytingar á reglum um samevrópskt loftrými

Samgönguráðherrar ESB hittust á ársfjórðungslegum fundi sínum 3. júní nú í fyrsta skiptið frá árinu 2019 saman á fundarstað. Fundirnir eru  haldnir til skiptis í Brussel og í Lúxemborg og eru júní fundirnir jafnan í Lúxemborg sem var tilfellið núna. Mörg mál voru á dagskrá fundarins til ákvörðunar, umræðu og kynningar.  Þau mál sem voru lögð upp til ákvörðunartöku voru afstaða ráðsins til tillögu framkvæmdastjórnarinnar um breytingar á reglugerð um samevrópskt loftrými SES2+, um breytingar á tilskipun um leigu flutningabifreiða án bílstjóra og um viðurkenningu á atvinnuskírteini farmanna frá ríkjum utan ESB fyrir ráðningu á skip í siglingum á vatnaleiðum. Þá fjölluðu ráðherrarnir um drög að afstöðu ráðsins til stefnumörkunar á sviði járnbrauta og stefnumörkun um umhverfisvænar og snjallar samgöngur.

Afstaða samgönguráðherra (e. general approach) til breytinga á reglugerð um SES2+

Ráðherrarnir fjölluðu meðal annars um málamiðlun og tillögu formennskuríkisins Portúgals um afstöðu ráðsins (e. general approach) til tillagna framkvæmdastjórnarinnar um breytingu á reglugerð ráðsins um samevrópskt loftrými s.k. SES 2+. Samhliða fjölluðu ráðherrarnir einnig um tillögu að breytingu á reglugerð EASA sem gerir ráð fyrir nýjum verkefnum stofnunarinnar á sviði flugumferðastjórnunar.  Öll ríkin studdu málamiðlunartillögu Portúgals og var hún samþykkt á fundinum.

Í afstöðu ráðsins eru lagðar til töluverðar breytingar á tillögu framkvæmdastjórnarinnar sem tryggja betur yfirráð ríkjanna yfir lofthelgi sinni, þ.e. auka aðkomu flugmálayfirvalda í hverju ríki um sig að ákvörðunartöku um stjórnun loftrýmisins. Áður en tillagan var tekin til atkvæðagreiðslu tók  framkvæmdastjóri samgönguskrifstofu ESB til máls og sagði að með málamiðlun ráðherranna myndu markmið um hagkvæmni og aukna skilvirkni flugstjórnar ekki nást fyllilega sem og markmið um að draga úr losun frá flugi. Nokkur ríki lögðu áherslu á að í samningaviðræðum framundan við framkvæmdastjórnina og Evrópuþingið yrði leitað leiða til þess að styrkja ákvæði reglugerðarinnar sem styðja við aukna skilvirkni í flugumferðarstjórnun, aukna hagkvæmni þjónustunnar og minni losun frá flugi.

Evrópuþingið hefur ekki lokið umfjöllun sinni um tillögu framkvæmdastjórnarinnar að reglugerð um SES2+. Þegar afstaða þingsins liggur fyrir hefjast samningaviðræður stofnanna þriggja um endanlega útfærslu nýrrar reglugerðar um SES2+. Miðað við viðbrögð framkvæmdastjórnarinnar gæti tekið tíma að ná ásættanlegri endanlegri niðurstöðu.

Afstaða samgönguráðherra til breytinga á tilskipun um leigu flutningabíla án ökumanna

 Tillagan um breytingu á tilskipuninni hefur verið í um fjögur ár til skoðunar hjá ráðherraráðinu.  Henni er ætlað að stuðla að hagkvæmni á flutningamarkaði með því að greiða fyrir leigu á flutningabílum á milli ríkja. Með því eiga flutningafyrirtæki auðveldara með að leigja flutningabifreiðir tímabundið og þannig bregðast við tímabundinni aukningu í eftirspurn. Ráðherraráðið leggur til nokkrar breytingar sem ætlað er vinna gegn neikvæðum áhrifum á skatttekjur ríkjanna, auðvelda eftirlit og  draga úr stjórnsýslubyrði. Ríkin voru í megin atriðum sammála um málamiðlunina. Ekki ber lengur mikið í milli framkvæmdastjórnarinnar, þingsins og ráðsins og ekki er búist við að langan tíma taki að ná niðurstöðu um málið.

Stefnumörkun um vistvænar og snjallar samgöngur

Ráðherrarnir fjölluðu einnig um stefnumörkun framkvæmdastjórnarinnar  sem sett er fram í orðsendingu um umhverfisvænar og snjallar samgöngur. Í stuttu máli tóku þeir undir sýn framkvæmdastjórnarinnar um að ná kolefnishlutleysi í samgöngum árið 2050. Markmiðinu yrði náð með aðgerðum s.s. að styðja við og stuðla að orkuskiptum, nýsköpun í samgöngum, innleiðingu stafrænnar tækni og með gjaldtöku fyrir losun.

Stjórnarhættir um rafræn gögn: Hvatt til að skoða betur alþjóðaleg hlið mála

Ráðherrar sem fara með fjarskipta- og upplýsingatæknimál í aðildarríkjum ESB hittust 4. júní á ársfjórðungslegum fundi sínum sem að jafnaði er í Lúxemborg á þessum tíma.

Stafræn mál, undir yfirskriftinni: „Europe fit for the Digital Age“, eru í forgangi hjá framkvæmdastjórninni og hefur hún birt nokkrar mikilvægar tillögur á því sviði.  Á dagskrá fundarins voru þrjár slíkar tillögur til umfjöllunar en vinnan við þær er enn skammt á veg komin og afstaða ráðsins til þeirra í mótun. Þær eru um stjórnarhætti um rafræn gögn (e. Data Governance Act), netöryggi (e. Cypersecurity NIS2) og stafrænan áttavita til 2030 (2030 Digital Compass).

Stjórnarhættir um rafræn gögn

Kynnt var skýrsla um stöðu vinnunnar við að móta afstöðu ráðsins til tillögu að reglugerð um stjórnarhætti um rafræn gögn (e. European data governance). Unnið er að því að skýra gildissvið tillögunnar og ákvæði hennar gagnvart gildandi löggjöf á þessu sviði og miðað við að ljúka verkinu sem fyrst. Fram komu sjónarmið um að nauðsynlegt væri að skoða hvernig löggjöf ESB í þessu efni samræmist löggjöf annarra ríkja utan sambandsins þar sem málið væri alþjóðlegt í eðli sínu. Metið er að vinnunni við að ná samstöðu innan ráðsins miði vel áfram og ekki sé langt í sameiginlega niðurstöðu.

Netöryggi – NIS 2

Kynnt var skýrsla um framvindu við að móta afstöðu ráðherranna til málsins. Líflegar umræður áttu sér stað í ráðherraráðinu um tillöguna og er byrjað að móta skriflega afstöðu ráðsins. Unnið er með ábendingar um endurskoðun gildissviðs reglnanna og að þær samræmist löggjöf sambandsins um leið og skoðuð verði tenging hennar við löggjöf í mismunandi málaflokkum.  Ráðherrarnir sögðu málið afar mikilvægt og brýnt að klára það sem fyrst. Lögðu þeir áherslu á að  samhæfa og vinna að auknu netöryggi lítilla og meðalstórra fyrirtækja. Ekki síður að tryggja netöryggi upplýsingakerfa stjórnvalda sem eru í síauknum mæli að verða fyrir árásum. T.d. kom fram að nýlega hefði heilbrigðisupplýsingakerfi Íra orðið fyrir alvarlegri árás og sömuleiðis stjórnsýsluvefur Belga. Samstarf við vinaríki utan Evrópu þyrfti til þess að bregðast við og sporna gegn netárásum sem oft koma yfir landamæri.

Stafrænn áttaviti 2030

Á fundinum fjölluðu ráðherrarnir um þær áherslur sem töldu mikilvægastar í stefnumörkun í orðsendingu um stafræna áttavitann 2030 sem setur fram stafræn markmið fyrir ESB. Meðal annars var undirstrikað mikilvægi þess að hafa skýr stafræn markmið, að stafræn umbreyting væri mikilvæg fyrir endurreisn hagkerfisins, mikilvægi nýsköpunar, mikilvægi menntunar fyrir stafræna umbreytingu og mikilvægi einfalds skýrs regluverks á þessu sviði. Þá komu fram sjónarmið um að í stefnumörkunina vantaði umfjöllun um jafnrétti, netöryggi og gervigreind og bent var á mikilvægi rafrænnar auðkenningar til þess að markmið stefnumörkunarinnar náist.

Stafræn málefni og græni sáttmálinn til umræðu hjá EES-ráðinu

Samvinna ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu í baráttunni við kórónuveirufaraldurinn og afleiðingar hans voru í brennidepli á fjarfundi EES-ráðsins 28. maí síðastliðinn. Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, stýrði fundinum af hálfu EFTA-ríkjanna í EES. EES-ráðið, er skipað utanríkisráðherrum EES EFTA-ríkjanna og fulltrúum framkvæmdastjórnar og ráðherraráðs ESB. Fundurinn var sá fyrri af tveimur fundum ráðsins á þessu ári. Í sameiginlegri ályktun er farið ítarlega yfir ýmsa þætti EES-samtarfsins. Getið er um væntanlega nýja löggjöf um stafræn málefni sem muni stuðla að öryggi, sanngirni og lögmæti á innri markaði fyrir stafræna þjónustu. Þá segir að þörf sé á miklum metnaði, samtakamætti og brýnum aðgerðum til að hraða umbreytingu yfir umhverfisvæna framtíð þar sem komið væri á jafnvægi í loftslagsmálum. Vinna væri í gangi við að endurskoða fjölmargar EES-gerðir á sviði umhverfismála sem hluti af pakka til að ná fram 55% samdrætti losunar gróðurhúsalofttegunda árið 2030. Þar sé meðal annars mikilvægt að finna leiðir til að fjárfestingar einkaaðila beinist að grænum verkefnum.

Sjá einnig frétt á vef utanríkisráðuneytisins um fundinn.

Ályktað um framtíð evrópskrar ferðaþjónustu

Í skugga þess að ferðaþjónusta og samgöngur urðu jafn harkalega fyrir barðinu á heimsfaraldrinum og raun ber vitni ályktaði ráðherraráðið í síðustu viku um framtíðarsýn í evrópskri ferðaþjónustu

Ályktunin, sem ber yfirskriftina Ferðaþjónusta í Evrópu næsta áratuginn; sjálfbær, þrautseig, stafræn og félagsleg, sýnir með skýrum hætti vilja ráðsins til að endurreisa atvinnugreinina. Auk efnahagslegrar þýðingar sé greinin ekki síður mikilvægur hlekkur í verndun og kynningu evrópskra gilda og menningararfs.

Í ályktun ráðsins kemur fram að í árslok 2021 sé stefnt að birtingu samevrópskrar stefnu í ferðamálum, European Agenda for Tourism 2030/2050. Í henni skal m.a. koma fram hvernig styðja má við stafræna og græna umbreytingu greinarinnar, í samræmi við grunnstefnu ESB, og efla þannig samkeppnishæfni hennar gagnvart öðrum atvinnugreinum. Einnig er bent á þá möguleika sem felast í þeim bjargráðasjóðum ESB sem ætlað er að styðja aðildarríkin við uppbygginguna í kjölfar Covid-19.

Fram kemur að öflugur innri markaður renni stoðum undir styrkingu atvinnugreinarinnar en einnig er bent á þýðingu þess að skilgreina þarfir lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu svo að þau geti virkað sem hreyfiafl í byggðaþróun og fjölgun nýrra starfa.

Í samræmi við það sem hefur verið ofarlega á baugi í umfjöllun um ferðaþjónustu á vettvangi ESB undanfarin ár er mikilvægi jafnréttis kynjanna, menntunar og ýmiss konar þjálfunar, t.d. í stafrænum lausnum, undirstrikað m.a. til að ungt fólk sækist eftir því að hasla sér völl í greininni.

Eins og nærri má geta er komið inn á mikilvægi loftslags- og umhverfismála og nauðsyn þess að atvinnugreinin leggi sitt af mörkum varðandi bætta nýtingu hráefna, kolefnislosun, vatnsnotkun og förgun sorps. Einnig er komið inn á mikilvægi nýsköpunar t.d. í samgöngum, byggingu mannvirkja og á sviði stafrænna lausna, eins og áður segir.

Jafnframt felst í ályktuninni hvatning til aðildarríkjanna, sem núna skipuleggja sumarið, um að vera markviss og samhent í sóttvörnum á þeim stöðum sem ferðamenn sækja.

Gera má ráð fyrir að á fundi ferðamálanefndar framkvæmdastjórnarinnar 22. júní n.k. verði fjallað nánar um ályktunina og hvernig standa skuli að gerð samevrópskrar ferðamálastefnu.

Ályktun ráðherraráðsins: https://www.consilium.europa.eu/media/49960/st08881-en21.pdf

Vonir bundnar við aukinn hreyfanleika vísindamanna

Ráðsfundur vísindamálaráðherra ESB fór fram í lok síðustu viku. Á meðal helstu atriða á dagskrá fundarins voru:

Á fundinum ræddu ráðherrarnir hvernig undirbúa mætti innleiðingu og framkvæmd hins nýja evrópska rannsóknasvæðis til næstu tíu ára. Umræðurnar koma í framhaldi af ráðsniðurstöðum um nýja evrópska rannsóknasvæðið sem samþykktar voru í desember síðastliðnum.

Eitt af lykilatriðunum á hinu nýja evrópska rannsóknasvæði er að gera starfsvettvang vísindamanna eftirsóknarverðari og stuðla að frekari hreyfanleika vísindamanna um álfuna og taka niðurstöður ráðsins á þessu sérstaklega.

Ýmislegt hefur þegar áunnist þegar kemur að þessum málum, m.a. með Euraxess starfatorginu sem veitir upplýsingar um laus störf í rannsóknum, COST verkefnum sem styrkja vísindafólk til þess að byggja upp samstarfsnet og MSCA áætluninni sem veitir styrki til samstarfsneta háskóla, stofnana og fyrirtækja, auk einstaklingsstyrkja til framúrskarandi nýdoktora.

Hins vegar eru enn ýmsar hindranir í veginum og í niðurstöðum sínum hvatti ráðið aðildarríkin og framkvæmdastjórnina eindregið til þess að efla enn frekar samstarfið og skuldbindingar sínar á þessum sviðum. Leggur ráðið m.a. til að komið verði á fót kerfi sem heldur utan um upplýsingar um hreyfanleika vísindamanna um álfuna, metur vinnuumhverfi og -aðstæður og stuðlar að kynjajafnrétti. Þá eru samstarfsnet háskóla (e. European University Alliances) hvött til að taka að sér tilraunaverkefni um ný ráðningarkerfi fyrir nýliða, auk starfsþjálfunar og umbunarkerfa.

Framkvæmdastjórn ESB er einnig að vinna að ýmsum verkefnum til þess að bæta starfsumhverfi vísindamanna, m.a. eru í vinnslu tillögur að nýjum siðareglum fyrir ráðningu vísindamanna (e. code of conduct for recruiting researchers) þar sem settar verða fram reglur og skyldur bæði fyrir vísindamennina og vinnuveitendur þeirra. Dæmi um annað verkefni er nokkurs konar flokkunarkerfi (e. taxonomy) fyrir rannsóknarstörf til þess að búa til sameiginlegan ramma sem hægt er að styðjast við til þess að hægt sé að skoða og meta aðstæður í mismunandi löndum. Ekkert af þessu verður þó bindandi fyrir aðildarríkin heldur er einungis verið að búa til ákveðinn grundvöll til þess að efla og bæta starfsumhverfi vísindafólks í Evrópu.

Fréttatilkynning og bakgrunnsgögn fundarins.


Brussel-vaktin er gefin út af sendiráði Íslands gagnvart Evrópusambandinu. Vaktin kemur út að jafnaði tvisvar í mánuði. Þar er greint frá því sem efst er á baugi í stefnumörkun Evrópusambandsins og á vettvangi EES-samningsins.

Ábyrgðarmaður er Kristján Andri Stefánsson sendiherra.

Hægt er að gerast áskrifandi með því að fara í „Áskriftir“ hér á vefnum og merkja þar við Brussel-vaktina. Einnig er hægt að senda tölvupóst með beiðni um áskrift á [email protected].

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta